19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykn. gerði hér aths. varðandi fundarsköp. Hann telur að það sé mjög óvenjulegt að einsdæmi að rædd séu ágreiningsmál hér á Alþ. meðan fjvn. situr að störfum. Öllum er kunnugt að nú er mjög óvenjulegt ástand um starfshætti Alþingis og afgreiðslu fjárlaga. Það er nú minni tími til að afgreiða fjárlög fyrir núv. ríkisstj. en oftast ef ekki nokkurn tíma hefur verið fyrir nýja ríkisstj. í landinu. Ég hef átt sæti í fjvn. í mörg ár. Þó engar óvenjulegar aðstæður hafi verið um þinghald eða nýja ríkisstj. og afgreiðslu fjárlaga í landinu hefur margsinnis komið fyrir að rædd hafa verið mikil ágreiningsmál hér inni í þingsal meðan fjvn. sat að störfum. Ég minnist þess margsinnis að við fjvn.-menn höfum ekki getað sinnt því að sækja þingfundi í eina eða tvær vikur og jafnvel lengri tíma meðan aðalstarfið í fjvn. fer fram. Það er því alger misskilningur hjá hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, að hér sé um eitthvað óvenjulegt að ræða. Þetta er algengt og það veit þessi hv. þm., ef hann athugar málið. Og ég veit að hann man svo vel það sem gerst hefur á undanförnum árum, að hann áttar sig á því að það stenst ekki sem hann var að segja.

Ég hafði beðið um orðið við þessa umr. Ég skal ekki níðast á því, að hæstv. forseti leyfði mér að tala hér um fundarsköp, með öðru en því að flytja hér aðeins örstutta aths. Hún er við ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, sem hér talaði mest áðan, þar sem hann lýsti því að meiri hl. þessarar hv. d. mundi vera því fylgjandi að fresta þessari umr. og afgreiðslu þessa máls. Hann nefndi nafn mitt í því sambandi. Ég get upplýst það, að ég hef ekki tekið þátt í neinni samþykkt þess efnis að óska eftir að þessu máli sé frestað. Ég vil þess vegna láta það koma hér fram að ég tel eðlilegt að þessari umr. verði fram haldið. Ég tel eðlilegt að þessari umr. verði fram haldið. Ég tel eðlilegt að þessari umr. verði lokið. Ég tel líka eðlilegt, eins og háttar til um þinghald, að þau mál sem þurfa að komast áfram séu rædd til enda, þótt það kosti kvöldfundi ef til þarf að taka.

Það mál, sem hér er á dagskrá, tekjustofnamál, er að vísu alvarlegt mál, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason orðaði það. En það er ekki alvarlegt mál hvað það snertir, að hér sé verið að leggja á útsvör. Hann margendurtók að með þessu væri verið að leggja á útsvör í landinu. Það er ekki verið að hækka útsvörin í landinu um 10% með þessu frv. Það er verið að veita sveitarstjórnum í landinu heimild með lögum þessum verði frv. afgreitt.

Ég skal ekki ræða þetta mál frekar. Það er margt, sem væri hægt að segja um þingsköp varðandi þá umr. sem hér hefur farið fram, því að hún hefur farið langt á víð og dreif frá því efni sem er á dagskrá. Það væri hægt að segja margt um þingsköp af því tilefni. En ég vildi aðeins taka þetta fram hér þegar og skal ekki gera frekari aths. með því að mér var heimilað að taka hér til máls um þingsköp.