20.03.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

70. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til að taka undir efni þessar­ar þáltill. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli og get ég tekið eins og síðasti hv. ræðumaður undir allt það sem kom fram í fróðlegri framsöguræðu frsm.

Ég skal aðeins rekja örfá atriði sem eru nú til umræðu og athugunar í þessu sambandi, þ.e. til framleiðniaukn­ingar í sjávarútvegi. Ég vek athygli á því, að í stjórnar­sáttmála er lögð mjög rík áhersla á framleiðniaukningu. Ég hef í samræmi við það þegar sett í gang athugun á því, hvernig þetta verði framkvæmt. Að sjálfsögðu verður slíkt að framkvæmast í samráði við fjölmarga aðila og ekki síst aðila sjávarútvegsins sjálfa. En ég vek athygli á því, að Framkvæmdastofnun hefur unnið töluvert á þessu sviði, fyrst með frystihúsaáætlunum fyrir nokkrum árum og síðan í framhaldi af því með úttekt á skipastóln­um og fleiru þess háttar. Einnig er Fiskveiðasjóður þessu máli kunnugur og hefur með sínum sérfræðingum lagt vaxandi áherslu á að beina fjármagni til slíkra fram­kvæmda. Og ég get upplýst það, að hjá Fiskveiðasjóði liggja nú miklar umsóknir og meiri en áður hafa verið um lán í þessu skyni.

Ég tel að óhætt sé að segja að menn geti verið sammála um það, að í raun og veru hefur töluvert áunnist á þessu sviði á undanförnum árum. Hér hafa verið nefnd mörg atriði, eins og t.d. með kassa í fiskiskipum, sem er að sjálfssögðu gífurlegt framleiðniatriði í þessu sam­bandi, og fleira hefur verið hér upp talið. Einnig er ljóst að í frystihúsunum hefur verulega mikið áunnist. Það er hins vegar athyglisvert í því sambandi og vert að undir­strika, að þar hefur fyrst og fremst orðið verulegur vinn­ingur þar sem frystihúsin eru sterk, og kemur þar fram nauðsyn á því að fyrirtækin sjálf séu öflug í raun og veru til að geta sinnt framleiðniaukningu svo að einhverju nemi. Framleiðniaukningu verður ekki troðið upp á fyrirtæki sem eru í þeirri fjárhagsstöðu að þau geta í raun og veru ekki undir slíku álagi risið. Það er ekkert leyndarmál, að mikið af því fjármagni, sem veitt hefur verið á undanförnum árum til hagræðingar, hefur hjá slíkum húsum fyrst ag fremst runnið til þeirrar fjárfest­ingar — getum við sagt, þó að það sé ekki fjárfesting í raun — sem hefur verið arðbærust fyrir þau, þ.e. að losna undan vanskila- og refsivöxtum, og hefur ekki farið þá í endurbætur í viðkomandi fyrirtækjum eins og til hefur verið ætlast. Ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna það, en það bara undirstrikar að nauðsynlegt er að skapa fyrirtækjunum sjálfum grundvöll til þess að vinna að framleiðniaukningu.

Ég held að einnig sé vert að vekja athygli á því, að mörg undanfarin ár hefur sá háttur verið á hafður, þegar metin er afkoma sjávarútvegsins, að byggja á svonefnd­um núllgrundvelli, þ.e. að sett er eins konar „núll“ í afkomuna í miðju dæminu, og þannig hefur í raun og veru framleiðniaukning einstakra húsa stöðugt verið dregin frá þeim. Við getum sagt að þetta sé þjóðarbúinu hagkvæmt engu að síður. En á það hefur verið bent af forstöðumönnum slíkra fyrirtækja, að í raun og veru hafa þau fyrirtæki, sem þar hafa spjarað sig best, lítið unnið við slíkar framkvæmdir.

Einnig er mjög áberandi að stöðugt hefur aukist bilið milli þeirra húsa, sem hafa verið sjálf fjárhagslega sterk til að leggja í verulega framleiðniaukningu, og hinna, sem hafa legið undir fargi vanskilavaxta og fjármagns­erfiðleika. Þarna er því ýmislegt að hugleiða í þessu sambandi.

Ég sagði í upphafi míns máls, að ég teldi að það átak, sem gert er á þessu sviði, eigi að gera í samráði við marga aðila, og það mun verða gert. Ég fagna þessari till., sem undirstrikar það, að aðilar eins og fyrirtækin sjálf verði höfð með í ráðum. Það verður að sjálfsögðu gert. Einnig þarf að hugleiða hvar ná á í fjármagn sérstaklega í þessu skyni. Fiskveiðasjóð hef ég nefnt, og ég er þeirrar skoð­unar, að Fiskveiðasjóður eigi í vaxandi mæli að lána til slíkra framkvæmda. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að Byggðasjóður eigi að beina fjármagni sínu meira til framleiðniaukningar heldur en almenns stofnkostnaðar á ýmsum sviðum, þar sem mikið hefur áunnist. Ég tel að framleiðnimálið sé að ýmsu leyti mikilvægara nú. En ég endurtek og undirstrika að til þess að þetta nái tilætluð­um árangri verða fyrirtækin að vera sterk.

Hv. síðasti ræðumaður fór hér nokkrum orðum um hugmyndir núv. sjútvrh., eins og hann orðaði það, í sambandi við fiskveiðatakmarkanir. Er mér þar dálitið hátt undir höfði gert, því að þessar hugmyndir hafa verið að þróast í gegnum árin og þær hugmyndir, sem nú liggja fyrir til umr., voru birtar að hluta af síðasta sjútvrh. í reglugerð sem sett var af honum. Ég vil hins vegar taka það fram, að ég tel að þær hugmyndir, sem nú liggja fyrir, hafi batnað í meðferð fjölmargra aðila sem um þær hafa fjallað á undanförnum mánuðum. M.a. hafa fulltrúar LÍÚ mjög komið að því máli, svo og fulltrúar farmanna og fiskimanna, fulltrúar sjómanna og fleiri sem til hafa verið kvaddir. Ég álit hins vegar rétt að opna þessar hugmyndir til nýrrar umfjöllunar, og því hef ég óskað eftir því að þingflokkar tilnefni einn mann hver til að skoða enn breytingar og endurbætur á þessum hug­myndum, sem ég tel að þurfi stöðugt að vera í skoðun. Hér er um ákaflega viðkvæm mál að ræða. Og ég get tekið undir það með hv. ræðumanni, að leita þarf nýrra stjórnunarleiða. Ég get sagt það strax, að ég er langt frá því að vera sáttur við þessar hugmyndir, þótt þær hafi, eins og ég sagði áðan, að mínu mati mjög batnað frá því sem áður var. Ég hef sagt víða, að ég tel að tengja eigi betur veiðar og vinnslu. Það er hins vegar langt frá því að vera einfalt mál og þarfnast ítarlegrar könnunar. En ég get sagt strax, að ég er persónulega mótfallinn því að setja kvóta á hvert skip, og vil ekki leyna því. Ég held að það verði ákaflega flókið í framkvæmd og gæti auðveld­lega leitt til þess, að dugnaðarsjómenn, eins og hv. ræðumaður, yrðu dregnir niður í meðaltalið. Ég vil að dugmiklir sjómenn fái notið hæfileika sinna. Ég vil því láta það koma skýrt fram, að ég tel þá leið mjög vafa­sama. En ég undirstrika að þessar hugmyndir þarf að endurskoða, og ég vænti þess, að þingflokkarnir hafi menn í þá endurskoðun þegar í næstu viku, og þá mun það starf hefjast án tafar. Hins vegar lít ég svo á, að í sambandi við þessa till. sé fiskveiðistefnan varla til um­ræðu, en vona að síðar gefist tækifæri til að ræða það mál hér á hinu háa Alþingi.