24.03.1980
Efri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það munu reyndar vera ný vinnubrögð sem viðhöfð eru í sambandi við þetta mál, þ.e. að stjórnarandstöðu sé ætlað að tjá sig um stórmál af þessu tagi rétt um það leyti sem það sést hér á borðum. Venjan mun hafa verið sú, að menn fengju nokk­urn tíma til umfjöllunar slíkra mála. En sannleikurinn er sá, að þessu er hér dreift núna og fyrir því mælt og þess vegna kannske ekki unnt að gera málinu eins ítarleg skil og æskilegt hefði verið af hálfu stjórnarandstöðu. Ég vil mælast til þess, að framvegis verði leitast við að gefa mönnum betra svigrúm til þess að átta sig á stórmálum eins og þessu.

Það má náttúrlega segja, að menn hafi beðið þess með nokkurri eftirvæntingu að sjá skattpíningarstiga Arnalds. Hann er öllu brattari og líklegri til að vinda úr launþegum mátt heldur en menn hefðu kannske átt von á, því að það er ekki langt síðan hæstv. fjmrh. hrópaði sem hæst á torgum um það, að allir vildu skerða kjörin nema hann. Það var eiginlega söngur af taginu: „Ó, nema ég.“ En þegar saman er tekið það sem birst hefur þjóðinni, þá virðist þessu nú vera nokkuð öfugt farið miðað við þann málflutning sem hæstv. fjmrh. hafði áður uppi.

Fjmrh. hefur lýst því yfir, að engar grunnkaupshækk­anir komi til greina, ekkert svigrúm sé fyrir þær, og úr fjárlagafrv. eða grg. þess má lesa 4.5% skerðingu kaupmáttar eða lífskjara í landinu. Síðan er hér bætt gráu ofan á svart, því að hækkun tekjuskatts á einstaklingum frá frv. því, sem Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. fjmrh., lagði fram, er 27%.

Það frv. um skattstiga, sem hér liggur fyrir, ber þessa náttúrlega öll merki. Þar sem gert var ráð fyrir 15% skatthlutfalli í frv. Sighvats Björgvinssonar eru nú 20%. Þar sem gert var ráð fyrir 30% eru nú 35%. Og þar sem gert var ráð fyrir að barnabætur skyldu vera 140 þús., þá mátti ekki ganga svo langt í frv. hæstv. fjmrh. Ragnars Arnalds sem hér liggur fyrir, heldur einungis í 130 þús. Sama gildir reyndar með börn umfram eitt. Þar er líka klipið af barnabótunum 15 þús. kr. frá því sem var í frv. því sem Sighvatur Björgvinsson lagði fram. Ekki mega heldur einstæðir foreldrar njóta þess sem við í minni­hlutastjórn Alþfl. höfðum gert ráð fyrir. Þar eru klipnar af 20 þús. kr.

Ég tók eftir því enn fremur, að hæstv. fjmrh. lét þess getið áðan að eignarskattur mundi sérstaklega vaxa á einhleypum. Það var nú kannske einn viðkvæmasti þátt­urinn í eignarskattsálagningunni, t.d. ekkjur við aldur sem áttu sér íbúð, en einnig í þessu atriði hefur hæstv. fjmrh. séð ástæðu til þess að framfylgja sérstakri skatt­píningarstefnu og lækkað skattfrjálsa eign úr 17 millj. í 15 millj. kr.

Það er athyglisvert, að meðan skattstiginn, sem minni­hlutastjórn Alþfl. lagði fram, gerði ráð fyrir að meðal­skattbyrði lækkaði um 16%, þá er nú með óljósum orð­um verið að gera því skóna að heildarskattbyrði samkv. þessu frv. muni því sem næst standa í stað. Þegar lítið er á samanburðinn í einstökum liðum kemur í ljós að heildarskattgreiðslur hjóna eiga nú að hækka um nær 9%, en áður hafði verið gert ráð fyrir að þær lækkuðu um 10%. Þarna er því næst 20% álagning af hálfu hæstv. fjmrh. umfram það sem ríkisstj. Alþfl. hafði gert ráð fyrir. Það eru því nærri 20% sem heildarskattgreiðslur hjóna eru hækkaðar. Það gildir svipað um einhleypinga. Þar er heildarskattbyrðin aukin um 17% frá því sem minnihlutastjórn Alþfl. hafði gert ráð fyrir.

Ekki hefur hæstv. fjmrh. heldur getað hugsað sér að hækka skattfrelsismörk, hvorki einhleypinga né hjóna, í námunda við það sem gert var ráð fyrir í frv. Alþfl. Þar skeikar bæði að því er varðar einhleypa og hjón. Hjá einhleypum skeikar 450–500 þús. kr., sem hæstv. fjmrh. fer niður með skattfrelsismörkin, og þá niður í um það bil 200 þús. kr. mánaðartekjur, sem hann þarf að næla sér í skatta af til ríkissjóðs. Og að því er h jón varðar, þá er munurinn um 400 þús. kr. Þetta er um 20% lækkun á skattfrelsismörkunum hjá einhleypingum og um 15% lækkun á skattfrelsismörkunum hjá hjónum. Þannig er allt á eina bókina lært. Ekki hefur það einu sinni séð náð fyrir augum hæstv. fjmrh. að hlífa hinum lægstu tekjum við álagningu tekjuskatts.

Þetta er þeim mun herfilegra sem vitað er að tekju­skatturinn er sérstaklega óréttlátur skattur. Þar kemur ekki einungis til hreinn undandráttur frá skatti, sem þekktur er, heldur líka smeygjugataskattsvik, sem eru mjög mikil einmitt í þessum skatti. Það sem áður hét: „Ó, nema ég, ég stend vörð um kjörin,“ það er nú að verða öfugmæli að öllu leyti. Það er fyrst og fremst „ég, hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds“, sem ættar að skerða kjörin. „Ég ætla að standa gegn grunnkaupshækkunum, ég ætla að skerða kaupmáttinn um 4.5% og ég ætla að hækka tekjuskattinn um 27%.“ Þetta er boðskapur fjmrh. í þeim frv. sem hann hefur lagt fram.

Vitaskuld er það svo að ríkið þarf á tekjum að halda. En þá er á tvennt að líta: Annars vegar að afla þeirra með réttlátum hætti, að skattheimtan komi eðlilega niður og þeir sem minnstar hafi tekjurnar verði þá ekki fyrir barðinu á skattpíningarstefnunni. Og svo er hitt, að líta á eðlileg umsvif í þjóðfélaginu, hvert er gjaldþol fólksins miðað við aðstæður, hvað er líklegt til þess að skila okkur viðunandi lífskjörum í landinu og stuðla að því, að hér verði dregið úr verðbólgu, með því að aðhalds sé gætt á öllum sviðum.

Ég held að frumvarpsflutningur af því tagi, sem hér liggur fyrir, fari fram úr því sem eðlilegt er að ætlast til af launþegum þessa lands, fari fram úr eðlilegum umsvifum ríkisins, eins og málin eru í pottinn búin núna, og verði til þess að sprengja hér upp enn frekari verðbólgu en annars hefði verið.

Ég skal ekki mæla gegn því, að þessu frv. verði vísað til nefndar. En ég ítreka það, að hér er djúpt seilst í vasa skattborgaranna og sérstaklega djúpt seilst í vasa þeirra sem minnstar hafa tekjurnar og frv. ríkisstj. Alþfl. hafði gert ráð fyrir að sérstaklega yrðu verndaðir gegn skatt­píningu af þessu tagi. Það er hörmulegt til þess að vita, að hér skuli eiga að stíga skref aftur á bak frá skynsamlegri efnahagsstefnu, frá skynsamlegri skattastefnu.

Ég vil svo að lokum mælast til þess, að þegar mál af þessu tagi koma til umfjöllunar hér í hv. deild og á hv. Alþ., þá verði stjórnarandstöðunni gefið meira tóm en hér hefur verið gert — og deild og Alþ. þannig sýnd meiri virðing en hér hefur verið gert með því að fá frv. til skoðunar með nokkru meiri fyrirvara en nú hefur verið gert.