24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessum umr. utan dagskrár, en geri það vegna orða sem féllu til hjá staðgengil sjútvrh., hæstv. viðskrh., í ræðu hans áðan. Hins vegar vil ég alveg taka undir það, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, að það er í sjálfu sér alveg óviðun­andi fyrir nokkra stétt að af 84 dögum á þessu ári stundi hún atvinnu sína í 47 daga án þess að vita fyrir hvaða laun er unnið.

Þótt hæstv. viðskrh. hafi bent á dæmi þess, að átján sinnum hafi ekki verið búið að ráða fram úr ákvörðun fiskverðs um áramót, þá held ég að séu með ólíkindum tafirnar sem nú hafa orðið. Tafirnar, sem hann vitnaði til, hafa aðeins átt sér stað í örfá skipti og hafa tæpast verið lengri en 4–5–6 dagar.

Að sjálfsögðu líkar sjómannasamtökunum þetta ekki. T.d. var í því félagi, sem ég hef verið í stjórn í í nær tvo áratugi og átt sæti í hátt í fjóra áratugi, samþykkt fyrir skömmu fordæming á þann drátt sem nú hefur orðið á ákvörðuninni um fiskverð. Það er harmað í þeirri samþykkt, að enn einu sinni sé sjómönnum ætlað að vinna á óþekktu kaupi langtímum saman, eins og þar segir. Og enn fremur segir svo í samþykkt sem gerð var í stjórn þessa stærsta sjómannafélags landsins, með leyfi forseta:

„Stjórnin skorar á landssamtök sjómanna að kalla nú þegar saman til fundar með forustumönnum sjómanna­félaganna sem taki ákvörðun um hörð viðbrögð gegn þessu gerræði.“

Þetta mun hafa verið gert nú þegar og munu stjórnir landssambanda sjómannasamtakanna ásamt formönn­um aðildarfélaga hittast næsta miðvikudag til að ráða ráðum sínum.

En það var ekki aðalerindi mitt hingað að vekja at­hygli á þessu, heldur að vekja athygli hv. þm. á þeim orðum sem féllu í ræðu hæstv. viðskrh., þegar hann benti á að það væru tiltæk gögn sem sýndu að tekjur sjómanna á s.l. ári væru með besta móti. Að vísu tók hann fram, og roðnaði nokkuð um leið, að hann sæi ekki ofsjónum yfir þessum tekjum. Þó ekki væri! Það er nefnilega svo með ýmsa spekinga og embættismenn, sem eru kallaðir til af ráðh. þessarar ríkisstj. og fyrri ríkisstj., að það er eins og þeir séu nokkurs konar gólfmottur fyrir hæstv. ráðh. og geti afgreitt allan fjandann, hvað vitlaust sem það er, í hendur þeirra. Það má nefnilega ekki gleyma því, hæstv. ráðh., að auknum tekjum fiskimanna fylgir ekki aðeins miklu lengri vinnutími, heldur líka stóraukið aflamagn og um leið auknar fjarvistir við þann aðbúnað sem fiski­menn verða að búa við. Og það er út í hött að vera að tala um tekjur einnar eða annarrar stéttar öðruvísi en þessi atriði séu látin fylgja með, bæði lengd vinnutíma og annað, sem fylgir viðkomandi störfum. Þetta hef ég margoft sagt við þá ráðh. sem koma úr mínum flokki, og ég veit að þeir skilja það, og ég vænti þess að hæstv. viðskrh. skilji þessa einföldu staðreynd jafnframt.

Ég get ekki annað en brosað að því þegar hæstv. ráðh. þessarar ríkisstj. — og reyndar þeirrar fyrri líka — eru að tala um framleiðniaukandi aðgerðir.

Það er eins og slíkt sé ný uppfinning. Þetta hefur verið gert áratugum saman í fiskiðnaði okkar, kannske aldrei frekar og stórmerkilegar, vil ég meina, en á fyrstu árum viðreisnar. Það vil ég þakka núv. hæstv. forsrh., sem þá var fjmrh. Hann skildi slíkt manna best og beitti sér fyrir miklum fjárveitingum til þess að af framförum gati orðið. Máske mun það verða núna í fyrsta sinn að fram­leiðniaukandi aðgerðir komi að einhverju gagni vegna þess að hann á sæti í ríkisstj. nú. Það er nefnilega ekki nóg að vera að tala um þessi atriði, það verður líka að framkvæma á réttan hátt. Það er ekki nóg að afhenda fjárupphæðir þeim mönnum, sem nýta skulu þær til framleiðniaukandi aðgerða, og láta peningana svo ein­göngu enda í nýjum steinsteypukumböldum. Það er ekki alltaf framleiðniaukandi, þó að það geti verið nauðsyn­legt öðru hvoru.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en ég vildi láta ofangreind atriði koma fram vegna þeirra orða sem féllu hjá hæstv. viðskrh. Þótt hann sæi engum ofsjónum yfir tekjum sjómanna sá hann samt sem áður ástæðu til að vitna til þeirra.