19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mér er það ljóst, að að formi til og eins og þetta mál er fram lagt er hér um mál fjmrh. og fjmrn. að ræða. Málið er raunar flutt af hæstv. fjmrh. En hann er nú ekki við hér í kvöld frekar en oft upp á síðkastið. Hæstv. landbrh. er hér hins vegar og situr hér vel eins og hans er vani, og mig langar því til að beina þessu máli til hans.

Það er auðvitað alveg rétt, eins og fram kom hjá hæstv. landbrh., að þetta frv. bæði formið og upphæðin, og umr., sem fram til þessa hefur átt sér stað um það, gefur rækilegt tilefni til þess að landbúnaðarstefnan í landinu sé rædd. Ég held að út af fyrir sig megi staldra við það, að landbúnaðarstefnan er orðin svo dýr, að sem hlutfall af okkar þjóðartekjum jafnast hún á við herkostnað hjá þjóðum sem kosta miklu til slíks. Það mætti líka staldra við það, að landbúnaðarstefnan er orðin svo dýr, að hún heldur niðri lífskjörum allra annarra í samanburði við aðrar þjóðir. Það mætti líka staldra við það, að ef við höldum lengi svona áfram, þá fer svo fljótlega — og slíks erum við raunar þegar farin að sjá merki — að við getum ekki boðið sífellt betur og betur menntuðu fólki upp á sambærileg lífskjör við það sem gerist í löndum sem ekki eiga við þetta vandamál að etja. Þeir, sem bera hagsmuni landbúnaðar og bænda mjög fyrir brjósti, og ég efast ekki um að menn gera það af góðum hug, þessum staðreynd­um ættu þeir líka að velta fyrir sér.

En gott og vel. Við skulum þá hafa aðra viðmiðun í þessu máli, nefnilega stéttaskiptinguna meðal bænda sjálfra. Ég fullyrði að eitt af einkennum þeirrar stefnu, sem rekin hefur verið hér með þessum hætti, er að innan þessarar stéttar er bæði að finna mesta ríkidæmi, sem fyrirfinnst í þessu landi í bókstaflegri merkingu talað, og einnig sárustu fátækt, sem fyrirfinnst í þessu landi, — innan þessarar einu og sömu stéttar. Ég fullyrði að ef einhvers staðar er hægt að tala um sára fátækt, hægt að tala um lífsstíl sem sæmir ekki árinu 1980, sem sæmir ekki þeim tækniframförum og þeim almennu framförum sem þó hafa hér orðið með aðstoð og beitingu þekkingar, þá er það innan þessarar tilteknu stéttar. Og þetta held ég að séu, þrátt fyrir allt, óhugnanlegustu einkennin. Þetta fer eftir svæðum á landinu. Það má draga upp landfræðilegt kort af Íslandi og beinlínis taka út þau svæði þar sem bændur búa við kjör sem fyrir minn smekk — og ég vona allra annarra hv. þm. — eru ekki mann­sæmandi í bókstaflegri merkingu þess orðs. Þetta atriði held ég að sé hrikalegasta afleiðing landbúnaðarstefn­unnar. Og ég er út af fyrir sig sammála t.d. hæstv. landbrh. um það, að við eigum að ræða landbúnaðar­stefnuna a.m.k. af miklum þunga frá bæjardyrum bænda sjálfra.

Auðvitað má segja það og það er rétt, að það er ekki nýtt í sögunni að atvinnustétt verði, ef svo má að orði komast, fyrir barðinu á tækniframförum. Við vitum að það gerðist þegar iðnbylting átti sér stað í lok 18. aldar og upphafi þeirrar 19., t.d. á Bretlandi, — og við getum sagt að íslenskur landbúnaður hafi á þessari öld verið að ganga í gegnum sína eigin tegund af iðnbyltingu, — þá auðvitað gerðist það, að stéttir, sem um margt voru menntuðustu og upplýstustu stéttir Englands á þeim tíma, og þetta átti raunar við um alla Evrópu, — þær urðu fyrir barðinu á framförum og vélmenningu. Þá er fyrst og fremst átt við handverksmennina á þessum tíma. Mennirnir, sem höfðu búið til föt með höndunum, stóð­ust ekki samkeppni við vélarnar. Engu að síður held ég að upplýstir þm. viðurkenni, að þegar á heildina er lítið var vélvæðingin af hinu góða og er undirstaða þeirra lífskjara sem við nú búum við, jafnvel þó að stéttir hand­verksmanna hafi illa orðið fyrir barðinu á henni og það sé víða sársauki, — sársauki sem t.d. stafar af því, að kynslóð eftir skynslóð hafði sama handverkið verið stundað í sömu fjölskyldunni. Skyndilega stóðu þessar fjölskyldur, sumar með gömul og rótgróin nöfn, einar uppi, stóðust ekki samkeppnina og urðu að fara að finna sér eitthvað annað að gera.

Mér er ljóst að það er hægt að færa mjög tilfinningaleg rök fyrir því, hvað þarna átti sér stað. En eigum við að halda áfram að rökleiða og segja að framfarirnar hafi verið af hinu illa, jafnvel þó að þetta hafi verið svona? Það held ég að enginn maður geri. Eða veltum fyrir okkur að hin leiðin hefði verið farin og ef þá hefði verið komin — ég tek mér ekki það virðulega nafn sósíalismi eða jafnaðarstefna í munn í þessu sambandi — þá hefði verið komin þessi furðulega ríkisafskiptastefna, að þessum vandamálum hefði verið mætt þannig, að samkeppnisaðstaða handverksmannanna hefði verið jöfnuð gagnvart vélunum með því að niðurgreiða fötin! Það er nákvæmlega þetta sem hér hefur verið gert. Hvernig haldið þið að lífskjörin væru um alla Vestur­-Evrópu núna ef þessari aðferð hefði verið heitt? En það er efnislega og nákvæmlega þetta sem hefur verið að eiga sér stað hér í landbúnaði, með þeim afleiðingum að þarna er mikið af forríku fólki, svo ríku að ég efast um að til sé samjöfnuður á mölinni, en þarna er líka fólk sem býr við sárustu, sárustu fátækt. Og mér finnst að menn, sem ég veit auðvitað að mæla bæði af góðum og heilum hug fyrir hag bænda í landinu, ættu auðvitað fyrst og síðast að velta þessari staðreynd fyrir sér.

Annar þáttur þessarar stefnu er síðan sá, og neytendur verða fyrir barðinu á honum, að þessi stefna, þessi furðulega ríkisafskiptastefna — og ég frábið mér orðið sósíalismi í því samhengi, m.a. vegna þess að bændur eru framleiðendur og verða að skilgreinast sem slíkir — þessi stefna hefur ævinlega miðað að því að niðurgreiða í samkeppni við framfarirnar, og það er það sem raun­verulega er verið að gera. Þessi stefna hefur ævinlega miðað að því að beita þessum aðferðum aðeins á tiltekn­ar vörutegundir sem fólki kannske líkaði að neyta á árinu 1930 eða 1940, en enginn veit, vegna þess hvernig búið er að brengla neysluvenjur og neyslusmekk þjóðarinnar, hvort þjóðin vill borða í dag. Og afleiðingin? Horfum á markaðina — horfum t.d. á grænmetismarkaðina í lönd­unum í kringum okkur. Þarna vill fólk borða grænmeti eða kjúklinga. Þessar framleiðslutegundir hafa orðið gersamlega út undan hér vegna þess að þær eru ekki inn undir hjá þessu kerfi. Það eru aðrar tegundir sem þeir hafa verið að framleiða. Staðreynd er að hvorki njóta þeir jafnrar aðstöðu né t.d. sambærilegra kjara á lána­markaði. Það hafa að vísu orðið mjög verulegar fram­farir nú allra síðustu árin í þessum efnum. En þó hefur verið haldið niðri bæði þróuðum neyslusmekk, og kjör­um bænda. Og er hægt að hugsa sér vitlausari stefnu í einni atvinnugrein heldur en þar sem þetta tvennt er samtvinnað með þessum hætti?

Enn önnur skekkjan, sem gerð er í þessu sambandi, er sú, að einhver hrikalegasta vísitölubinding alls sam­félagsins á sér stað í sambandi við bændur og bænda­stéttina með því að tengja kjör þeirra kjörum svokall­aðra viðmiðunarstétta. Bændur eru framleiðendur, það verðum við að skilja. Og það er munur á framleiðendum annars vegar og hinum, sem laun taka, hins vegar. Hugs­um okkur það t.d., að það eru fleiri framleiðendur í landinu. Einn framleiðir Tropicana, annar eitthvert vatnsblandað appelsínugutl. Hugsum okkur það, að við settum lög um það hér á hinu háa Alþ. að allir þeir, sem framleiddu Tropicana og ananasdjús og appelsínudjús og allar aðrar djústegundir, hefðu eina tryggingu, þeir hefðu sambærileg kjör við viðmiðunarstéttir. Hvað halda menn að gerðist? Auðvitað gerðist það, að menn flykktust úr vinnu sem þeim líkar ekki. Og það er mikið af störfum þannig að þeim, sem vinna við þau, líkar það ekki. Og við eigum að mæta því með því að borga hærri laun í slíkum efnum. Auðvitað flykktust menn úr slíkum störfum og færu að framleiða appelsínusafa. Og alveg væri sama hversu mikið þeir framleiddu af appelsínusafa, það væri tryggt að þeir hefðu sambærileg kjör! Hvernig væri það tryggt? Jú, með því að segja: Framleiðið alveg eins og ykkur sýnist. Það, sem „pöpullinn“ í landinu vill ekki neyta, jafnvel þó það sé niðurgreitt að miklu leyti, það einasta seljum við ofan í einhverja útlendinga og borgum með því útflutningsbætur!

Auðvitað sér hvert barn að þetta kerfi getur ekki gengið. Og ef við lokum hringnum, þá er kjarni málsins sá, að þetta gengur ekki heldur vegna þess að það er svo dýrt, niðurgreiðslurnar og útflutningsbæturnar og báknið, — þetta eru þrír stóru liðirnir í kringum þetta, — að lífskjörin í landinu eru farin að dragast aftur úr því sem sambærilegt gerist með öðrum þjóðum, sem eru þó, teljum við, menningarlega og efnahagslega skyldar okkur. Ég spái því — og t.a.m. stuðningsmenn núv. ríkisstj. ættu að velta því fyrir sér alvarlega — að við séum að komast á það stig. Ég viðurkenni það, að ég hélt fyrir tveimur árum að tiltekið hátt verðbólgustig mundi gera fólk hræddara en ég nú veit að hefur gerst. Virðast gilda að þessu leyti önnur lögmál hér en t.d. í Bandaríkj­um N.-Ameríku, þar sem 18% verðbólgustig er farið að vekja raunverulegan ótta og ugg, eins og menn mega þekkja.

Gott og vel. Þetta eru staðreyndir um íslenskt þjóðfé­lag sem þýðir ekki að horfa gegn. Hins vegar spái ég því, að þegar það er orðið ljóst, — og sífellt er sent t.d. fleira og fleira fólk til útlanda til að læra og þekkingarstreymið og upplýsingastreymið á milli okkar sjálfra og landanna umhverfis okkur eykst, — að kjaramunur er að verða svo áberandi og augljós — og hann fer sífellt breikkandi af þessum ástæðum — að þá renni upp stundin sem við raunverulega stöldrum við. Það verður stundin þegar menn skilja að það er ekki hægt að halda þessu áfram, við getum ekki farið lengra út í þetta fen. Þetta er þó fólkið sem á að byggja þetta land.

Hv. þm. Karvel Pálmason gerði hér í ítarlegu máli áðan grein fyrir því minnihlutaáliti sem hann og Alþfl., einn flokka, því miður, enn, stendur að. Þetta er á þskj. sem hv. þm. þekkja. Ég vil aðeins gera einnig grein fyrir baksviði þessara tillagna, eins og þær eru í víðara sam­hengi og eins og hv. þm. Benedikt Gröndal lagði þær fram um miðjan janúar, þegar hann fór með umboð til stjórnarmyndunar. Eins og hv. þm. er auðvitað kunnugt um, lagði Alþfl. þá fram ítarlegt plagg, og auðvitað var það einnig hugsað til sátta við þá flokka sem verið var að semja við og reyna að mynda stjórn með, en þó þannig, að ekki var öll skynsemi lögð fyrir róða. Þetta plagg er ekki langt. Í kafla sem heitir Ný landbúnaðarstefna segir:

„1) Niðurgreiðslustefnan verði endurskoðuð, m.a. í sambandi við endurskoðun ávísitölugrundvellinum.“Ég hef þegar fjallað nokkuð um þetta.

„2) Útflutningsbótakerfið verði endurskoðað:

a. Hámark útflutningsbóta verði þegar 1980 lækkað í 9% og miðist eingöngu við framleiðslu sauðfjár- og nautgripaafurða, þ.e. þeirra afurða sem út eru fluttar.

b. Hámarksákvæði um útflutningsbætur eigi við hvora afurðagrein fyrir sig sérstaklega.“

Hæstv. landbrh., sem talaði áðan, tók það sérstaklega fram um flokksbróður minn, hv. þm. Karvel Pálmason, að hann talaði hlýlega og væri vel til bænda, svo að það mátti skilja af þessu, að einhverjum öðrum jafnaðar­mönnum væri illa við bændur, og þetta er svo sem tónn sem heyrst hefur áður.

Getur nú nokkur maður fallist á þetta? Getur nokkur maður fallist á að það sé að vera óvinveittur bændum að ætla að færa útflutningsbætur niður um eitt prósent á einu ári. Það gæti þýtt að á tíu árum færum við út úr þessu kerfi, ef við fetum okkur niður um eina prósentu á ári. Þetta er ekki byltingarstefna af einu eða neinu tagi. En hér er verið að fikra sig hægt og hægt út af þessu kerfi. (Gripið fram í: Allt of hægt.) Allt of hægt, segir hæstv. forseti. Já, já, ég er honum sammála um það, að þetta kann að vera of hægt farið. En þetta var lagt fram sem málamiðlunarplagg og til að samræma sjónarmið. Síðan segir:

„c) Sett verði hámark á útflutningsbætur á hverja sölu, þannig að bætur greiðist í hlutfalli við útflutnings­verð og fari aldrei fram úr 100% af því.

d. Hvorki vaxta- og geymslukostnaður búvörubirgða né umboðslaun til söluaðila verði greidd af útflutnings­bótum.“

Þetta mál, að útflytjendur skuli hafa fengið greitt í umboðslaun prósentur af þessum upphæðum, sem var upplýst hér eftir fsp. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni í fyrra, þ.e. að SÍS fékk slíkar prósentur af allri summ­unni, er náttúrlega eitt af reginhneykslunum í landbún­aðarstefnunni. En mér skilst að hæstv. fyrrv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, hafi upplýst að búið væri að stöðva þetta. Ég held að ég fari rétt með það.

Í e-lið segir: „Hámark útflutningsbóta, sem nú er 10%, verði lækkað í áföngum á árunum 1980–1982 í 7%“ — eins og hér hefur verið áður sagt.

„3. Verðlagningarkerfi búvöru verði tekið til heildar­endurskoðunar, þannig að eðlileg skil verði sett á milli hagsmuna bænda og vinnslustöðva.“ — Er þetta ekki sjálfsagt mál?

„4. Jarðræktarframlög verði lækkuð verulega í áföngum og fjárfestingarlán til hefðbundinna búgreina verði takmörkuð.“

Ég held ég fari rétt með það, að í fjárlagafrv., sem nú nýverið hefur verið lagt fram, sé rúmum 2 milljörðum varið til jarðræktarframlaga í landi þar sem offramleiðsla er stærsta vandamálið. Hvernig má þetta vera? Og sér ekki hv. þd. hversu óendanlega vitlaust það er? Við erum að verja á þriðja milljarð kr. í jarðræktarframlög í landi sem bæði býr við vandamál vegna ofbeitar og offram­leiðslu. Svo er haldið áfram að rækta. Það er allt annað sem hér þarf að gera. Náttúruverndarmenn t.d. hafa allt aðrar hugmyndir um hvernig að þessu eigi að standa.

„5. Einkasöluréttur Grænmetisverslunar landbúnað­arins verði afnuminn.“ — Einkasölur eins og þessar voru ágætar á kreppuárunum, á fjórða áratugnum, þegar kartöflur voru munaðarvara. En á árinu 1980 eru kart­öflur ekki munaðarvara. Allir neytendur vita að þessi verslun hefur árum saman selt þriðja flokks vörur, jafn­vel skemmdar, á allt of háu verði, innflutt rusl, sem fólk hefur varla getað lagt sér til munns. Á árinu 1980 fara menn allt öðruvísi að. Einkasalan var eflaust bæði rétt og skynsamleg á sínum tíma. En heimskreppunni er lokið. Henni lauk á fjórða áratugnum.

„6. Stefnt verði að því að hraða greiðslum rekstrar­- og afurðalána til bænda.“

Þetta er augljóst hagsmunamál bænda og bændasam­takanna — skyldum við ætla — og hefur verið þingmál hér raunar oftar en einu sinni.

„7. Hluta þess fjár, sem sparast skv. liðum 2 og 3, verði varið til stuðnings við nýjar búgreinar: ylrækt, fisk­eldi, garðyrkju, og til að auðvelda bændum að hverfa frá búi á harðbýlum jörðum.“

Hér er þetta tekið saman, annars vegar að stefna inn í nýtt og tæknivætt og nútímalegt þjóðfélag og hins vegar að hjálpa því fólki, sem býr ekki við mannsæmandi kjör, til þess að taka upp nýtt líf sem gefur betri möguleika og lífsafkomu, börnum þess betri möguleika til menntunar o.s.frv.

Ég trúi því, að þetta sé bæði rétt og skynsamleg stefna, ekki aðeins fyrir neytendur í þéttbýli, heldur einnig fyrir framleiðendur í dreifbýli.

Og er þá komið að frv. sjálfu og efnisatriðum þess. (Forseti: Mætti ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Má ég spyrja hæstv. forseta á móti: Er einhver ástæða fyrir þessu? (Forseti: Það er aldrei spurt að ástæðulausu úr þessum stól.) Nei, ég á nokkurt mál eftir, en ekki langt.

Þetta frv., og á þetta var raunar drepið við 1. umr. þessa máls, er enn eitt fyrirgreiðslufrv. til þess að bæta við það ástand sem hér hefur verið lýst. Það út af fyrir sig er ekki frágangssök. En formið á frv. er með algjörlega nýjum hætti, þ.e. það form að fjmrh. fyrir hönd ríkis­sjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán, allt að 3000 millj. kr., sem Framleiðsluráð landbúnað­arins hyggst taka. Gott og vel, þetta hefur gerst áður. En í 2. gr. þessa sama frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði vexti og afborganir-og kostnað allan, segir raunar hér — af láni þessu. Ég hygg að þetta sé svona fram sett vegna þess að verið sé að gera tilraun til þess að fela það fyrir skattborgurum í landinu, hvað hér er raunverulega um að ræða. Lán, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins tekur, en ríkissjóður greiðir af vexti, afborganir og allan kostnað, það er auðvitað ekkert lán. Það er beint ríkis­framlag. Og á þessu er mjög verulegur og veigamikill munur. Hæstv. landbrh. hefur ítrekað verið spurður um þetta. Hann stendur á því fastar en fótunum, að þetta sé lán, og bar því m.a. við, að m.a. eigi Byggðasjóður kannske að greiða það að hluta einhvern tíma. Aðspurð­ur, hver greiddi í Byggðasjóð, svaraði hann því til, að það væri ríkissjóður. En hann stóð samt á því fastar en fótun­um að þetta væri lán!

Ég held að hv. Alþ. sé að fara inn á mjög hættulega braut með feluleik af þessu tagi. Þetta kannske blekkir einhverja til skamms tíma, en það blekkir ekki marga til langs tíma, svo mikið er víst. Hér er um að ræða beint ríkisframlag til þess að auka enn á vitleysuna, til þess að viðhalda röngu kerfi, sem aftur viðheldur hér lakari lífs­kjörum en við þyrftum að búa við í samanburði við nálægar þjóðir. Svona á ekki að standa að málum.

Herra forseti. Vinsamleg tilmæli skildi ég sem svo, að menn ættu ekki að tala hér langt og helst ekki skýrt, ef ég skil tóninn rétt. Ég skal taka tillit til þessa. Ég hef lokið máli mínu.