20.03.1980
Neðri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

105. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir hv. Nd., er samið í samráði dómsmrn. og utanrrn. Það var lagt fram af hæstv. fyrrv. dómsmrh. Frv. er ætlað að marka reglur um aðdraganda að því að erlend ríki geti eignast fasteignir til afnota fyrir sendiráðsskrifstofur og bústaði forstöðumanna sendi­ráða eða til íbúðar fyrir aðra starfsmenn sendiráðanna. Svo sem fram kemur í grg. frv. eru reglur um þetta efni í 11. gr. núgildandi laga efnislega óbreyttar frá upphaf­legri setningu laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, lög nr. 63 frá 1919.

Hin síðari ár hefur slíkum fasteignum fjölgað mjög mikið. Í lögunum frá 1919 og núgildandi lögum eru erlend ríki undanþegin lagareglunum um að útlendingar þurfi leyfi stjórnvalda til þess að mega eignast fasteign hér á landi þegar um er að ræða rétt yfir fasteign til embættisafnota handa umboðsmönnum þeirra hér á landi. Vegna mikillar fjölgunar slíkra fasteigna á síðari árum skortir nú orðið hæfilega yfirsýn um þetta efni, auk þess sem aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórn­málasamband frá 1961, svokölluðum Vínarsamningi, sem Ísland gerðist aðill að 1971, leggur m.a. formlega á ríki sérstakar skyldur um öryggisgæslu vegna friðhelgi sendiráða og sendimanna og koma ýmis atriði til skoð­unar í því sambandi.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. og vísa að öðru leyti til grg. þess, en óska þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.