24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. fyrir að hafa rætt þessi mál þó að ég hafi orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með efnisinnihald í ræðum þeirra, ekki hvað það snertir að það voru prúðar ræður og gangur mála rakinn, en í raun og veru kom ekkert fram hvað er verið að gera eða hvað ætlunin er að gera til að leysa þessi mál, en það er auðvitað það sem mestu skiptir.

Hæstv. viðskrh. vildi bendla mig við faðerni fyrri ríkisstj. og sagði að ég ætti króga einn, sem hefði komið frá þeirri stjórn, frv. til l. um jöfnunargjald á orkukostn­að. Ég skal segja honum að ég átti enga aðild að þeirri ríkisstj. Hins vegar samþykkti minn flokkur og núv. hæstv. forsrh. að verja þá stjórn falli, og síðan var þing rofið og efnt til kosninga, en að þeim loknum sat sú ríkisstj. á ábyrgð forseta Íslands. Ég held að ef hæstv. viðskrh. hefur eitthvað að athuga við gerðir þeirrar ríkisstj. eigi hann að koma aths. sínum þangað, en ekki til mín. Og læt ég svo útrætt um jöfnunargjald á orkukostn­að, frv. fyrti ríkisstj.

Það er alvegrétt hjá hæstv. ráðh. að Verðlagsráð sjávar­útvegsins hefur æðioft ekki kveðið upp úrskurði sína á réttum tíma og réttum degi. Oftast nær hefur þarna verið um nokkra daga að ræða, eins og við vitum, en þó hefur í nokkrum tilvikum verið um að ræða verulegan tíma og þá almenn mótmæli. Ég hygg að þó muni vera algert einsdæmi að ekkert fiskverð sé í 47 daga af 84.

Hæstv. viðskrh. minntist á það fordæmi þegar odda­maður kvað einn upp úrskurð um fiskverð. Ég held að það sé sama hvaða ríkisstj. verður við völd, hún muni ekki verða svo ógæfusöm að beita þeirri aðferð. Það væri sama og valda stórátökum hagsmunaaðila í sjávarútvegi við ríkisvaldið, sem við sæjum ekki fyrir endann á, og þar með væri þetta form, sem haft er á og hefur verið í gildi, að mig minnir um rúma tvo áratugi, Verðlagsráð sjávarút­vegsins, úr sögunni og þyrfti að finna upp eitthvað nýtt fyrirkomulag til að ákvarða fiskverð. Ég hef ekki fundið nokkurn svo framsýnan að geta bent á aðra betri leið en Verðlagsráð sjávarútvegsins, þó að margt megi að þeim lögum finna. Enn þá hefur engin okkar haft annað betra fram að færa.

Hæstv. viðskrh. svaraði þeirri spurningu minni, sem ég bar fram, hvort ætlunin væri að leggja skatt á olíunotkun útgerðarinnar. Hann svaraði því til, að engin ákvörðun hefði verið tekin um það efni. Ég veit að það hefur engin ákvörðun verið tekin enn um orkuskatt. En eru þessi mál til umræðu hjá ríkisstj., og kemur til álita hjá hæstv. ríkisstj. að leggja slíkan skatt á eða skatt í slíku formi? Það var í raun og veru spurning mín.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur komið inn á það sem hæstv. viðskrh. sagði um tekjur sjómanna. Ég vil bæta því við, að þegar vel veiðist og sjómenn afla mikils og hafa háar tekjur stendur ekki á fréttum, þá eru allar fréttastofur í gangi. En ég hef sjaldan séð að þegar sjó­menn ná ekki kauptryggingu miðað við sinn langa vinnudag, jafnvel heilar vertíðir, hafi það þótt mjög fréttnæmt hjá okkur. Hitt er miklu frekar talað um, og er í sjálfu sér ákaflega áberandi hvað það þykir fréttnæmt, þegar loðnuskip veiðir á einum sólarhring þetta og þetta mikið, hvað hásetahlutur er. Hins vegar þykir ekki mjög fréttnæmt ef loðnuskip verður að hætta og liggja jafnvel nokkra mánuði þegar veitt hefur verið í þann kvóta sem má veiða. Sama má segja um margar aðrar greinar sjávarútvegsins.

Ég held að það sé rétt hjá mér, að hvert prósentustig í fiskverði mun vera nálægt 700 millj. kr. miðað við ár. Hér er því um gífurlega háa upphæð að ræða.

Það er viðurkennt af öllum, að grundvöllurinn undir rekstri frystihúsanna sé nú erfiður. Það er viðurkennt af hlutlausum stofnunum að þau séu rekin með halla. Eina, sem fram kom jákvætt við þessum vanda í ræðu Hæstv. viðskrh., var það afrek núv. ríkisstj. að lækka ekki afurðalánin til frystihúsanna. Það er alveg stórkostlegt að stöðva Seðlabankann í því að loka öllum frystihúsum landsins. Ég verð að segja, að ég tel það ekki vera neitt sérstætt afrek þó að ríkisstj. hafi komið í veg fyrir að Seðlabankinn framkvæmdi þá vitleysu sem hann ætlaði sér að gera.

Við skulum líka hafa í huga, að það er ekki heldur sama ástandið nú hjá frystihúsum og víðar í sjávarútvegi og hefur verið á undanförnum árum. Afurðirnar eru miklu meiri sem liggja í birgðum, þannig að það liggur mikið fjármagn í auknum afurðum mánuðum saman. Það gerir rekstur allra þessara fyrirtækja enn þá erfiðari. Vaxta­kostnaðurinn við þessa birgðaaukningu er gífurlegur.

Ég tek undir það með hæstv. viðskrh., að það er hinn mesti ósiður í þessu landi þegar menn eru að tilkynna þjóðinni fyrir fram að hætta sé á gengislækkun og eigin­lega undirbúa alla undir að losa sig við alla peninga sem þeir eiga og koma þeim í eitthvað annað og betra. Undir þetta tek ég. En hitt er afleitt, þegar ráðh. eru að láta kreista þetta út úr sér, sem hefur ekki verið mótmælt af hinum eina sanna og rétta sjútvrh. þessarar ríkisstj. — Þá á ég ekki við Hæstv. viðskrh. sem gegnir embætti sjútvrh. nú um tíma.

Hæstv. forsrh. talaði mjög slétt og fellt, eins og hans var von og vísa, um þennan vanda, sérstaklega frysti­iðnaðarins. En það kom mér mjög á óvart þegar hann sagði að orðið hefði samkomulag aðila Verðlagsráðsins um fiskverð um áramótin. Það út af fyrir sig er alveg rétt. Þá greiddi öll yfirnefndin atkvæði með því samkomulagi. En voru ekki einhver loforð gefin af þáv. stjórnvöldum? Voru ekki erfiðleikarnir þeir, að 13% verðbætur komu á laun 1. des. og gerðu það að verkum að sjómenn vildu ekki gefa eftir hækkun á tekjum sínum þegar allir aðrir launþegar fengu hækkun? Þetta var vitað að mundi hafa í för með sér alvarlega útgjaldaaukningu, bæði fyrir út­gerð og fiskvinnslu, og þess vegna átti það ekki að koma nokkrum á óvart að vandi yrði á höndum. Þó að ríkisstj. hafi ekki fæðst fyrr en 8. febr. á þessu ári vissi hún vel, allir ráðh., að þessir erfiðleikar voru fyrir hendi. Í stjórn­armyndunarviðræðunum, sem áttu sér stað í des. og allt fram til þess dags að stjórn var mynduð, lá fyrir að eftir fiskverðshækkunina um 11% yrðu miklir erfiðleikar hjá fiskvinnslunni, sérstaklega frystiiðnaðinum, sem yrði að mæta með einhverjum hætti. Mér er nokkurn veginn ljóst að gengissigi var lofað af fyrri stjórn, sem var starfsstjórn. Núv. ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um gengissig og það hefur verið framkvæmt undanfarna daga, en það er ekki nema lítið af því sem þarf til að brúa bilið.

Hæstv. forsrh. spurði mig að því, hvort ég hefði tillögur fram að færa eða ábendingar að gera. Ég hygg að það sé sjaldgæft að óbreyttur þm. segi fyrir um það einn, hvernig hann áliti að eigi að leysa vanda eins og þennan, sem er upp á marga milljarða, þegar ríkisstj. með allan sér­fræðingaskarann og allar stofnanirnar og tölvurnar til að reikna fyrir sig stendur eins og þvara. Ég hef mínar hugmyndir í sambandi við það, hvernig leysa á þennan vanda. Við getum ekki bent á ávísun á Byggðasjóð, eins og hæstv. forsrh. nefndi áðan, því að vegna gífurlegra van­skila sjávarútvegs við Byggðasjóð getur Byggðasjóður ekki lánað til framleiðniaukningar. Ég sé ekki fram á annað, svo að ég gangi lengra en venjulegt er að óbreyttir þm. geri, en hæstv. ríkisstj. verði að beita sér fyrir „kon­verteringu“ lána, breyta vanskilum bæði útgerðar og fiskvinnslu hjá stofnlánasjóðunum, bæði hjá Fiskveiða­sjóði og Byggðasjóði, og jafnframt eigi bankarnir að taka þátt í þeim aðgerðum. Hins vegar er ég ekki fær um að rekja þetta til enda, því einnig verður að taka inn í dæmið þær skuldbindingar sem þessar stofnanir allar hafa gefið fram til þessa. Þó er með þessum hætti hægt að leysa töluverðan vanda sem þegar hefur hlaðist upp. En það bætir ekki þá rekstrarstöðu sem fiskvinnslan nú er komin í. Eina leiðin er auðvitað að stöðva allar launa- og verð­hækkanir í þessu landi. Þá hækkar fiskverðið ekki, þá hækka ekki vinnulaunin í frystihúsunum eða allur til­kostnaður sem bundinn er vinnu ef allt annað er stöðvað. En auðvitað getur ekki gengið að fyrst komi uppbætur á laun til almennra launþega í landinu, en síðar, þegar kemur að sjómannastéttinni, eigi að segja: Hingað og ekki lengra. Nú stoppum við. Þið veidduð svo vel í fyrra eða hittiðfyrra að þetta getur engan veginn gengið. ­Um þetta helt ég að hæstv. ríkisstj. hljóti að vera mér sammála.

En þá komum við að hinu. Þegar laun og verðbætur yrðu stöðvaðar yrði auðvitað að draga saman í öllum þeim miklu útgjöldum sem eru innan ríkisbúskaparins og víðar, því að ekki er sífellt hægt að bæta útgjaldaliðum og auknum kostnaði við framfærslu heimilanna í landinu ef kaupið á að vera óbreytt. Þá komum við að því sama og áður, að við verðum að berjast við verðbólguna og stöðva hana. Það þótti glæpur fyrir síðustu kosningar eða allt að því glæpur að tala um leiftursókn gegn verðbólgu. Það kom í ljós að fleiri Íslendingum þótti vænna um verðbólguna en menn héldu, jafnvel til þeir sem þykir vænna um verðbólguna en konuna sína. (Gripið fram í: Hvaða menn eru það?) Það eru menn sem hugsa ein­göngu um að fjárfesta og skulda og auka á verðbólguna, svo að ég geti frætt einn af máttarstólpum — (Gripið fram í.) Ja, ef þú hagar þér þannig ert þú einn af þeim.

Það er þetta sem máli skiptir. Stjórnin vildi þetta ekki. Hún vildi fara troðnu framsóknarslóðina: að lofa að færa verðbólguna niður, en mjög gætilega þó og mistakast, eins og fyrri vinstri stjórn, og segja þá ári síðar: Við ætlum að færa þetta áform okkar eitt ár aftur í tímann og byrja nýtt líf með að færa verðbólguna niður. Ef þessi fram­sóknarlækning á verðbólgunni á að halda áfram hjá hæstv. ríkisstj. sé ég ekki nokkra leið aðra en þá sem hæstv. forsrh. vill varast og ég vakti athygli á: gengis­lækkun, - gengislækkun á eftir gengislækkun. Gengis­lækkanir komu að verulegu leyti til góða fyrr á árum, en eftir að við höfum tekið upp að svo mörgu leyti hið nýja kerfi, sem er gengistrygging, eru hin góðu áhrif gengis­breytingarinnar óðum að minnka, en við stöndum eftir með hin sem eru óhagkvæmari.

Ég skal, hæstv. forseti, fara að ljúka máli mínu. Ég þakka fyrir að hafa fengið að taka hér til máls um þetta mikilvæga mál.Ég vona að hæstv. ríkisstj. leggi kapp á að vinna að lausn þessa máls, en tali ekki, eins og hér hefur verið gert, neitt um vandann eða lausnina, ekkert um hvernig eigi að fara að. Ég hygg að ef skynsamlega er að farið, ef tekin er upp harðari barátta við verðbólguna, hvort sem verðbólguhvetjandi fólki líkar það betur eða verr, muni allir góðir menn standa með ríkisstj. og allir þeir sem vilja að þessu kapphlaupi og hrunadansi linni í íslensku þjóðlífi.