24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er kannske farið að draga aðeins af mér frá því að ég bað um orðið á fimmtudaginn í þessu máli, en þá, eins og þm. eflaust rekur minni til, urðu æðisnarpar umr. í d. og einn hv. þm., 2. þm. Norðurl e., taldi sig færari öðrum mönnum að dæma um taugaveiklun þm., eins og hann orðaði það í ræðu sinni. Ég ætla ekki frekar að ræða um þá tauga­veiklun, hv. þm. getur haldið læknisrannsóknum sínum og úrskurðum áfram í friði fyrir mér, en ég held að spennan hafi verið fyrst og fremst vegna þess eintrján­ingsháttar sem átti sér stað hjá bæði forseta d. og ríkisstj. eða þeim hluta hennar sem var mættur hér. Flokkar stjórnarandstöðunnar höfðu farið fram á að umr. um þetta frv. yrði frestað þangað til dagsins ljós sæi frv. um skattþrepin, sem dreift var á borðin kl. rúmlega tvö í dag. Því var ekki sinnt. Þó mun hæstv. félmrh. hafa séð að sér, að það væru ekki mjög skynsamleg vinnubrögð að halda áfram með slíkum hætti. En hæstv. landbrh. kom fram á sjónarsviðið seint á þessum degi og tók undir með forset­anum, — 1. varaforseta sem þá stjórnaði hér aðallega áður en hann hvarf af fundi og fól 2. varaforseta stjórn­ina, — og taldi ekki koma til greina að fresta þessari umr., henni yrði haldið áfram. En svo virðast einhverjir skynsamari og rólegri menn í stjórnarliðinu hafa komið vitinu fyrir þá, því að um kvöldmatarleytið var farið að tala um að rétt væri og ekki ósanngjarnt að verða við þeirri kröfu stjórnarandstöðunnar að frv., sem ég nefndi áðan, sæi dagsins ljós áður en frv. um tekjustofnana yrði afgreitt úr deildinni.

Þetta frv., eins og það var upprunalega flutt, vakti engan úlfaþyt. Hins vegar varð mikil andstaða við þá till. sem fjórir þm. úr stjórnarflokkunum fluttu við 5. gr. frv.

Það var ekki að ástæðulausu að stjórnarandstæðingar vildu ræða þetta mál og sjá skattlagninguna á almenning í heild þannig að þeir vissu hvað um væri að ræða. Sjálfstfl. markaði þá stefnu fyrir síðustu kosningar að standa ekki að aukinni skattálagningu og skattheimtu á almenning, taldi vera nóg að gert hjá vinstri stjórninni sálugu og taldi nauðsyn bera til að draga heldur úr sköttum samfara því að draga úr verðbólgu, en ekki bæta skatti ofan á skatt. Hins vegar virðist sem a.m.k. fjórir menn í Sjálfstfl. hafi snúist gegn eigin stefnu í þessum efnum og sjái nú ekkert annað en skattaálögur til viðbótar, og samt stóðu þeir að öllum samþykktum í Sjálfstfl. og voru ekkert síður ákafir en við hinir. En hvað hefur valdið breytingunni? Hvort það eru ráðherrastólarnir eða eitthvað fleira, sem hefur valdið þessari breytingu, veit ég ekki, en hjá okkur hin­um er stefnan alveg óbreytt. Við viljum ekki seilast dýpra í vasa skattþegnanna í landinu en þegar er gert. Hins vegar erum við reiðubúnir að standa með ríkisstj. í því að draga úr hvers kyns útgjöldum ríkissjóðs og viljum fara vand­lega yfir þau mál öll.

Einn hv. þm., ég held að það hafi verið 3. þm. Vestf., lagði fram fsp. sérstaklega til hæstv. félmrh. Hæstv. félmrh. svaraði henni ekki þó að hann tæki til máls, að mig minnir, oftar en einu sinni við umr. um frv. En fsp. hv. þm., sem ég sé að er fjarverandi nú, var á þá lund, hvort haft hefði verið samráð og samstarf stjórnvalda við launafólkið í landinu. Hann vitnaði í lög um stjórn efna­hagsmála o.fl., sem samþykkt voru á hv. Alþ. 7. apríl 1979. Við sjálfstæðismenn vorum ekki hrifnir af þeim lögum, og þið megið ekki taka það á þann veg, að mér sé afskaplega sárt um þessi lög. En hvort sem við erum meðmæltir einhverjum lögum, sem Alþ. hefur sett, eða ekki, hvort sem við höfum greitt atkv. með eða móti, eru þau þó lög landsins á meðan þau eru ekki numin úr gildi. Nú stendur þannig á að lög um efnahagsmál eru í fullu gildi, en þau voru sett af fyrri vinstri stjórn. Í II. kafla laganna segir í 3. gr.:

„Efla skal reglubundið samráð og samstarf stjórn­valda og launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurek­enda í efnahags- og kjaramálum.“

Í 4. gr. segir:

„Þátttakendur í samráði samkv. 3. gr. skulu vera full­trúar launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda og opinberra aðila. Samráðsfundi má halda bæði með fulltrúum einstakra samtaka og fulltrúum ríkisstj. og öllum samráðsaðilum í senn. Skipa skal starfshópa til að vinna að einstökum málaflokkum á vegum ríkisstj.

Svo segir í 5. gr. laganna: „Verkefni samráðs þessa skal m.a. vera: 1. Áð ræða meginþætti í efnahagsmálum og helstu efnahagsmarkmið ríkisstj. frá ári til árs og til lengri tíma, í því skyni að leggja grundvöll að samræmdum ákvörðunum á sviði opinberra fjármála, peninga- og lánamála, lífeyrismála og verðlagseftirlits af opinberri hálfu, og á sviði kjaramála af hálfu aðila vinnumarkað­arins.“

Ég held að slík hækkun skatta sé á sviði kjaramála, og þó að mér sé ljóst að rætt hafi verið við formann Verka­mannasambands Íslands um þessi mál og hann með tryggð sinni til núv. ríkisstj. gerðist meðflm. að brtt. við 5. gr. og þó að hann sé bæði formaður Verkamannasam­bandsins og stór og burðarmikill, þá get ég ekki trúað því, að lögin nái til hans eins, þegar talað er um að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, ekki einu sinni þeg­ar átt er við launþegana, hvað þá heldur atvinnurekend­urna, svo að ég leyfi mér að spyrja hæstv. félmrh. einu sinni enn: Hefur samráð verið haft? Hafa þessir aðilar verið kallaðir til samráðs um skattahækkanir? Og ef svo er og það hefur farið fram hjá okkur, hvernig hafa þeir aðilar lítið á þessi mál? Voru þeir sammála þessu?

Nú þýðir ekkert fyrir hæstv. félmrh. að segja: Í stjfrv. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga var þessi hækkun ekki, hún kom frá Alexander Stefánssyni, Guðmundi J., Jóhanni Einvarðssyni og Eggert Haukdal. — Þetta eru stjórnarsinnar og þeim er stjórnað af ríkisstj. Ríkisstj. stjórnar þeim. Þeir stjórna ekki ríkisstj. Þeir eru að gera þetta fyrir ríkisstj. Þetta er breyting sem verður á frv. sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir standa að. Þess vegna er tvímælalaus skylda ríkisstj. að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins samkv. lögunum sem eru í gildi um stjórn efnahagsmála o.fl., þó að ég sé ekki eða hafi ekki verið neinn sérstakur stuðningsmaður þeirra laga. Eða ætlar ríkisstj. að afnema þessi lög? Það er sjónarmið út af fyrir sig. Þá hefði það átt að koma fram í þessum umr. Þá hefði átt að flytja frv. um afnám þessara laga. Ég hugsa að jafnvel hefðu gengið fljótar fyrir sig umr. um afnám þessara laga en tekjustofnafrv., eins og umr. fóru á fimmtudaginn var.

Það var gert samkomulag um að afgreiða þetta frv. á þessum degi og ég ætla ekki þrátt fyrir fyrri hótun mína að flytja langa ræðu. Ætla ég nú ekki að hafa þessi orð fleiri vegna þess samkomulags sem var gert. Nú höfum við það frv. sem víð fórum fram á að sjá. En betur hefði tíma Alþ. verið varið á fimmtudaginn var ef ráðh. og stjórnarliðið hefðu samþykkt eðlilega og skynsamlega afgreiðslu og umr. um þetta mál.