20.03.1980
Neðri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Gunnarsson spyr um framhald útflutningsbóta á þessu ári og hvort gerðar hafi verið ráðstafanir til þess annað tveggja að skera niður útflutningsbótaþörfina eða afla fjármagns til þess að mæta henni.

Hv. þm. greindi frá því, að hann hefði undir höndum áætlun Hagstofunnar, þar sem gert er ráð fyrir, miðað við núverandi horfur, að útflutningsbótaþörfin verði á árinu 15.2 milljarðar, en kunni að hækka, eins og hann sagði, sem ég hef hvergi séð neinar tölur eða áætlanir um, upp í 20 milljarða. Sú tala kemur mér mjög á óvart og mun ég ekki ræða hana frekar.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að mæta útflutningsbóta­þörfinni, eins og lög gera ráð fyrir, með sem svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar eða, eins og þar er gert ráð fyrir, með 8.2 milljörðum kr. Nú var í áætlun Framleiðsluráðs, sem ég fékk síðast í hendur, gert ráð fyrir að útflutningsbótarétturinn væri nokkru meiri en þetta, sem nemur 200 millj., eða 8.4 milljarðar kr.

Ég get í fyrsta lagi svarað því til, að gert er ráð fyrir að gildandi lög um þetta haldi, þannig að greitt verði það af útflutningsbótafé sem lög gera ráð fyrir eða sem svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar.

Þá liggur þegar fyrir að út af standa kannske 6–7 milljarðar kr., e.t.v. meira ef sú áætlun, sem byggt hefur verið á til þessa, raskaðist á þann veg að framleiðsla yrði meiri en áætlunin gerir ráð fyrir. Í þessu sambandi er rétt að gera sér grein fyrir því, að um þetta leyti á síðasta ári var gert ráð fyrir að það, sem á vantaði að útflutnings­bætur dygðu til þess að mæta útflutningsbótaþörfinni eða verðtryggingarþörfinni, væri 5.6 eða 5.7 milljarðar kr. Reyndin varð hins vegar sú, að á vantaði 3.5 milljarða kr. Þær áætlanir, sem gerðar eru á þessum tíma ársins, eru því ekki mjög áreiðanlegar, enda þótt nauðsynlegt sé að gera þær og endurskoða með vissu millibili til að reyna að gera sér grein fyrir stöðunni eins og líklegt er að hún verði.

Ég get ekkert um það sagt á þessu stigi, hvað hér vantar mikið á þegar upp er staðið við lok verðlagsársins 31. ágúst n.k. Hitt er ljóst, að á s.l. hausti varð veruleg fækkun bústofns í landinu. Mjólkurkúm fækkaði um 6.8%, nautgripum í heild nokkru meira eða nálægt 8% og sauðfé fækkaði um rúm 10%, ef ég man rétt, ég er ekki með þær tölur hér hjá mér svo fyrirvaralaust. Þessi fækkun bústofns í landinu ætti að óbreyttu að hafa í för með sér að framleiðsla drægist saman og út­flutningsbótaþörfin þar með fremur minnkaði en yxi, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson gerði hér skóna.

Ég skal ekki fara lengra út í bollaleggingar um hver niðurstaða verður um þetta efni. Hitt er ljóst, að þarna verður við viðbótarvanda að eiga sem enn hefur ekki verið tekin endaleg afstaða til að hve miklu leyti verður leystur. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. segir um þetta efni, að leitað verði samkomulags um viðunandi lausn á fyrirsjá­anlegum vanda vegna halla á útflutningi búvara á þessu verðlagsári í tengslum við heildarstefnumótun í land­búnaði. Það stendur yfir sú vinna sem nauðsynleg er til að setja saman heildarstefnumótun í landbúnaði. Hefur verið ætlun mín að unnt væri að birta Alþ. þá stefnumót­un, áður en þetta þing er úti, og helst fá þá stefnuyfirlýs­ingu afgreidda sem ályktun Alþingis. Ég skal ekki full­yrða hvort sú verður niðurstaðan. En þegar lengra er komið þeirri vinnu, þar sem fjallað er um þessa stefnu­mótun, þá fyrst tel ég að tímabært sé að ræða innan ríkisstj. og taka ákvörðun um að hversu miklu leyti mætt verði þeim viðbótarvanda sem hér er á ferðinni.

Ég skýrði þetta í tveimur eða þremur setningum við setningu Búnaðarþings, og hafa þær setningar mjög verið mistúlkaðar í fjölmiðlum. Er e.t.v. ástæða til að lesa hér þær setningar sem um það fjölluðu í þeirri ræðu sem ég flutti við það tækifæri. Þær hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Því miður eru horfur á þessu verðlagsári, að miklar fjárhæðir skorti til þess að útflutningsbótafé dugi svo fullri verðtryggingu verði náð. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir svo um þetta efni:

„Leitað verði samkomulags um viðunandi lausn á fyrirsjáanlegum vanda vegna halla á útflutningi búvara á þessu verðlagsári í tengslum við heildarstefnumótun í landbúnaði.“

Ég vil taka það fram, að ég mun leita eftir slíku sam­komulagi við fulltrúa bændasamtakanna og vænti góðrar samvinnu í þessu vandasama máli á milli fulltrúa bænda og fulltrúa ríkisstj.

Þannig hljóða þau orð er ég viðhafði um þetta efni við setningu Búnaðarþings, og hafa sumir þeir, sem ritað hafa greinar í fjölmiðla, metið þau orð á marga milljarða króna.

Ég get því miður á þessari stundu ekki svarað fsp. hv. þm. Árna Gunnarssonar frekar um þetta efni. Í tengslum við þá vinnu, sem nú er verið að framkvæma um stefnu­mótun ríkisstj. í landbúnaðarmálum, verður leitað sam­komulags um það milli fulltrúa bænda annars vegar og fulltrúa ríkisstj. hins vegar að ná viðunandi lausn í þessu máli. Vafalaust verður það að vera með þeim hætti að þar verði farinn einhver millivegur, á þessu stigi skal ég ekki segja hvaða millivegur, en það verður án efa ekki með þeim hætti að það, sem á vantar, verði að fullu bætt.

Hv. þm. gerði jarðræktarframlög í fjárlagafrv. að um­talsefni og spurði, hvort ekki yrði um niðurskurð á þess­um lið að ræða, og fannst fáránlegt að auka túnrækt og aðra jarðrækt miðað við það ástand sem nú væri í fram­leiðslumálum landbúnaðarins. Ég vil taka það fram í sambandi við þennan þátt landbúnaðarmála, að á síðasta Alþ. voru gerðar breytingar á jarðræktarlögum þess efnis, að þar voru gefnar heimildir fyrir takmörkun eða skerðingu á jarðræktarframlögum til einstakra fram­kvæmda eftir vissum reglum, en jafnframt að jarðræk­tarframlögin yrðu nokkuð fast fjárframlag að verðgildi miðað við jarðræktarframlög og jarðræktarfram­kvæmdir síðustu þriggja ára, — ég tel mig muna rétt þriggja síðustu ára. Þess vegna er gert ráð fyrir að sú tala, sem þarna er um jarðræktarframlög, verði nokkru hærri en þurfi að nota þegar veitt verða framlög út á einstakar jarðræktarframkvæmdir, en það fjármagn, sem gengur af, verði notað í samræmi við það sem þessi lög segja — eftir tillögum stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins geti ríkisstj. ráðstafað því til nýrra viðfangsefna í land­búnaði, þ. á m. til nýrra búgreina og hagræðingarverk­efna, sem gætu orðið þáttur í því að finna leiðir út úr þeim vanda sem landbúnaðurinn óneitanlega stendur í.

Ég tel að ég hafi ekki fleiri aths. eða fleiri svör að gefa við fsp. hv. þm.