19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Albert Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið mikið talað, ekki bara á Alþ., heldur víða um landið, um þann mismun sem er á olíuverði til upphitunar annars vegar og orkukostnaði úti um land, og hins vegar orkukostnaði hitaveitu og rafmagns hér á þéttbýlissvæðinu í Reykjavík, á Reykjanesi og á Suðurlandi. En af hverju er þessi mikli mismunur? Það er út af fyrir sig ljót saga.

Olíuhækkanir erlendis eiga að sjálfsögðu að koma á útsöluverð olíu og eldsneytis, en ríkissjóður á ekki að gera vandann sjálfan að tekjulind. Við erlendar hækkanir heldur prósentuálagning við innflutning og verðlagningu eldsneytisins eða orkunnar áfram, og ef olía eða innflutt orka hækkar um 10% bætast ekki 10% af innkaupsverðinu á útsöluverðið, heldur margfaldast það. Að skattleggja vandann, að gera vandann sjálfan að tekjulind fyrir ríkissjóð er eitt af því ljótasta sem ég þekki til í ríkisrekstrinum og eru þó margar tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs sem ég get illa sætt mig við. Svo þegar ríkisstj. hefur margfaldað þennan vanda með slíkri prósentuálagningu við innflutning á orkunni leggur hún á verðjöfnunargjald til að standa undir þeim kvöðum sem hún leggur sjálf á þá íbúa þessa lands sem þurfa á olíunni að halda. Það er þetta sem ég vil benda á að er bæði rangt og mér liggur við að segja lögboðinn þjófnaður, því að á sama tíma sem ríkið leyfir sér að seilast á þennan hátt í vasa þjóðfélagsþegnanna setur það önnur lög fyrir aðra innflytjendur, hina svokölluðu 30% reglu. Þá erum við komin að því, að löggjafinn er með sérlög fyrir sjálfan sig og önnur lög fyrir þegnana. Ef þetta er ekki umhugsunarefni fyrir hv. Alþingi, þá er mér brugðið.

Ég vil taka undir það, sem hefur komið hér fram, að auðvitað þarf að koma í veg fyrir hinn mikla aðstöðumun landshluta í orkumálum, en það þarf að gera á annan hátt en gert er. Þar þarf ríkið sjálft að ganga á undan og átta sig á því, hvað það er að fara með þeirri gríðarlegu álagningu sem það hefur leyft sér á innflutta orku eftir að hún hækkar kannske um 100–150% í innkaupi. Samt sem áður er haldið áfram að nota sömu prósentutölu við innflutning og álagningu og er það eitt af því ljótasta sem ég veit um í þessu olíumáli öllu saman. Ég ætla að biðja menn að hugsa vel um þennan þátt í olíuvandamáli og orkuvandamáli dreifbýlisins.