19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er auðvitað svolítið erfitt fyrir okkur, sem erum í heilsteyptum og samstæðum stjórnarandstöðuflokki, að taka til máls eftir að þeir hafa verið að eigast við, pólitískt og persónulega stjórnarsinnarnir og stjórnarandstæðingarnir í Sjálfstfl., þannig að þeir elskast og njótast héðan úr ræðustól og ástargletturnar fljúga um sali. En engu að síður langar mig að fara að því sem forseti mælir fyrir um og tala um það mál sem hér er til umr.

Í gær samþ. meiri hl. í þessari hv. deild að hækka útsvarið á þegnunum í þessu landi eða gefa heimild til slíks. Það fékkst fyrir því viðurkenning í dag með því að hér hóf hæstv. fjmrh. umr. og gerði í mjög grófum dráttum grein fyrir því, hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst leggja til við Alþ. — sem kann að vera allt annað en það sem samþykkt verður — að haga skattlagningu í þessu landi. Formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, bar þá einföldu spurningu upp við hæstv. félmrh. hvort hann vildi ekki ganga í það með öðrum stjórnarsinnum að þessu máli væri frestað þannig að hv. þd. gæti skoðað þessi mál bæði saman og afgreitt þau í einu lagi.

Hér erum við auðvitað ekki að tala um nein smámál. Við erum að tala um hvernig heildarskattlagningu í þessu landi verður háttað á þessu ári. Hér hefur verið talað um hvernig skattar koma til með að bitna af miklum þunga á láglaunafólki og vaxandi þunga. Það er auðvitað alveg rétt. Ég vil einnig vekja athygli á því, að eins og hæstv. fjmrh. lýsti þessum skattstiga erum við nú að hverfa frá sérsköttun hjóna. Það er miðað við 6 millj. kr. tekjur á ári á einstakling, sem eru um 1/2 millj. kr. tekjur á mánuði. Slíkt hefur ekki verið talið há laun í þessu landi. Á einstaklinga koma skattar til með að leggjast af fullum þunga þar sem um sérsköttun hjóna og þar með hálfan frádrátt annars maka verður ekki að ræða. Við erum á góðri leið með að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir um hvernig skattheimtu verður varið á þessu ári. Við erum að taka í raun meiri og stærri ákvarðanir um kjör fólks og kjaramál en ráðast í samningum. Þetta er kjarni málsins.

Það er farið fram á það við hæstv. félmrh., sem hefur látið í veðri vaka að hann láti sig kjör fólks í þessu landi einhverju skipta, að afgreiðslu þessa máls verði frestað um eins og tvo daga. Hæstv. fjmrh. sagði að skattstiginn í formi frv. gæti legið hér fyrir um helgina. Hvað er þá eðlilegra í veröldinni en að hv. þd. afgreiði þetta tvennt saman? Hæstv. félmrh., sem eitt sinn hafði áhuga á kjörum fólks, lýsti því í grein í Þjóðviljanum, ég held um síðustu helgi, að hann hefði mikinn áhuga á sósíalisma og lýðræði, sem mér skildist að væri eitt og það sama. Vel má svo vera. Er það lýðræðislegt þegar tveir flokkar, sem hafa saman 22 þm. í þessari hv. deild, hvernig svo sem innanflokksmálum Sjálfstfl. háttar, fara fram á að um slíka frestun sé að ræða, að verða ekki við slíkri ósk? Ég hef ekki heyrt að hæstv. ráðh. Friðjón Þórðarson eða Pálmi Jónsson hafi skoðun á þessu máli. Ég geri þó ráð fyrir því, þegar aðrir eins forustumenn og hv. þm. Matthías Bjarnason og Halldór Blöndal eru að tala hér, að sú sé skoðun þingflokksins að þessi frestun skuli eiga sér stað. (HBI:Það er rétt.) Það er rétt, segir hv. þm. Halldór Blöndal. Ég játa á hinn bóginn að ég er ekki sérfræðingur í innanflokksmálum í Sjálfstfl., en þetta sýnist mér vera sjálfsögð ósk. Ég óska eftir að hæstv. félmrh. tjái sig um þetta. Því ekki að bíða í tvo daga, einn dag? Kannske verður hæstv. fjmrh. tilbúinn með skattstigann þá og við sjáum þetta í heild sinni.

Hvað erum við að gera við fólkið í landinu og gagnvart fólkinu í landinu? Í fljótu bragði og eftir að hafa heyrt það sem fram gekk af munni hæstv. fjmrh. í dag sýnist mér lagt út í sennilega stórfelldari skattahækkanir en nokkru sinni um langa hríð. Og þegar við á sama tíma erum að samþykkja að hækka útsvarsprósentuna um 10%, sem er flatur skattur, og enn a.m.k. hefur ekki verið samþ. að taka sérstakt tillit til láglaunafólks, þannig að útsvarsprósentan leggst af sama þunga á þá er lægst hafa launin og hina, hvað er þá eðlilegra í heiminum en sú fróma ósk þeirra, sem þó láta sig enn hag launafólks einhverju varða, að þetta sé skoðað í heild sinni? Ég skírskota til fulltrúa Alþb. hér, annarra en þeirra sem nú eru forstjórar fyrir ríkisvaldið og eru farnir að hugsa og hegða sér sem slíkir, hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, félaga minn úr Reykjavík, hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur: Farið þið með mennina fram og hafið vit fyrir þeim. Svo koma þeir inn aftur og við frestum þessu máli, skoðum það svo þegar málið liggur fyrir í heild sinni, sem samkvæmt yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Ragnars Arnalds gæti verið á morgun. Þá vitum við, ef ykkur sýnist eins og mér að nú sé verið að leggja til stórfelldar skattahækkanir og án þess að við séum að skipta launafólki í hálaunafólk og láglaunafólk, enda eru þær skiptingar allar meira og minna vitlausar og misvísandi, hvað er verið að gera hér og hvað við erum að samþ.

Það var ekki lítil yfirlýsing, sem fram gekk af munni hæstv. fjmrh. í dag, þar sem hann, að vísu í mjög grófum dráttum, gerði grein fyrir skattstiganum. Þetta er sjálfur kjarni málsins. Á ég að trúa því að samvisku hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar og hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur hafi svo farið aftur bara við það að setjast hér inn, að þau láti sig ekki lengur slíkt nokkru varða? 10% hækkun á útsvari er mikil hækkun. Við fáum þjónustu fyrir hluta af því, gott og vel. Annað fer í eyðslu og bruðl eins og gengur, en slík hækkun er engu að síður stór ákvörðun. Eigum við ekki, áður en við samþykkjum þetta endanlega og meðan við höfum enn tækifæri, að sjá hvað er á hinum skattstiganum, ríkismegin. Hvað er verið að gera gagnvart skattborgurunum í landinu? Ég skírskota til samvisku þeirra komma, sem enn hafa samvisku, að skoða þessi mál og taka undir það með mér og leggjast á félmrh., sem er þegjandalegri en oft áður, að fresta þessu máli, skoða það í heild sinni. Tveir þingflokkar hafa samtals meiri hl. í þessari hv. d. og hafa það þangað til ráðh., tveir hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson, tjá sig um málið. Við erum fleiri, sem þessu viljum fresta, samkv. venjulegum skilningi á þingflokkum, störfum þeirra og gerðum. Úr því að svo er og þeir þegja með hæstv. ráðh. Svavari Gestssyni, hæstv. ráðh. Friðjón Þórðarson og Pálmi Jónsson, og meðan þeir þegja og þegja stíft og þegja lengi og þegja vel þá er þetta meiri hl. í hv. deild.

Ég endurtek að hér inni eru þm. sem telja sig vera sérstaka málsvara launafólksins í landinu. En það er ekki eingöngu að vera málsvari launafólksins í landinu að hafa hátt á tveggja ára fresti, þegar uppi eru kjarasamningar, og tala um grunnkaup. Skattar skipta miklu máli og meira máli að því er varðar raunveruleg kjör og afkomu fólks. Hitt er aftur rétt og mín skoðun sú, að íslenska verkalýðshreyfingin, bæði sú sem semur á svokölluðum frjálsum vinnumarkaði og eins hin sem semur við ríkið, hafi verið ótrúlega stöðnuð, eins og alls staðar þar sem flokkar með kommúnístísku ívafi hafa mikil ítök í verkalýðshreyfingum, og átti sig ekki á því að hlutir eins og félagslegar umbætur, skattamál og neytendamál skipta meira máli en eintómt gal um grunnkaup. Við höfum búið við frumstæða verkalýðshreyfingu, en um leið og ítök kommanna fara þar minnkandi fer verkalýðshreyfingunni fram, og er það vel. En engu að síður sitja hér fulltrúar þessa flokks.

Það er verið að fara fram á þá einföldu og frómu ósk að fresta þessu máli í einn dag. Það fer þó eftir því, hversu skjót handbrögð hæstv. fjmrh. getur haft. Hann er viðbragðssnöggur maður, er mér sagt, ég hef að vísu ekki orðið var við það, en mér er sagt að hann sé viðbragðssnöggur maður. Hann getur verið tilbúinn með frv. um skattstiga í kvöld eða á morgun. Svo skoðum við málið. (Gripið fram í: Annað kvöld.) Annað kvöld. Ef svo er, er til sanngjarnari hlutur í heimi? Ég er viss um að ef hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson færi á fund í stjórn Verkamannasambands Ístands væru þeir sammála mér þar um að þetta væru skynsamleg vinnubrögð. Ef hv. þm. Guðrún Helgadóttir fer á fund í stjórn BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, væru þeir sammála mér þar. Fleiri leiðtogar launafólks, sem þar hafa starfað í forystu, eru víst ekki lengur í þingflokki Alþb., nema ef vera skyldi hv. þm. Skúli Alexandersson. En allt um það eru þarna þó tveir sem skyldir eru launþegahreyfingunni. Er ekki alveg sjálfsagt mál að fara svona að?

Það er alveg ljóst að hæstv. forseti, sem er varaforseti, ætlar sér að böðla þessu máli í gegn. Hann hefur reyndar aldrei haft nein tengsl við launþegahreyfinguna, — en þið hin, sem hafið það: Er þetta ekki sjálfsagt mál?

Ég vil bera spurningar formlega upp við hæstv. félmrh. Svavar Gestsson og biðja hann um að svara: Í fyrsta lagi, er ekki sanngjörn ósk og krafa að þessi mál séu lögð að jöfnu, skoðuð saman og afgreidd saman? Og í öðru lagi, hvað er því til fyrirstöðu? Aðeins eitt orð frá honum sem félmrh. til forseta hv. d. mundi duga til þess að frestur yrði gefinn. Og úr því að þetta er svona einfatt og úr því að hæstv. ráðh. er sérstakur talsmaður sósíalisma og lýðræðis, að eigin sögn, hvers vegna í ósköpunum gerir hann þá ekki þetta? Við, sem berum fyrir brjósti hagsmuni launafólks og skattgreiðenda, sem er að mestu einn og sami hópurinn, förum fram á frest.

Mér er ljóst að það hefur orðið atferlisbreyting í Alþb. á síðustu tveimur árum, og mér er ljóst að þetta er allt annar flokkur en var. Mér er ljóst að Alþb. er orðinn flokkur ríkisforstjóra sem hugsa eins og ríkisforstjórar, hegða sér eins og ríkisforstjórar eða forstjórar í stórfyrirtækjum og tengsl eru að rofna, og mér er ljóst, ef nota má samlíkingu flokks og manns, að flokknum líður illa og fólkinu í honum líður illa. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson ekur sér í sætinu. Ég get vel skilið að hann geri það. En hvað í heiminum er sanngjarnari ósk og krafa en að ákvörðun um útsvarsprósentu og ákvörðun um skattstiga séu skoðaðar saman og afgreiddar saman? Ég trúi ekki að hv. þm. Alþb., launamannaflokksins, geti haft á móti þeim afgreiðslumáta. Og fari svo, að ríkisforstjórinn hv., Svavar Gestsson, komi hér og sé þeirrar skoðunar að við séum svo sem búin að samþykkja þetta og sveitarfélögunum liggi á og síðan fari hann að hegða sér eins og forstjóri og gleymi fólkinu, eins og við erum sammála um að margir forstjórar hafi tilhneigingu til að gera, og flytji hann kerfisræðu hér, sem ég svo sem á von á, þá mælist ég til þess að síðustu „móhí-kommarnir“, fulltrúar launafólksins sem starfa í stéttarfélögum, hv. þm. Guðmundur og Guðrún, þrýsti á og ýti á og skori á hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Leggist á.) Jafnvel, já, ég hef ekki verið á fundi á Þingeyri síðan 1974, en ég skil húmorinn. — Allt um það mælist ég til þess að þeir beiti áhrifum sínum við hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. er ekki orðinn svo skyni skroppinn, hann er ekki orðinn svo fjarlægur hreyfingum launafólks, hann er ekki orðinn svo einangraður að hann viti ekki að hæð útsvara og hæð skatta skipta afkomu fólks í þessu landi miklu.

Ég legg á það áherslu að í þessu sambandi er ég ekki að fjalla um efnisatriði málsins. Ég er út af fyrir sig ekki að fjalla um hvort 11% eða 11% að 1% viðbættu sé rétta talan, ekki heldur að tala um hvort skattstigarnir, sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í dag, séu þeir réttu eða hvort þeir ættu að vera lægri og þá með hverjum hætti þeir ættu að vera lægri. En ég er að segja að það eru rétt vinnubrögð að skoða málin í samhengi.

Hæstv. ráðh. kann að vera að undirbúa eitt kerfissvarið til. Það eru ill örlög. Fyrir nokkrum árum hefðum við getað verið sammála, ekki aðeins um margt í stjórnmálaskoðunum, heldur í lífsstíl og í þeirri afstöðu sem menn hafa til stjórnarstofnana og ríkis og þar með talið vinnubragða af þessu tagi. En menn fjarlægjast, menn breytast og flokkar breytast. Aðra eins breytingu held ég að ég a.m.k. hafi ekki lifað og eigi ekki eftir að lifa.

Það eru auðvitað aðrir þættir í þessu máli. Þáttur hv. þm. Alberts Guðmundssonar er auðvitað sérstæður. Breytingin, sem hefur orðið á honum síðan í fyrra, þegar hann var stjórnarandstæðingur við ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, er forkastanleg. Hv. þm. Eggert Haukdal hef ég svo sem aldrei skilið. En engu að síður þykir mér merkilegast og sárast í þessu, því að við getum átt von á öllu frá íhaldinu, og einkennilegust og órökréttust í þessu hegðun Alþb. og þó sérstaklega hegðun þeirra hv. þm. sem á öðrum stundum þykjast hafa einhver sérstæð, óvenjuleg og mikil tengsl við hreyfingar launafólks. Á ég að trúa því, að hv. þm. eins og Guðmundur J. Guðmundsson og Guðrún Helgadóttir séu ekki sammála mér um að útsvarsprósentan, m.a.s. þegar það er flatur skattur, ráði miklu um kjör fólks og hverjar rauntekjur fólks eru? Á ég að trúa því, að sömu hv. þm. séu mér ekki sammála um að skattstiginn, álagðir skattar á einstaklingana í landinu, sé afgerandi um hverjar eru raunverulegar tekjur fólks? Og ef svo er, hvernig getur þeim dottið í hug að menn yfir höfuð að tala séu tilbúnir til þess að afgreiða þessi mál í sitt hvoru lagi og án tengsla hvors við annað?

Við erum að taka hvorki meira né minna en ákvarðanir um hver verði afkoma fólks í landinu á þessu ári. Ég treysti því ekki aðeins að hæstv. félmrh. gefi mér svör, ég treysti því einnig að hann gefi mér ekki kerfissvör ríkisforstjóranna eða stórfyrirtækjaforstjóranna, heldur að hann gefi mér þau svör að hann hafi hlustað á skynsamleg rök og hann hafi skipt um skoðun, hann sé ekki lengur þeirrar skoðunar að það eigi að keyra þetta með valdi í gegnum þingið, heldur skulum við bíða og skoða málin í samhengi. Ég veit að hæstv. félmrh. er það skynsamur maður að hann skiptir um skoðun þegar hann finnur að hann hefur tekið ranga ákvörðun, og ég treysti því að við skoðum þessi mál saman. En fatist honum hér, því að sé maður einu sinni forstjóri virðist vera erfitt að hætta að vera forstjóri, þá treysti ég á hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson og Guðrúnu Helgadóttur að taka hv. flokksbróður sinn annaðhvort á beinið eða í mjúka stólinn og segja honum hvernig eigi að haga sér í svona málum.