20.03.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

70. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefáns­syni, að flytja hér í Sþ. till. til þál. á þskj. 105 um aukna nýtingu í fiskvinnslu, en þar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj., í samráði við aðila veiða og vinnslu sjávarfangs, að hlutast til um að gerð verði hið fyrsta könnun á því, á hvern hátt megi sem best ná hámarksnýtingu þess sjávarafla sem á land kemur.“

Till. um þetta efni flutti ég ásamt Vilhjálmi Hjálmars­syni á 100. löggjafarþingi. Till. var síðan endurflutt á 101. löggjafarþinginu, en varð þá ekki heldur útrædd. Till. er nú endurflutt og að nokkru breytt með tilliti til nýrri upplýsinga um afla og nýtingu.

Það er nú öllum orðið ljóst, að hafið er ekki sá brunnur sem endalaust verður ausið úr. Því verður að leggja stóraukna áherslu á gæði og fullnýtingu þess hráefnis er þaðan fæst. Hvernig það nýtist, sem úr hafinu er dregið, er ekkert einkamál þeirra er að veiðum og vinnslu starfa. Það er hagsmunamál þjóðarinnar allrar að þar sé vel og skynsamlega að staðið.

Menn velta því nú fremur fyrir sér en áður á hvern hátt megi gera sjávarútveginn arðbærari en nú er. Sú leið, er helst virðist í sjónmáli, er að ná meiri framleiðniaukn­ingu og þá um leið að gera hraðfrystiiðnaðinum mögu­legt að standa undir auknum kostnaðarhækkunum jafn­framt því að draga stórlega úr þörf þessarar atvinnu­greinar á gengislækkun, sem til þessa hefur vægast sagt reynst skammgóður vermir þessarar atvinnugreinar sem og annarra.

Með tilkomu minni skuttogaranna má segja að um byltingu hafi verið að ræða í meðferð á fiski. M.a. var þá byrjað að ísa fisk í kassa um borð í veiðiskipum og flytja hann þannig til framleiðslustöðvanna í landi, sem ætti að hækka nýtingu viðkomandi frystihúsa um nálægt 3%. Hér var stigið skref í þá átt að bæta gæði hráefnisins, sem þegar hefur sýnt ótvíræðan árangur.

Enda þótt nú séu sjálfsagt liðin ein sjö ár frá því að fyrst var farið að nota kassa um borð í togurum hefur engin raunhæf athugun farið fram á því, hvort fiskur geymist betur í þeim kössum, sem nú eru mest notaðir, þ.e. 90 lítra kössum, eða hvort hægt væri að koma með enn betra hráefni að landi með annarri gerð af kössum eða hreinlega með annarri geymsluaðferð. Tilraunir af þessu tagi mundu ekki kosta mikið fé og nánast ekkert, en gefa mikilsverðar upplýsingar. Það er ljóst, að hér má ná verulega bættum árangri án aukins tilkostnaðar. Hér hefur skort frumkvæði eins og víða annars staðar í þess­ari undirstöðuatvinnugrein.

Það verður einnig að segja eins og er, að þær ráðstaf­anir, sem gerðar hafa verið af stjórnvöldum og nefndar af þeim stjórnun veiða, hafa ekki verið þess eðlis að þær hafi stuðlað að bættri meðferð á hráefni, nema síður væri. En ég ætla ekki hér og nú að fara frekar út í það mál. Til þess gefst sjálfsagt betra tækifæri síðar, þegar fjallað verður um þau mál á hinu háa Alþingi. Fiskvinnslu­stöðvar hér á landi eru ákaflega misjafnlega vel búnar til að taka á móti hráefni til vinnslu og allt of mörg dæmi eru um að gæðahráefni komið í fiskmóttökur verði að lélegu hráefni þegar að vinnslu þess kemur. Hér hafa þó orðið verulegar úrbætur, og á ég þar fyrst og fremst við hvað áunnist hefur í því að byggja upp við frystihúsin kældar fiskmóttökur sem hafa verulega sannað ágæti sitt.

Það fer ekki fram hjá neinum, sem skoðar þessi mál, að þær fiskvinnslustöðvar, sem best eru búnar tækjum, skera sig úr hvað varðar rekstrarafkomu. Þessar sömu stöðvar hafa því meiri möguleika á að tileinka sér hinar öru tækninýjungar, sem mjög ryðja sér til rúms hér á landi, og þá á ég fyrst og fremst við ýmiss konar raf­magns- og tölvubúnað, sem stórum eykur afköst og bætir nýtingu aflans. Ég get nefnt sem dæmi að vogir, sem nú eru fáanlegar, hannaðar og framleiddar af Íslendingum, minnka yfirvigt á pakkningum um 1 – 1.5% af fram­leiðslumagninu, sem þá gefur um 2 milljarða kr. í auknu verðmæti. Í grein um Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem ég las fyrir stuttu í blöðunum, segir að miklum árangri hafi verið náð með aukinni hagræðingu og nýrri tækni í rekstri þess fyrirtækis, samt sé enn hægt að ná um 7% meiri arðsemi með aukinni hagræðingu. Í sömu grein segir einnig að sparnaður Bæjarútgerðar Reykjavíkur vegna brennslu á svartolíu sé hvorki meira né minna en um 440 millj. kr. á einu ári. En allir muna nú hvernig spáð var fyrir því, þegar hafist var handa um að taka upp brennslu á svartolíu á togurum okkar. Mig minnir að það mál hafi verið nokkrum sinnum rætt innan veggja þessa húss.

Á undanförnum árum hefur nokkuð verið unnið að endurbótum í fiskiðnaði, en þó hvergi nærri sem skyldi.

Ljóst er að mikið fjármagn þarf að koma til og aukið skipulag veiða og vinnslu. Það liggur þó jafnframt fyrir, að mjög verulegum árangri má ná í þessum efnum með ekki mjög miklu fjármagni sé rétt og skipulega að unnið. Í riti, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gefið út um þróun atvinnulífsins, segir að þjóðhagsleg arðsemi fjár­festingar sé hæst í fiskvinnslu og vænta megi mikils þjóð­hagslegs ábata af eflingu fiskvinnslu og frekari úrvinnslu hráefnisins.

Menn vilja nú halda því mjög fram, að sjávarútvegur­inn geti ekki tekið við auknum mannafla og skapað ný atvinnutækifæri í náinni framtíð, það séu aðrar atvinnu­greinar sem það muni gera. Þeir stórkostlegu möguleik­ar, sem hreint og ómengað haf — ég segi: hreint og ómengað haf gefur þjóð okkar og á eftir að gefa í stórlega auknum mæli, eiga vissulega eftir að skjóta mörgum styrkum stoðum undir efnahag okkar og atvinnulíf. Og um langa framtíð munum við þurfa að haga hinum ýmsu þáttum efnahagslífsins eftir því, hvað úr hafinu verður dregið.

Í skýrslu frá Raunvísindastofnun háskólans, sem út kom á árinu 1978 og fjallar um aukna sjálfvirkni í frysti­húsum, eftir þá Rögnvald Ólafsson og Þórð Vigfússon, kemur fram að munur á hámarks- og lágmarksnýtingu frystihúsanna hafi þá verið rétt um 10%. Í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun, sem út kom í okt. 1977 og fjallar um afkomu frystihúsanna, segir m.a.:

„Niðurstaða þessarar athugunar leiddi í ljós geysi­mikinn mun að því er varðar nýtingu aflans. Þannig nam framleiðslan á frystum þorski á Vestfjörðum og Norð­urlandi eystra um 40% af mótteknum þorski til frysting­ar, í Reykjavík og á Reykjanesi um þriðjungi og á Vest­urlandi röskum þriðjungi eða 36%, sem jafnframt var meðaltal fyrir allt landið. Svipuðu máli gegnir um aðrar fisktegundir.“

Í grg. með þáltill. er tafla úr nefndri skýrslu er sýnir nýtingarhlutfall helstu fisktegunda í frystingu. Það er ljóst, að nýting á vissum landsvæðum hefur hækkað tölu­vert frá þeim nýtingarútreikningum sem hér er vitnað til. Tímaritið Sjávarfréttir fékk fyrirtækið Hagvang hf. og Rekstrartækni sf. til þess að gera úttekt á tapi vinnslunn­ar vegna lélegrar hráefnisnýtingar miðað við skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Rekstrartækni hefur nú yfirfarið þetta og sett fram, miðað við afla og verðlag s.l. árs. Sé gengið út frá þeirri forsendu, að nýtingin væri alls staðar eins mikil og hún er í besta landshlutanum, kemur í ljós hversu gífurlegum árangri megi ná með bættu skipulagi og aukinni hagræðingu í fiskiðnaðinum.

Í grg. segir, að áætlað tap vinnslunnar vegna lélegrar hráefnisnýtingar á fjórum fisktegundum sé um 11.9 milljarðar, en það samsvarar nálægt því 12 500 tonnum í aukinni framleiðslu, sem jafngilti sem næst meðaltals­ársafla hvorki meira né minna en 8 – 10 skuttogara. Þessar tölur, sem hér koma fram, sýna alveg hrikalega niðurstöðu, svo að ekki sé meira sagt. Það má vissulega láta það liggja á milli hluta, hversu nákvæmar þær eru. Alla vega er hér verið að tala um marga milljarða í tekjuauka vegna bættrar nýtingar fengins hráefnis, og er þá hvergi vikið að ýmsum möguleikum til fullnýtingar á öðrum fisktegundum og fiskúrgangi, en þar eru gífurleg verðmæti sem í súginn fara og til þessa hafa lítið sem ekkert verið nýtt, enda eru rannsóknir mjög takmark­aðar á því sviði.

Mjög merkilegar tilraunir eru nú gerðar, m.a. í Bandaríkjunum, með framleiðslu mjög verðmætra líf­efna sem hægt er að fá úr dýrum og fiskum, þ.e. nýtingu á því sem í flestum tilfellum verður að úrgangi. Hér á landi hefur dr. Sigmundur Guðbjarnason unnið visst brautryðjandastarf á þessu sviði á efnafræðistofnun Raunvísindastofnunarinnar, þó við mjög takmarkaðar aðstæður, svo að ekki sé meira sagt. Þær rannsóknir, sem farið hafa fram, sýna og sanna að við gætum nýtt hráefni, sem hingað til hefur verið hent, og framleitt úr því stór­lega verðmætar afurðir.

Ég vænti þess, að hv. alþm. sjái hve brýnt það er að hefja aðgerðir og það raunhæfar aðgerðir, því að hér er mál sem sannarlega er þjóðhagslega hagstætt að vinna að og setja fjármagn í. Mikill hluti fiskvinnslu og útgerðar hefur átt í verulegum rekstrarerfiðleikum, og nefndir verið settar á fót til að kanna og komast að á hvern hátt megi hér bregðast við og þá fyrst og fremst til þess að leysa úr tímabundnum rekstrarerfiðleikum. Við flm. teljum að hér sé komið að kjarna þessa máls og þá um leið að einni meginorsök þess fjárhagsvanda sem sífellt hrjáir þessa atvinnugrein. Undirstaða efnahagslífs okkar Íslendinga er fiskveiðar, og um langa framtíð verðum við að byggja.afkomu okkar að meginhluta til á s jávarútvegi.

Með flutningi þessarar þáltill. höfum við flm. reynt að sýna fram á að stórkostlegum árangri megi ná í hrað­frystiiðnaðinum með bættri nýtingu hráefnis og aukinni hagræðingu í vinnslu.

Herra forseti. Ég legg til að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til atvmn. til umfjöllunar.