24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh., sem jafnframt er samgrh., varð skyndilega að fara til Lúxemborgar til ráðherraviðræðna út af málefn­um Flugleiða hf. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða sem komið er í eindaga. Hæstv. ráðh. fór utan í gærmorgun, sunnudagsmorgun, og mun koma heim aft­ur á morgun. En meðan hann er fjarverandi sinni ég þeim störfum sem undir hann heyra.

Hv. 1. þm. Vestf. hefur kvatt sér hljóðs utan dagskrár varðandi fiskverðsákvarðanir, gert að umræðuefni af­komu sjávarútvegsins á breiðum grundvelli og óskað eftir vissum svörum í því sambandi. Ég skal stuttlega rekja gang þessara mála til að skýra fyrir hv. alþm. hvernig þau hafa gengið til og hvernig þau standa nú.

Ég vil þó áður segja það, vegna spurningar hv. þm., að engar ákvarðanir hafa verið teknar um að leggja skatta á útgerðina vegna orkumálanna. Ég get ekki stillt mig um að minna á að fyrir Alþ. liggur frv. um jöfnunargjald orkukostnaðar, sem var lagt fram af þeirri ríkisstj. sem hv. þm. studdi og átti þátt í að varð ríkisstjórn. Það liggur hér fyrir frv. til l. frá þeirri ríkisstj. um að leggja sérstakt gjald á gasolíu, 10 kr. af hverjum lítra. Ég hef ekki orðið var við að hv, þm. hafi hreyft þessu máli sérstaklega fyrr hér á hv. Alþ.- En þetta er nánast innan sviga sagt.

Það samkomulag, sem náðist í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins um fiskverð frá síðustu áramótum, var, eins og menn muna, uppsegjanlegt með viku fyrirvara. Báðir málsaðilar, þ.e. bæði fulltrúar fiskseljenda og fisk­kaupenda, sögðu verðinu lausu 18. 20. febr., annar þeirra 18. og hinn 20., að mig minnir, á grundvelli þessa uppsagnarákvæðis. Á fundi Verðlagsráðs s jávarútvegsins hinn 26. febr. s.l. kom í ljós að samkomulag næðist ekki og var málinu vísað til yfirnefndar. Yfirnefndin hóf störf sín 27. febr., og hefur hún kannað gögn þau sem tiltæk eru um rekstrarafkomu fiskvinnslu og veiða og um tekjur sjómanna í samanburði við tekjur annarra stétta og önn­ur þau atriði sem kunna að geta skipt máli við ákvörðun lágmarksverðs á þeim fisktegundum er verðleggja skal.

Fulltrúar fiskseljenda krefjast hækkunar fiskverðs um 6.67%, til jafns við launahækkanir í landi, en fulltrúar fiskkaupenda telja engan grundvöll til að hækka fiskverð eins og sakir standa, og hefur annar þeirra reyndar kraf­ist 12% lækkunar fiskverðs ef engar úrbætur verði nú gerðar í málefnum fiskvinnslunnar. Hinn fulltrúinn hefur lýst þeirri afstöðu sinni, að hann telji ekki neinar for­sendur til hækkunar fiskverðs og geti hann ekki að óbreyttum aðstæðum samþykkt breytt fiskverð.

Þegar þessi afstaða hafði komið fram í yfirnefndinni hinn 10. mars þótti oddamanni rétt að óska þess, að veittur yrði formlegur frestur enn um sinn til að ákveða verðið. Sjútvrh. hefur veitt frest, fyrst til 18. mars, og nú hefur hann verið framlengdur til 3. apríl.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að auðvitað er óheppilegt að ekki skuli verða við komið að ákveða fiskverð áður en verðlagstímabil hefst. En ef tímasetningar um almennar fiskverðsákvarðanir eru skoðaðar kemur í ljós að á 18 árum hefur fiskverð aðeins þrisvar sinnum verið ákveðið í desembermánuði, þ.e. fyrir áramót. Yfirleitt, þegar þurft hefur að vísa málum til yfirnefndar, sem hefur verið æðioft, hefur það verið gert um miðjan desembermánuð og það hefur tekið yfirnefndina frá hálfum mánuði upp í einn og hálfan mánuð að fella úrskurð. Það lengsta, sem um er að tefla í þessu efni, er frá því 1975. Þá munu hafa liðið um tveir mánuðir-rétt um tveir mánuðir — frá því að máli var vísað til yfirnefndar og þar til hún felldi úrskurð. Þannig er, ég vil segja: því miður, alls ekkert nýnæmi í þetta sinn hvernig komið er. Þvert á móti. Það hefur allt of oft komið fyrir að þurft hefur að fresta þessum málum áður en þau hafa verið til lykta leidd.

Svo ég reki nokkru nánar þá málsmeðferð sem hefur orðið í yfirnefndinni, þá var það á fundi yfirnefndar 12. mars að báðir aðilar ítrekuðu fyrri afstöðu sína, sem ég gerði grein fyrir áður og er kunn. Oddamaður gerði báðum aðilum tilboð um óbreytt verð, sem báðir aðilar höfnuðu. Oddamaður tók þá fram, að í þessari stöðu máls yrði hann að íhuga hvort til greina kæmi að hann kvæði upp úrskurð um verð sem lægi milli framan­greindra tillagna fulltrúa fiskkaupenda og fiskseljenda og yrði slíkur úrskurður þá niðurstaða málsins sam­kvæmt venjulegum dómssáttarreglum. Fyrir slíkum úr­skurði oddamanns eru fordæmi, þó ekki í svo mikilvægu máli um langt bil ára, — fordæmi sem að vísu hafa verið mjög umdeild. Oddamaður óskaði eftir að aðilar létu í ljós viðhorf sín til slíkrar úrtausnar. Það þarf ekki að taka fram, að það væri að sjálfsögðu æskilegast að samkomu­lag næðist í þessum málum.

Fulltrúar fiskseljenda létu koma fram mjög ákveðin mótmæli við því, að sú málsmeðferð yrði viðhöfð áð oddamaður úrskurðaði, þeir mundu ekki una því og mundu þeir ekki taka þátt í störfum Verðlagsráðsins ef vekja ætti upp þessa úrskurðaraðferð, sem á sínum tíma varð raunar til þess að breytingar voru gerðar á verð­lagslögunum, um verðlagsráð. Fulltrúar fiskkaupenda töldu oddamannsúrskurð óheppilega niðurstöðu, en höfðu ekki uppi mótmæli gegn slíkri málsmeðferð á grundvelli meginreglusjónarmiða á sama hátt og fulltrú­ar fiskseljenda. Þeir settu síðan fram þær forsendur sem þeir töldu að fullnægja þyrfti til þess að þeir gætu sæmi­lega við unað.

Þetta er í sem stystu máli eins konar skýrsla um með­ferð þessara mála, sem ég tel eðlilegt og sjálfsagt að gefa hér á Alþ., því um er að ræða hin alvarlegustu mál, eins og öllum er raunar kunnugt um.

Ég álít að það ætti enginn að sjá neinum ofsjónum yfir tekjum sjómanna þegar á heildina er lítið. Þeir stunda bæði erfið störf og áhættusöm, eins og reynslan sýnir. Þó verður að segja eins og er, að tekjur þeirra nú eru senni­lega með besta móti miðað við tekjur annarra stétta, ef byggt er á afla ársins 1979. Það sýna tiltæk gögn sem eru handbær.

Um fiskvinnsluna vil ég fara nokkrum orðum og vanda hennar. Ríkisstj. hefur að undanförnu fjallað um stöðu fiskvinnslunnar, m.a. þar sem fyrir dyrum stendur að ákveða fiskverðið sem hér er verið að ræða. Enn fremur hafa forustumenn samtaka frystihúsanna átt fund með forsrh., sjútvrh. og viðskrh. og kynnt þar sjónarmið sín. Ég hygg að hafi verið gerð rein fyrir þeim viðræðum á Alþ. áður, ef ég man rétt. Ég held að sjútvrh. hafi gert það eða forsrh., ég man ekki hvor þeirra það var.

Það er ljóst að vegna innlendra kostnaðarbreytinga að undanförnu og nokkurrar lækkunar á markaðsverði á freðfiski í Bandaríkjunum eiga frystihúsin nú í nokkrum rekstrarörðugleikum, auk þess sem þörf þeirra fyrir rekstrarfé er sérlega brýn um þessar mundir. Það hefur verið svo og er sjálfsagt enn þá, að rekstrargrundvöllur frystihúsanna í landinu er verulega misjafn. Húsin hafa átt við ákaflega breytilega aðstöðu að búa varðandi hrá­efni. Það er misjafnlega öruggt, það berst ekki stöðugt að og margt fleira kemur til í þessum efnum. Þannig hefur oft og tíðum verið verulegur munur á stöðu frystihús­anna eftir því hvar er á landinu. Svo er ekki því að neita, að nokkur frystihús — ég vil segja meira og minna um allt landið-hafa oft og tíðum skorið sig úr í þessum efnum. En það hefur þá ekki síst verið vegna þess að þau hafa búið við stöðugt hráefni, sem er auðvitað undirstaða undir tryggan og öruggan rekstur frystihúsanna.

Ég neita því ekki að grundvöllur undir rekstri frysti­húsanna nú er erfiður. Ég álít að hann sé erfiður. Hann hefur stundum verið það áður af ýmsum ástæðum. M.a. er hann það vegna þess að nokkur verðlækkun hefur orðið á Bandaríkjamarkaði, þó ekki mikil. En það þarf ekki mikið til að auka á vandann þegar hann er talsvert ærinn fyrir. Ríkisstj. leggur áherslu á, að við þessum vanda verði snúist með ráðstöfunum sem stuðlað geti að aukinni hagkvæmni í rekstri, og mun í því skyni beita sér fyrir því, að fjármagni verði beint til framleiðniaukandi aðgerða í frystiiðnaðinum.

Það er sjálfsagt að viðurkenna, enda liggur það í aug­um uppi, að framleiðniaukandi aðgerðir í atvinnulífinu skila ekki árangri þegar í stað. Það tekur sinn tíma að skila árangri. Það hefur auðvitað orðið gífurleg fram­leiðniaukning í fiskiðnaðinum á síðasta áratug, og mætti nefna þar ákaflega margt nýtt sem komið hefur til, eins og t.d. að ekki er nema rétt um áratugur eða kannske rúmlega það í mesta lagi síðan farið var að taka upp fiskkassa í togurunum. Þeir hafa haft mjög mikla þýð­ingu fyrir að varðveita fiskinn í veiðiferðunum og færa hann ferskari að landi en áður var. Enn fremur er svo þess að geta, að í frystihúsunum hefur á undanförnum árum verið unnið að því að koma upp svokölluðum kældum móttökum, þ.e. aðstöðu til að stafla fiskkössun­um í sérstakar móttökur sem hafa ákveðið hitastig. Þannig hefur verið hægt að geyma hráefnið um langan tíma meðan það hefur verið unnið. Mér var sagt að á þeim tíma sem þessi mál voru mjög í brennidepli og menn voru að vinna að undirbúningi þeirra hefðu fróðir menn talið að nýtingin á hráefninu mundi aukast um 4–6% við þessar aðgerðir, og það er ekki lítið. Margt fleira hefur komið til á undanförnum árum sem hefur létt undir með fiskiðnaðinum og aukið stórlega nýtingu á hráefninu og útflutningsverðmæti.

Jafnframt þessu er hugmyndin að stofnlánakjör til fiskvinnslu verði endurskoðuð þannig að grunnvextir lækki, en almennri verðtryggingu verði komið á. Þá standa yfir ýmsar athuganir á vegum ríkisstj. á aðgerðum sem gætu komið til móts við fiskvinnsluna, en ég sé ekki ástæðu til að greina frá þeim á þessu stigi málsins.

Ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því, að afurðalán til fisk­iðnaðarins lækki ekki, eins og Seðlabankinn hafði áformað. Búið var að taka ákvörðun um það í janúarmán­uði s.l. að lækka afurðalán til atvinnuvegánna um 3.5%. Núv. ríkisstj., sem hefur ekki setið lengi að völdum, ekki nema síðan 8. febr., beitti sér fyrir því að breyta þessu, og Seðlabankinn og viðskiptabankarnir hafa samþykkt fyrir nokkru að sjá til þess, að afurðalánum verði ekki breytt. Þetta kemur til handa fiskvinnslunni eins og öðrum aðil­um atvinnuveganna.

Þá get ég skýrt frá því, að viðskrn. hefur óskað eftir endurskoðun á afurðalánatillögum í heild í því skyni að undirstöðuatvinnuvegunum sé tryggt eðlilegt rekstrarfé með sem hagkvæmustum kjörum.

Þá vil ég geta þess, að ef ekki hefði verið gripið inn í hefðu vextir hækkað um 3.5–5% 1. mars s.l. Ríkisstj. greip inn í það mál og ákvað í samræmi við stjórnarsátt­mála að vextirnir yrðu óbreyttir. Þetta varð auðvitað til hags fyrir fiskvinnsluna sem notar, eins og allir vita, geysilega mikið rekstrarfé.

Um gengismálin verður að segja alveg eins og er, að það eru viðkvæm mál sem er dálítið erfitt að ræða bæði á Alþ. og annars staðar. Gengi gjaldmiðilsins er málefni sem snertir hvern einasta þjóðfélagsborgara. Ef gefnar eru út tilkynningar um breytingar á gengi krónunnar hafa menn misjafna aðstöðu til að hagnýta sér þá vitn­eskju. Sumir hafa aðstöðu til þess, aðrir ekki, auk þess sem það hefur ákaflega margbreytileg áhrif í þjóðfélaginu. Ég tel þess vegna vera óeðlilegt þegar þeir aðilar, sem skipa ábyrgðarstöður í þjóðfélaginu, hvort sem er í ríkis­kerfinu, ríkisstjórn, á Alþ. eða í forsvari fyrir atvinnulíf­ið, tala um gengisfellingu næstu daga eins og sjálfsagt mál. Það er mjög óheppilegt og á ekki að vera svo. Fréttamenn eiga að mínu mati alls ekki að spyrja um slíkt. (Forseti: Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann eigi langt eftir af máli sínu. Ég hafði fallist á að fresta fundin­um kl. 3 vegna fundarhalda þingflokka.) Nei, ég á eftir nokkur orð.

Ég vil að lokum segja að ríkisstj. mun leggja alla áherslu á að finna leiðir til úrbóta á næstunni í þessum varanlegu hagsmunamálum fiskiðnaðarins. Það er kunnugt að gengi hefur sigið nokkuð upp á síðkastið. Um það liggja fyrir yfirlýsingar frá Seðlabanka. Ég hef ekki í höndunum á þessu augnabliki upplýsingar um hvað gengissigið hefur verið mikið undanfarið. Það hefur verið nokkuð og hefur að sjálfsögðu átt þátt í að bæta nokkuð stöðu sjávarútvegsins.

Þetta ófullkomna yfirlit mitt væri sjálfsagt miklu full­komnara ef hæstv. sjútvrh. væri viðstaddur, því að þó að ég fylgist auðvitað með þessum málum, eins og við ger­um allir, hef ég ekki aðstöðu til þess að fylgjast með þeim frá degi til dags og þess vegna ekki eins góða aðstöðu til að gefa fullnægjandi skýrslur og sá ráðh. sem fer með þessi mál vanalega. En ég vona að hv.1. þm. Vestf. telji að hér hafi verið gefnar nokkrar upplýsingar um það sem hann hefur verið að spyrjast fyrir um.