20.03.1980
Neðri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þessi umr. er fram­hald langrar umr. sem varð hér í hv. d. í gærkvöld og stóð fram undir klukkan hálfellefu. Ég mun nú leitast við að lengja ekki þá umr. sem hefur orðið á hv. þingi um frv. það sem hér um ræðir. Hins vegar var tilgangurinn með því að koma hér upp sá að beina tveim til þrem spurning­um til hæstv. landbrh. og jafnframt hæstv. fjmrh. um framhald útflutningsuppbóta, greiðslu þeirra á þessu ári.

Við erum hér að ræða um 3 milljarða kr., sem í sjálfu sér er afsakanleg upphæð miðað við þau harðindi sem bændur hafa átt við að stríða. En sagan er ekki öll sögð með því. Þetta mál er nokkurs konar bautasteinn um hrun landbúnaðarstefnu sem rekin hefur verið hér á landi undanfarna áratugi, og hrunið á eftir að verða enn meira ef ekki verður gripið rösklega í taumana.

Ég hef þegar lýst yfir að ég mun sitja hjá við atkvgr. um þetta mál. En ég hef hins vegar fengið í hendur útreikn­inga Hagstofu Íslands á útflutningsuppbótaþörfinni á framleiðsluárinu 1979–1980. Þar koma fram nýjar tölur og geigvænlegar að mínu mati um útflutnings­uppbótaþörfina á þessu ári. Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. landbrh. og/eða hæstv. fjmrh. hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst bregðast við þeim vanda sem er hinum megin við hornið.

Hagstofa Íslands hefur reiknað út að útflutningsupp­bótaþörfin að öllu óbreyttu, miðað við gefnar forsendur, útflutning á 4500 tonnum af dilkakjöti, 100 tonnum af ærkjöti, 200 tonnum af hrossakjöti og 2900 tonnum af osti, verði 15.2 milljarðar kr., en kunni að hækka í 20 milljarða. Á fjárlögum er gert ráð fyrir 8.2 milljarða kr. útflutningsuppbótum. Það er því fyrirsjáanlegt að mjög umtalsvert fjármagn skortir til að mæta þeirri þörf sem mun koma fram þegar á þetta ár líður. Ég vil þess vegna spyrja landbrh.: Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess í fyrsta lagi að skera niður þessa útflutningsuppbótaþörf eða til að afla fjármagns til að mæta henni? Í öðru lagi vil ég benda á að í frv. því að fjárlögum, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að til jarðræktarframlaga fari 1860 millj. kr., einnig að til framræslu fari 385 millj. Hér eru á ferðinni rösklega 2.2 milljarðar, og spurning mín til hæstv. landbrh. í framhaldi af því er þessi: Er ætlan núv. hæstv. ríkisstj. að skera þessa liði niður? Það hlýtur hver maður að sjá í hendi sér, að á sama tíma og við berjumst við offramleiðsluvandamál hér á landi er nánast fárán­legt að leggja fram fjármagn og efna til enn frekari túnræktunar en orðið er í landinu. Þess vegna vil ég spyrja landbrh. um þetta.

umr., sem fór fram hér í hv. d. í gærkvöld, var um margt óvenjuleg, svo að ekki verði meira sagt, og verður að segja að þátttakendur í henni eru líklega menn sem safna blaðsíðum í þingtíðindin, en minna var um það sem raunverulega skiptir máli í þessu frv. En ég vil áður en umr. lýkur um þetta frv. fá svör við því, hvernig ríkisstj. hyggst bregðast við frekari útflutningsuppbótaþörf á þessu ári. Ég bendi á að verði því fylgt að greiða þær útflutningsuppbætur, sem út verða reiknaðar á þessu ári, er komin þar svo há tala að það nálgast að útgjöld til landbúnaðarmála á Íslandi, ef á heildina er litið, séu að verða eins og herkostnaður nágrannalanda okkar og þykir sá ekki lítill.

Þetta eru spurningarnar, og ég vænti þess að fá svör við þeim, vegna þess að ég tel að brýna nauðsyn beri til þess að menn átti sig á því, hvaða vandi er á höndum. Það er ekki aðeins þessi 3 milljarða vandi, sem við erum að tala um, heldur kannske tveggja tuga milljarða vandi sem fram undan er.