19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um frv. um tekjustofna sveitarfélaga, en fannst eðlilegt og raunar sjálfsagt og skylt að verða við þeim sjálfsögðu óskum fulltrúa tveggja flokka, beggja stjórnarandstöðuflokkanna, sem hafa látið í ljós ósk sína um það hér í dag, að 3. umr. málsins í hv. þingdeild yrði frestað þangað til fyrir lægi heildarskattlagningin sem hæstv. fjmrh. boðaði að mundi koma öðru hvorum megin við helgina. Þar sem hann gat lesið upp tillögur sínar um skattstiga held ég að annað eins afrek hafi verið unnið og að koma þessu frv. fram fyrir helgi. En hæstv. forseti þessarar deildar, sem í reynd er 1. varaforseti, lýsti því yfir, að það úrskurðist að hér skuli haldið áfram og ekkert múður lengur. Þetta er það sem ég ætla að láta leiða til lykta, að hér skuli ekki sýnd nokkur sanngirni í því að verða við óskum manna um að bíða eftir hinu frv. Þetta lýsir alveg sérstakri lipurð forseta og sérstakri lipurð ríkisstj. sem hann er að þjóna. Ég óska hæstv. ríkisstj. til hamingju með þennan forseta og forsetunum til hamingju með hæstv. ríkisstj. Held ég að báðir aðilar geti þá vel við unað, því þetta mun vera sameiginleg ákvörðun stuðningsliðs ríkisstj. og forsetans frá Ólafsvík.

Ég hélt að það hefði ekki verið farið fram á neitt sérstaklega mikið er gerð var krafa um að frv. lægi fyrir um skattstigana áður en þetta mál er afgreitt. Ég sé ekki heldur að það þurfi að bíða mánuði eftir því að ríkisstj. leggi fram lánsfjáráætlun. Voru þeir ekki búnir að gutla eitthvað við að semja lánsfjáráætlun í vinstri stjórninni og eru ekki sex sömu menn í þessari stjórn og voru í vinstri stjórninni? Þeir áttu að hafa lánsfjáráætlun tilbúna þegar þing kom saman 10. okt. í haust. Þó að kratarnir hefðu verið búnir að segja upp eitthvað 2–3 dögum áður trúnaði við þá ríkisstj. og fella hana var sagt í haust að lánsfjáráætlun lægi að mestu leyti fyrir. Eða ætla þessir sex ráðh. í ríkisstj. að segja að þeir hinir fjórir, sem hafa komið inn síðan í haust, séu svo tornæmir að það sé ekki nokkur leið að koma þessari lánsfjáráætlun inn í hausinn á þeim? Þessir þrír eru forsrh., dómsmrh., landbrh. og menntmrh. Hinir ættu þó að vita hvað þeir hafa gert áður. En það virðist allt hringsnúast í hausnum á þessum ráðh. Það er alveg sama hver er af þessum tíu.

Vitaskuld er ekki hægt að afgreiða fjárlög nema lánsfjáráætlun liggi fyrir. Svo segir fjmrh. Það verður að afgreiða fjárlög fyrir páska. — Það stendur allt og fellur með því. En hann drullast ekki til þess að leggja lánsfjáráætlun fram. Samt byrjar þessi ríkisstj. á því að reka þingið heim í næstum því hálfan mánuð til þess að undirbúa þingmál. Og hún gerir það með þessum endemum. Ef hæstv. forseti þessarar deildar ætlar að framfylgja öllum málum jafnvel og þessu ætla ég að biðja hann að snúa sér til ríkisstj. og biðja hana að hraða því að leggja fram þau verkefni sem er óumflýjanlegt að leggja fram.

Svo kem ég að stefnuræðu forsrh. Hann les hér, eftir að þessi ríkisstj. fæddist, upp óskalista sem þeir kalla málefnasamning eða starfssamning eða eitthvað þess háttar, les það hér upp á fyrsta degi þings eftir að ríkisstj. er mynduð. Það er langur loforðalisti. Þar er minnst á fjölda af málum sem eru sjálfsögð þjóðþrifamál sem hver og einn einasti maður getur skrifað undir og tekið undir. En þar er ekki minnst neitt á hvernig eigi að afla fjár til að koma þessum málum fram. Þess vegna bíður þingheimur eftir því, að ríkisstj. leggi fram stefnu sína — eða er þetta stefnulaust rekald þó það hafi verið bætt við áhöfnina og smíðaðir tveir stólar upp á 1800 þús.? Hversu lengi á að bíða eftir þessu? Þingsköp segja fyrir um að það eigi að leggja fram stefnuræðu, og það á að ræða þá stefnuræðu. Stefnan er ekki einkamál ríkisstj. það er skylda, sem hvílir á hverri ríkisstj. að leggja fram stefnu sína og ræða hana á Alþ. Það er skylda skylda stjórnarandstöðu að ræða þá stefnumörkun. Er þessi stefnumörkun kannske með þeim hætti að það eigi ekki t.d. að vera fiskverð í þessu landi nema í nokkra daga á vertíðinni? Það dróst næstum því allan janúarmánuð að fiskverðið kæmi. Því er sagt upp um mánaðamótin febr.-mars. Það er ekki komið enn þá. Það er verið að biðja um frest enn til þess að ákvarða fiskverðið. Vertíðin verður búin. Hvað ætli Guðmundur J. segði ef þeir ákvæðu að leggja niður tímakaupið hjá meðlimum Verkamannasambandsins og segðu þeim: Við ætlum að láta þetta í gerðardóm og þú verður að bíða rólegur, Guðmundur minn. — Þetta mega sjómenn við una. Hvar er sjútvrh., formaður Framsfl.? Svona gengur það til hjá honum. Það stóð ekki á málgagni Ragnars Arnalds, ef það liðu 3–4 dagar að fiskverð var ekki komið, að gagnrýna það harðlega. Hvar er gagnrýnin í málgagni Ragnars Arnalds núna? Hún kemur aldrei fram. Þeir steinþegja. Þetta er orðinn steinsofandi íhaldsflokkur.

Nú þætti mér gaman að spyrja Alþb.-mennina, ráðh. við ofninn og fjmrh., hvað þeir segja nú um kjarasamningana, og biðja þá að rifja upp það sem þeir sögðu 1977. Þá var búið að hlunnfara verkamenn og aðra vinnandi menn í þessu landi, eins og þá var sagt, um langan tíma og þá þurfti heldur betur að reiða til höggs. Þá þoldi þjóðfélagið háar og miklar kauphækkanir. En núna kemur íhaldssamasti Alþb.-maðurinn fram, sá sem gengur lengra en nokkur annar, fjmrh., og segir: Þetta þjóðfélag þolir engar grunnkaupshækkanir. Og þeir segja í klausunni, sem Gunnar Thoroddsen, fósturfaðirinn, las upp, að ekkert megi hækka nema eftir ákveðnum reglum og leiðum. En það má hækka aftur sumt, eins og brennivínið og tóbakið. Það má fara upp úr öllu valdi. Það stóð ekki á þeim að samþykkja það. En fjmrh. segir: Engar grunnkaupshækkanir. — Ég er honum sammála. Það á engar grunnkaupshækkanir að leyfa. En þá verður annað að fylgja í kjölfarið. Ríkisvaldið verður að ganga á undan með fögru fordæmi og ekki leggja fram hækkanir á hækkanir ofan á öllum sviðum ríkisbúskaparins.

Hvað segir um heildarútgjöld í fjárlagafrv. Ragnars Arnalds? Þar hækkar æðsta stjórn ríkisins um 48.3%. En hámarkið er í fjmrn., því aðhaldssama. Þar er hækkunin frá fjárlögum 1979 til þessa frv. aðeins 214.2%. Sjútvrn. er með einna minnstu hækkunina. Það er með aðeins 25.7%. En landbrn. er auðvitað helmingi hærra með 51.7%.

Það er mesta áhyggjumál ríkisstj: hvað vel veiðist í þessu landi. Sjútvrh. sagði og málgagn hans Tíminn birti fyrir nokkrum dögum á forsíðu, að þessi afli stefndi í óefni. Það var ekki verið að láta þetta inn í blaðið. Það er alveg hryllilegt hvað er mokað upp af fiski og hvað mikið er að gera í landinu. Það er mokafli og vinna í hverju einasta frystihúsi. — Þetta er það sem þessir tíu hafa helst áhyggjur af. Það hefur ekki heyrst rödd frá neinum hinna níu sem mælir gegn þessu áliti sjútvrh. (Gripið fram í: Þetta er ægilegt ástand.) Þetta er hryllilegt ástand. — Það er von að formaður Verkamannasambandsins taki undir með mér en verst er að hann skuli styðja þessa stjórn algjörlega á móti sannfæringu sinni. Ég vildi að hann hefði þó ekki væri nema bara hluta af sannfæringu Alberts. Þá mundi hann ekki styðja þessa stjórn.

Nei, það voru montnir menn sem settust í ráðherrastóla þegar þessi stjórn var mynduð, rígmontnir allir tíu, og þeir kölluðu sig lukkustjórnina og voru svo montnir að vera í lukkustjórn. Hún er nú ekki búin að starfa lengi, en ég skal hryggja ykkur með einu, að farið var að kalla hana ólukkustjórn þegar í stað. Hvað verður þá þegar líður á árið, því þetta er engin stjórn? Ég sé ekki nokkra hreyfingu til batnaðar frá því að kratagreyin voru. Þeir voru þó ekki nema sex.

Hvernig á að halda áfram að berjast við verðbólgu þegar ríkisvaldið á hverjum tíma gengur alltaf á undan með ljót fordæmi og kyndir undir verðbólgunni? Hvernig er þá hægt að búast við því að þegar rekstur heimilanna í landinu heldur áfram að aukast að sama skapi sé hægt að segja við fólk: Hingað og ekki lengra, ekki hærra kaup. Þið þurfið að taka á ykkur aukin útgjöld. Við erum komnir hérna til þess að drottna og deila. — Hvað er orðið af talsmönnum verkalýðsins? Hvað er orðið af talsmönnum þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, — mönnunum sem töldu sig fyrst og fremst vera að berjast fyrir þá? Hafa þeir gleymt fyrri stefnumálum sínum ? Hafa þeir algjörlega lagst undir sæng og láta fara vel um sig og eru ánægðir og glaðir yfir því að sitja í ríkisstj.? Nei, það er ekki svo mikil gleðin að sitja í ríkisstj. að þessir menn geti verið undir niðri ánægðir. Þeir mega ekki vera það. Þeir hafa axlað ábyrgð sem þeir verða að taka á sig. Þeir hafa axlað þá ábyrgð að stjórna þessu landi og marka stefnu. Ríkisstj. hefur nú verið við völd á annan mánuð og hún er stefnulaust rekald — algjörlega stefnulaust rekald. Það veit formaður þingsflokks Alþb. eins vel og ég að hún væri ekkert verri þó hann væri í stjórninni.

Eigum við að halda áfram á braut verðbólgunnar? Steingrímur sagðist ætla að fara norsku leiðina, sem tæpt er á í málefnasamningnum eða starfslýsingunni eða hvað plaggið heitir nú. Það á enga sérstaka leið að fara. Hún á bara að æða áfram vittaus og botnlaus, þessi verðbólga. Og það er ósköp eðlilegt að menn séu svartsýnir bæði í atvinnulífinu og allir launþegar þessa lands, því það er víðast hvar samdráttur fram undan. Það er ekki fyrir það að ytri skilyrði séu ekki þessu landi hagstæð, heldur vill meiri hl. á Alþingi Íslendinga ekki berjast við þessa verðbólgu sem er að tröllríða öllu í þjóðfélaginu. Eftir því sem hún dansar meira og fjörugar og verður þróttmeiri minnkar í pyngju þeirra sem minnst mega sín. Það eru þeir sem fara alltaf verst út úr verðbólgudansinum, þessum hrunadansi verðbólgunnar sem ríkisstj. er að kynda undir, en ekki draga úr.

Ég fyrir mitt leyti skyldi sætta mig við óbreytta krónutölu frá því sem var í fyrra til allra framkvæmda ef það væri tekið á í baráttunni við verðbólguna. En hver sættir sig við allt óbreytt þegar verðbólgan æðir áfram í 50–60 eða jafnvel 70–80%, eins og nú virðist horfa á öllum sviðum? Eina, sem kemur á móti, er að stjórnin kvartar undan því hvað mikið veiðist. Það virðast vera helstu áhyggjurnar. Væri ég fjmrh. mundi ég gleðjast yfir því hvað vel veiddist, því það er grundvöllur þess að geta rækt eitthvað af þeim skyldum sem þjóðfélagið hefur við þegnana. Það er líka grundvöllurinn að ná tekjum í kassann, því eftir því sem menn þéna meira er hægt að ná fleiri krónum í ríkiskassann. En nú virðist öllu snúið við.

Kerfiskarlarnir og fræðingarnir eru að tröllríða öllu. Þeir eru að reikna út. Ekki batnar það eftir að tölvuskrattarnir komu til viðbótar, því þeim mun meiri árangri ná þeir í öllum útreikningi. En þeir segja: Við erum hámenntaðir menn, og við reiknum alveg rétt og tölvukvikindin reikna líka rétt, þær reikna bara miklu meira en við af því að þær eru svo afkastamiklar. — Ég efast ekkert um að þetta er allt hárrétt útreiknað, en forsendurnar, sem þeir gefa sér, eru rangar. Það er kjarni málsins.

Það er verið að reikna út t.d. hvað fiskiskipaflotinn sé allt of stór, hann sé tvöfalt stærri en hann þurfi að vera. Það hefur engum af þessum snillingum dottið í hug að orðið hafi miklar og víðtækar breytingar á skipaflotanum. Það eru allt aðrar mannaíbúðir núna í skipum en áður var. Þá var meira lagt upp úr því að hafa lestina sem stærsta og láta karlana hírast helst í einum lúkar, en nú er þó farið að hafa mannsæmandi íbúðir til sjós ekkert síður en á landi, sem betur fer. En hvorki kerfiskarlarnir né tölvan taka neitt tillit til þessa. Og svo gráta forustumennirnir í ríkisstj. yfir því hvað vel veiðist.

Ég held að þó að hæstv. forseti hafi nú úrskurðað að þetta mál skuli fara fram ráði auðvitað þingmeirihlutinn. Ég minni á að Sjálfstfl. var ekki klofinn í þeirri afstöðu til mála að leggja af skatta vinstri stjórnarinnar. Og m.a.s. eftir kosningar og fyrir jól stóð 3. þm. Reykv. upp og mótmælti mjög sköttum vinstri stjórnarinnar. (Gripið fram í: Hann fékk engan stuðning.) Hann fékk stuðning frá Sjálfstfl. öllum, því Sjálfstfl. allur var á móti þeirri skattlagningu. Sjálfstfl. hefur ekkert breytt um skoðun, nema 3. þm. Reykv. og mennirnir sem komust í ráðherrastóla með Framsfl. og Alþb. Þeir skiptu um skoðun. Nýja gjaldið, sem vinstri stjórnin setti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði í Reykjavík, er Albert Guðmundsson m.a. s. búinn að kokgleypa. (AG: hvenær?) Með því að styðja þessa stjórn, með því að viðhalda þessum sköttum, með því að gefa Gunnari Thoroddsen reisupassa til Bessastaða. Þetta er guðfaðir ríkisstj. Framsfl. og Alþb., heildsalinn Albert Guðmundsson. Það er guðfaðir ríkisstj., það er maðurinn sem ber ábyrgð á afkvæminu. (AG: Peningapúkinn?) Gróðapungurinn. Þá hefurðu það. Þú átt að fara rétt með það sem ég segi. (Gripið fram í: Er þetta framboðsfundur á Þingeyri?) Hvað eru menn úr annarri deild að rífa kjaft? Getur ekki forseti látið þennan mann fara út? Hvað er hann að vaða hér uppi? Þótt hann sé formaður þingflokks Alþb. er enn þá þingræði í þessu landi. Það er ekki búið að afnema það enn þá. (Gripið fram í.) Þú notar auðvitað hvert tækifæri, ég veit það.

Ég ætla svo að fara að ljúka máli mínu. Ég tók fram í upphafi að ég hafði ekki ætlað mér að tala um þetta mál, og hef lítið talað um það. Ég hef fyrst og fremst verið að tala um það vegna þess að ég mótmæli þeim vinnubrögðum sem forseti og ríkisstj. viðhafa í þessum málum. Það er sjáanlegt að þessi ríkisstj. ætlar að gera vinstri stjórnina góða í skattlagningu á einstaklingana í þessu landi, og það kemur vel á vondan sem vildi ekki styðja ríkisstj. sem mynduð var 1974 vegna þess að Framsfl. fór með viðskiptamál, en hann gat gefið út víxil í blankó fyrir núv. ríkisstj. og fékk aftur framsóknarmann í embætti viðskrh. Annað mun fara eftir því hjá þessari ríkisstj., enda hefur hún sýnt það þessa daga sem hún hefur lifað.