24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hafi ég lítið eitthvað dauðalegur út þegar ég kom inn er það mis­skilningur að ég hafi talað mig dauðan í sambandi við þetta frv. Það, sem ég hef talað, hefur verið um þingsköp. Ég skal hins vegar ekki eyða miklum tíma þingsins.

Ég ætla mér að flytja við þessa umr. brtt. við það frv. sem hér er til umr. og get verið mjög stuttorður.

Fyrri brtt., sem ég flyt, er við 3. gr. frv. og varðar þá íslenska ríkisborgara sem starfa á vegum ríkisins erlendis og með nýjum lögum eru nú orðnir skattskyldir. Ég leyfi mér að flytja brtt. við 3. gr. frv. um að þeir aðilar verði undanþegnir útsvarsskyldu. Það mun ekki vera eins í öllum nágrannalöndum okkar, hvernig farið er með mál í þessu tilfelli. Sums staðar er útsvarsskylda felld niður, annars staðar er mönnum gert í stað útsvars að greiða skatt til ríkisins. Ég held að frv., eins og það er, þýði bein útgjöld fyrir ríkissjóð, þannig að það undantekningar­ákvæði, sem yrði, ef samþ. verður, sett inn í lögin, þýddi í raun og veru minni útgjöld fyrir ríkissjóð.

„Við 3. gr. 4. mgr. komi viðbót:

Svo og skal draga frá útsvarsskyldum tekjum starfs­laun, sem greidd eru vegna starfa erlendis í þjónustu hins íslenska ríkis við sendiráð Íslands og fastanefndir Íslands hjá alþjóðastofnunum.“

Síðari brtt., sem ég leyfi mér að flytja hér, er við 14. gr. frv., þar sem um er að ræða aðstöðugjaldsstofn og gert ráð fyrir að draga frá gjaldfærslu vegna 53. gr. laga nr. 40/1978, eins og gera skal varðandi tekjufærslu. Að mínum dómi er eðlilegast að hvorug færslan hafi áhrif á ákvörðun aðstöðugjaldsstofns. Gjaldfærslan er að vissu leyti leiðrétting á ofmetnum fjármagnstekjum og því að mínum dómi eðlilegt að gjaldfærslan hækki ekki stofn til aðstöðugjaldsálagningar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska eftir að leitað verði afbrigða fyrir skriflega fluttum brtt.