24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að biðja hér um orðið utan dagskrár til þess að vekja athygli á og ræða nokkuð þann mikla vanda sem nú er fyrir höndum í þjóðfélaginu hvað snertir bæði fiskverðs­ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins og stöðu fisk­vinnslunnar og raunar útgerðarinnar í landinu. Það eru liðnir 84 dagar frá áramótum og mig minnir að fiskverð hafi ekki verið ákveðið fyrr en 23 jan. En þegar til framkvæmda komu uppbætur á laun almennt frá 1. mars sögðu báðir aðilar, kaupendur og seljendur, upp fisk­verðinu frá þeim degi og síðan hefur verið fiskverðslaust í 24 daga. Af þeim 84 dögum, sem liðnir eru af þessu ári, eru því 47 dagar sem ekkert fiskverð hefur verið í þessu landi fiskveiða og sjávarútvegs.

Nú hefur yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins setið að störfum, ef svo má kalla það, frá síðustu mánaðamót­um, og ég hef lesið í blöðum viðtal við hæstv. sjútvrh., sem er ekki staddur hér í eigin persónu í dag, en annar ráðh., hæstv. viðskrh. gegnir störfum hans. Sjútvrh. hef­ur látið eftir sér hafa að hann harmi það, að ekki hafi náðst samkomulag á milli aðila í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Í gærkvöld birti sjónvarpið allítarlega frétt af þessum málum. Skýrði fréttamaður þar frá störfum Verðlagsráðs sjávarútvegsins og sömuleiðis átti sjónvarpið viðtal við annan af fulltrúum seljenda í Verðlagsráði sjávarútvegs­ins, fulltrúa sjómanna, Ingólf Ingólfsson, þar sem hann skýrir mjög opinskátt frá því, að fundir Verðlagsráðsins, það sem liðið er af þessum mánuði, eru ekki um það að reyna að glíma við tölur eða annan útreikning á sviði sjávarútvegs og sjávarútvegsmála, heldur fyrst og fremst að spjalla um aflabrögðin og veðurfarið og þess háttar, því að þeir bíða eftir að stjórnvöld taki einhverja ákvörðun og leysi þann mikla vanda sem hér er við að glíma.

Verðbætur á laun hækkuðu frá 1. mars um 6.67%, og það er krafa seljenda í Verðlagsráði sjávarútvegsins, bæði sjómanna og útgerðarmanna, að fiskverð hækki í sam­ræmi við þessar almennu launahækkanir sem urðu 1. mars. Hins vegar telja fiskkaupendur óumflýjanlegt að lækka fiskverðið frá sama tíma um 12%. Það þarf því engan að undra — og ekki hægt fyrir ríkisstj. að harma það — að þessir aðilar nái ekki saman í Verðlagsráði sjávarútvegsins, því að til þess er auðvitað enginn grund­völlur. Annar aðilinn telur sig eiga að fá verðbætur á laun eins og aðrir launþegar í þessu landi, en hinn telur stöðu sína slíka — og þá sérstaklega frystiiðnaðurinn og líkt má segja um saltfisk og skreið, þó að ég hafi þar ekki eins glöggar upplýsingar — að hann telur sig engan veginn geta staðið við gildandi fiskverð, heldur verði að lækka það verulega, meira að segja um 12%. Þannig standa þessi mál. Þannig blasa þessi mál við öllum almenningi í landinu og ríkisstj. hefur, síðan hún var mynduð eða skömmu eftir það, séð fram á þennan mikla vanda, að hann er fram undan.

Ég vil, áður en ég held lengra, spyrja hæstv. staðgengil sjútvrh., hæstv. viðskrh., að því, hvort það sé rétt sem sagt er, að uppi séu áform innan ríkisstj. um að skatt­leggja útgerðina í landinu með því að leggja sérstakt gjald á hvern lítra af gasolíu, 7 kr. á lítra, sem mundi þýða nýja skatta á útgerðina upp á um 900 millj. kr. miðað við heilt ár, og jafnframt að leggja 7 þús. kr. gjald á hvert tonn af svartolíu, sem mundi þýða nálægt 350 millj. kr. á ári.

Þetta er umtal sem kvisast víða, að hér sé áformaður nýr skattur á útgerðina upp á 1250 millj. kr. miðað við ár, samhliða því að sjómenn og útvegsmenn verða að sætta sig við margvíslegar aflatakmarkanir. Þetta á sennilega að gera til þess að mæta hinum gífurlega háa olíukynd­ingarkostnaði. En minna má á að 2.3 milljarðar voru í fjárlagafrv. nr. 2 til niðurgreiðslu eða lækkunar á kynd­ingarkostnaði, en hurfu svo með fjárlagafrv. nr. 3, sem núv. hæstv. ríkisstj. lagði fram.

Nú kunna menn að spyrja: Er ekki sjávarútvegurinn og fiskiskipin það vel á vegi stödd, að þau geti tekið á sig nýja skatta og þau geti gengið frá kröfu um fiskverðs­hækkun? Ég hef ekki fyrir mér ítarlegar upplýsingar á þessari stundu, en ég vil minna á að í Fiskveiðasjóði eru heildarvanskil togara um síðustu áramót 3 225 millj. og annarra skipa 2 003 millj. og fiskvinnslufyrirtækja um 2 418 millj. Þetta eru vanskil af höfuðstóli fyrir utan vexti. Samtals eru vanskil sjávarútvegsins um síðustu áramót hjá Fiskveiðasjóði um 7 646 millj. kr.

Við skulum líta á annan stofnlánasjóð sem hefur komið mjög við sögu í lánum til sjávarútvegs, en er miklu minni en fiskveiðasjóður, því að höfuðstóll lána í Fiskveiða­sjóði til sjávarútvegsins í heild er 71.9 milljarðar kr.

Í Byggðasjóði er höfuðstóll fiskveiða og fiskvinnslu 12.3 milljarðar. Þar af eru í vanskilum um 1 050 millj. 1. jan. s.l., og vextir, sem eru í vanskilum, af þessum lánum eru upp á hvorki meira né minna en 498.3 millj. kr. Þá geta menn rétt gert sér í hugarlund vaxtaskuldina við Fisk­veiðasjóð, sem ég hef ekki hér.

Þetta ber ekki vott um það, að fiskveiðamar standi traustum fótum, og því ekki hægt að búast við að hægt sé að leggja nýja skatta á þær. En þær verða að taka á sig stóraukin útgjöld vegna hinnar almennu verðbólgu sem æðir áfram á fullri ferð í okkar landi, því miður.

Það hefur komið fram bæði í blöðum og víðar, að nokkur lækkun hefur orðið á útflutningsvöru okkar, sérstaklega í Ameríku. Það hefur orðið þar tilfinnanleg lækkun, sérstaklega á karfa og ufsa, þorski og einnig á þorskhrognum. Þegar við lítum á þetta og berum saman stefnu stjórnvalda að auka vinnslu og veiðar í vannýttum fiskstofnum, þá var árangur sá, að í útflutningi SH eins til Bandaríkjanna jókst karfi frá árinu 1978 til 1979 um 48%, eða úr 5 628 tonnum í 8 332 tonn. Á ufsa var aukningin 18.2% og á grálúðu 22.7%. Þessi mikla aukning er heildarútflutningur, en til Bandaríkjanna var aukningin á karfa á milli þessara ára,1978 og 1979, 119.4% og á ufsa um 15%, en aftur til Sovétríkjanna var aukningin á karfa 10.5% en á ufsa 136.5%. Þetta skýrir mjög vel að sú mikla aukning, sem hefur orðið á framleiðslu á þessa markaði, hefur gert það að verkum að ýmsir söluerfiðleikar hafa átt sér stað, þar sem framboðið hefur vaxið snöggt og þetta er vara sem þolir ekki langa geymslu, eins og öllum er kunnugt. Því er eðlilegt að verðbreytingar hafi orðið í Bandaríkjunum þar sem meginmagn af þessari vöru er selt. Breyting varð áverði um mánaðamótin jan.­febr. hjá báðum íslensku fyrirtækjunum í Bandaríkjun­um, bæði fyrirtæki SH, Coldwater Seafood Corporation, og fyrirtæki Sambandsins, Iceland Seafood. Lækkun á þorskblokkinni varð um 5 sent og sama á ýsublokk, og lækkun á karfa í 1 lbs. pakkningu 10 sent og í 5 lbs. pakkningu 15 sent. Og þannig mætti lengi telja þessa lækkun sem var af þessum ástæðum óumflýjanleg.

Þessar verðlækkanir þýða ca. 2 milljarða tekjutap fyrir Sölumiðstöðina eina en á grundvelli verðjöfnunar­sjóðsins jafngildir þetta tveimur sentum af heildarmagni útflutnings, sem þýðir um 1.8% lækkun á heildarverð­mæti.

Um síðustu áramót er talið að hraðfrystiiðnaðurinn hafi staðið á núlli sem kallað er. Síðan hækkar hráefni að meðaltali um 7.3%, sem þýðir auknar álögur á frysti­húsin upp á 3.8%. Útflutningsgjald hækkar um 0.5%, kauphækkunin 1. mars er hækkun upp á 2%, rafmagn, umbúðir, þjónusta o.fl. hækkar um 0.5%. Neikvæð út­koma af loðnu, er reiknuð var, hefur haft tapáhrif upp á ca. 1–1.5%, og vanreiknaða vexti, með tilliti til vaxta­kjara í verðbólguþjóðfélagi eins og okkar, vilja menn áætla allt upp í 2.7%. Um mánaðamótin febr.— mars er hraðfrystiiðnaðurinn því kominn niður í mínus 11%, en þar frá dregst gengissig frá áramótum til febrúarloka, sem er metið á 2%, þannig að halli frystihúsanna um síðustu mánaðamót getur leikið á 7–9%, og fer það mjög eftir því hvernig vaxtaútreikningur er framkvæmd­ur. því er þessi óvissa svona mikil.

Hæstv. sjútvrh. hefur látið eftir sér hafa að hann muni leggja fram till. í þessari viku, en bætti því þó við, að þær muni ekki leysa vanda sjávarútvegsins nema að mjög takmörkuðu leyti, og lét í það skína í blaðaviðtölum, ef hafa má það rétt eftir — en ekki var það afturkallað, að vandi fiskvinnslunnar verði ekki leystur nema með gengisbreytingu. Ég held að gengisbreytingar, sem gripið hefur verið til af fjöldamörgum ríkisstjórnum til þess að koma í veg fyrir að útflutningsiðnaðurinn — og þá ekki eingöngu sjávarútvegurinn — stöðvaðist, — að hin góðu áhrif gengisbreytinganna fari sífellt minnkandi vegna þess að afurðalánin eru nú gengistryggð að hálfu. Skuldir útvegsins og skuldir þjóðarinnar hafa aldrei verið meiri, og því eru gengisbreytingarnar eða áhrif gengisbreyting­anna sífellt að verða verri og verri.

Ég biðst afsökunar á því, að ég skuli hafa tekið þennan tíma til þess að skýra frá þessum vanda, sem þó er aðeins tæpt á, en ég sé og heyri í stefnumörkun þessarar hæstv. ríkisstj. að hún telur sig stefna að framleiðniaukningu í þjóðfélaginu. Ég tel að með þessari stefnu — eða réttara sagt stefnuleysi sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi verði ekki um framleiðniaukningu að ræða þó að fisk­veiðar séu meiri að magni til en áður, vegna þess að staða þeirrar greinar fiskvinnslunnar, sem skapar mest verð­mæti, er núna lakari en hinna og margir grípa til þess ráðs að draga úr frystingu og fara meira yfir í saltfisks- og skreiðarframleiðslu. Þetta eitt hlýtur að draga úr verð­mætasköpun í þjóðfélaginu. Þetta hlýtur að brjóta í bága við þá stefnu sem þessi hæstv, ríkisstj. hefur sagt að sé sín stefna, og auðvitað er það stefna allra landsmanna að auka framleiðni.

Hæstv. forsrh. sagði í blaðaviðtali um daginn að hann teldi mörg frystihúsin hafa haft svo góða afkomu á liðn­um árum að þau ættu að geta tekið á sig einhver óþægindi vegna bæði hækkana innanlands og lækkana erlendis. Ég vil nú benda honum á það sem öðrum, að jafnvel þó að það sé satt og rétt að öll vel rekin frystihús hafi haft góða afkomu um nokkurt bil, þá hafa þau ekki safnað í sjóði, heldur hafa þau fyrst og fremst notað þennan hagnað til að kaupa betri tæki, til kaupa á vélum og nýjum húsum til þess að byggja upp sín fyrirtæki. Frystihús, sem á pappír­unum eru sterk efnalega, geta því verið gersamlega pen­ingalaus og ófær um að borga sífellda hækkun rekstrar­kostnaðar, svo þetta þarf ekki að vera sakir fátæktar eða erfiðrar efnahagsstöðu. Hitt er svo staðreynd, að það er ekkert fiskverð í landinu, og ég hygg að engin stétt í þessu þjóðfélagi muni sætta sig við að vita ekki, hvaða kaup hún á að hafa, langtímum saman og að verið sé að leika sér að þessum málum, eða réttara sagt að ekki sé tekið af neinni alvöru á þessu mikla vandamáli.

Við sjáum fram á það, að þær breytingar, sem orðið hafa til hins ven-a í afurðaverði okkar erlendis, eru þess vald­andi að fiskvinnslan getur ekki tekið á sig auknar byrðar, heldur verður að létta af henni byrðum. Það, sem ég talaði hér um vanskil sjávarútvegsins við tvo stofnlána­sjóði, segir meira en löng ræða. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera og hvenær ríkisstj. ætlar að gera þessar ráðstafan­ir? Það getur ekki beðið lengur að sjómenn og útvegs­menn fái að vita um það fiskverð sem á að ákveða, og sömuleiðis hlýtur það að enda innan ekki langs tíma á því, að fiskverkendur, bæði hraðfrystiiðnaðurinn og aðr­ar greinar fiskverkunar, hljóta að stöðva að meira eða minna leyti rekstur sinn ef áfram er haldið á sömu braut. Þess vegna ítreka ég þessa spurningu bæði til hæstv. sjútvrh. eða hæstv. viðskrh., sem gegnir störfum hans, og sömuleiðis til hæstv. forsrh., út af því sem hann lét eftir sér hafa varðandi stöðu frystiiðnaðarins.

Ég vara hæstv, ríkisstj. alvarlega við því að hugsa um nýja skattlagningu á sjávarútveginn í heild, eins og staða hans er nú. Við verðum að draga af okkur í þessari skatt­lagningu. Höfuðvandamál þessa þjóðfélags er að draga úr verðbólgunni, því við sjáum af þessu, eins og öllu öðru, að á meðan hún heldur áfram heldur þessi hring­dans áfram í þjóðfélaginu og enginn ræður við neitt.

Ég tel að þetta mál sé mikilvægara nú en öll önnur mál og á þessu máli þurfi að finna lausn. Ég vænti þess, að hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. gefi þingheimi skýr og glögg svör við því, hvernig ríkisstj. hyggist leysa þennan vanda.