19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég þakka umburðarlyndið. — Ég vil í fyrsta lagi mótmæla því samspili hæstv. forseta og hæstv. landbrh., að landbrh. komi hér í ræðustól undir því yfirskini, að hann sé að ræða þingsköp, og fari síðan að ræða efnislega það mál sem hér er til umr. Þetta er brot á þingsköpum og leyfist ekki heldur hæstv. ráðh. sem einnig er almennur þm.

Í annan stað varðar það þingsköp, að það er reynsla mín af starfi í þingflokki Alþfl., að þegar formaður þingflokksins, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, fer fram á einhverjar tilteknar starfsaðferðir hér í þinginu, þá gerir hann það í nafni þingflokksins alls og við öll sjö, sem sitjum í þessari hv. d., stöndum að baki okkar formanni þegar slíkar óskir eru fram settar. Ég hélt satt að segja að sama gilti um þingflokk Sjálfstfl. og þarf ekki tölvu til að leggja saman hvað þá kemur út. Ég hef hlustað á margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. ráðh. Pálma Jónssonar um það, að hann sé í þingflokki Sjálfstfl. Sama gildir væntanlega um hæstv. ráðh. Friðjón Þórðarson, sem er fjarstaddur í þessari fjarverandi ríkisstj. Og sama gildir væntanlega um hv. þm. Albert Guðmundsson. Hv. þm. Eggert Haukdal hef ég aldrei skilið. En þegar ég legg þetta saman, þá fæ ég út meiri hl. Það að ráðh. komi nú í umr. um þingsköp með þá drengilegu yfirlýsingu, að hann standi ekki með sínum þingflokki, og geri þar með hv. þm. Ólaf G. Einarsson, formann þingflokksins, ómerkan orða sinna, það eru nýjar upplýsingar fyrir mig. (Forseti hringir.) Herra forseti, þetta varðar þingsköp. Það varðar þingsköp, hvernig þingflokkarnir starfa í þessari hv. d. og hvaða vinnubrögð eru viðhöfð í þeirra nafni. Það er alveg ljóst hvaða vinnubrögð gilda í þingflokki Alþfl. Til þeirrar stundar, sem ég hlýddi á hæstv. ráðh. Pálma Jónsson, taldi ég alveg augljóst að sömu vinnubrögð giltu um þingflokk Sjálfstfl. Ráðh. hefur sem sagt komið með einstaklega drengilega yfirlýsingu og gert hv. þm. Ólaf G. Einarsson að hálfu ómerkan sinna orða. Slíkt hendir hins vegar ekki mann eins og hv. þm. Albert Guðmundsson og áreiðanlega ekki hæstv. ráðh. Friðjón Þórðarson. Þetta er meiri hl., þetta er ósk meiri hl. samkv. öllum einföldustu reikniformúlum.