24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég var einn þeirra þm. sem lögðu mikla áherslu á það í umr. s.l. miðvikudag, að þeirri umr. yrði frestað og þm. gæfist kostur á að skoða í einni heild annars vegar útsvarsbyrði og hins vegar tekjuskattsbyrði. Nú hefur frv. til l. um skattstiga verið lagt fram og stjórnarandstaðan fékk það frv. í hendur fyrir helgi, þannig að nokkurt svigrúm hefur gefist til að kanna þetta mál í einni heild. Vil ég þess vegna segja nokkur orð af því tilefni, en ekki halda uppi löngu máli.

Það er aðsjálfsögðu, eins og fram kemur í grg. með þessu frv., erfitt og flókið mál að bera saman skattálagn­ingu samkv. frv. eftir þá skattalagabreytingu og kerfis­breytingu sem gerð hefur verið á álagningu tekjuskatts. Hins vegar má gefa sér ákveðnar forsendur og setja upp ýmis dæmi í því sambandi. Það hef ég látið gera fyrir mig til þess að nokkuð megi átta sig á hvernig heildarskatt­byrðin komi út. Sú athugun staðfestir það, sem ég óttað­ist, að hér er um allmikla þyngingu að ræða varðandi heildarskattbyrði.

Ef reiknað er með að notaður sé 12.1% útsvarsstiginn, sem vafalaust verður gert í mörgum tilfellum, m.a. hjá fjölmennustu sveitarfélögunum, og ef hinn nýi skattstigi verður notaður eins og fram kemur í þessu lagafrv. sýnist mér að skattbyrði bæði á einstaklingum og hjónum þyngist allmikið, að vísu nokkuð mismunandi eftir tekjuflokkum. Mér sýnist t.d., að skattbyrði einstaklinga þyngist, og það sem merkilegra er, að hún virðist þyngj­ast meira hjá þeim sem hafa tiltölulega lægri tekjur, og er það nokkuð andstætt því sem fram kemur í grg. með frv. Ef við tökum á hinn bóginn hjón og aðeins annað vinnur úti virðist skattbyrðin þyngjast allmikið á hjónum með miðlungstekjur og þar yfir. Sama virðist vera ef dæmið er sett upp með hjón sem vinna bæði úti og ef maður gefur sér þær forsendur að þau vinni fyrir jafnháum tekjum.

Dæmi af þessu tagi má að sjálfsögðu setja upp enda­laust, því að tilvikin í lífinu eru svo margvísleg bæði hjá einstaklingum og hjónum. En þessi allmörgu dæmi, sem ég hef látið reikna, sýna og staðfesta það sem ég óttaðist, að hér sé um að ræða heildarþyngingu á skattbyrði bæði hjá einstaklingum og hjá hjónum með meðaltekjur og þar yfir. Ég hlýt því að lýsa enn yfir andstöðu minni við þá hækkun á útsvarsstiga, sem hér hefur verið heimiluð með þeirri sérstöku brtt. sem samþykkt hefur verið í hv. d., og tel að það hafi alls ekki verið að ástæðulausu að við þm. stjórnarandstöðunnar fórum mjög eindregið fram á frestun í þessu máli, reyndar áður en sú brtt. var samþ., þannig að okkur gæfist tóm til að skoða skattbyrðina í heild. Athuganirnar, sem ég hef látið gera, staðfesta grun og ótta okkar.

brtt., sem hér hefur verið flutt af hv. 5. þm. Suðurl., Magnúsi H. Magnússyni, gerir ráð fyrir að þegar hækk­aði útsvarsstiginn er notaður, þ.e. þegar hann fer upp í 12.1%, sé persónuafsláttur hækkaður allmikið. Hv. þm. lýsti því í ræðu sinni við umr. s.l. miðvikudag, hvað þetta þýddi í raun, en það er alveg ljóst að hér er um að ræða till. sem hefur í för með sér að heildarútsvarsbyrðin lækkar ef hún er samþ. Ég vil þess vegna lýsa því yfir af minni hálfu að ég mun styðja þá till. sem hv. þm. flutti.

Að öðru leyti læt ég þessar aths. nægja við lok þessarar umr., en ítreka að það var alls ekki að ófyrirsynju að við fórum fram á þá frestun sem veitt var, þó að hún kæmi of seint vegna þess að þá var þegar búið að samþykkja þá brtt. sem hefur í för með sér hækkað útsvar á stóran hóp landsmanna.