24.03.1980
Efri deild: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er ástæða til að ræða þau gífuryrði sem konungur marxistanna í Alþb. lét sér um munn fara. En ég vil aðeins segja það, að sú krafa, sem ég kom með fram áðan eða sagði frá að ég mundi leggja fram í félmn., er nákvæmlega á réttum tíma. Það er fyrst nú sem mér gefst tækifæri til þess í þessari deild að leggja hana fram, og ég geri það á fundi félmn. sem væntanlega verður haldinn á morgun.

Hv. þm. fór allmörgum orðum um það, að formaður Verkamannasambandsins hefði lagt til að þessi hækkun ætti sér stað. Ég vil upplýsa það, að formaður Verka­mannasambandsins hefur enga heimild til þess að leggja fram till. um útsvarsbyrði í nafni Verkamannasambands Íslands. Ég hef ekki heldur trú á því, að hann hafi hugsað á þann hátt, að svo væri gert, enda hefur hann ekki nokkra heimild til þess. Ég er alveg sannfærður um það, að ef þetta yrði lagt fyrir stjórn Verkamannasambandsins til umsagnar, þá yrði útsvarshækkun harðlega mótmælt. Hann fengi engu ráðið um það. Þó menn hafi verið vélaðir til að flytja svona till., þá er ekki þar með sagt að það sé í nafni þeirra samtaka sem viðkomandi menn eru í forustu fyrir.

Ég vil spyrja hvað veldur því, að hv. þm. Ólafur Ragn­ar Grímsson talar á móti því að Alþýðusambandið fjalli um þetta. Hvað er maðurinn að þvæla ef hann er sam­þykkur því, að Alþýðusambandið fái að segja sitt álit á fyrirhugaðri útsvarshækkun? Það væri líka fróðlegt að vita, hvað Verkamannasambandið hefði um þessi mál að segja. Það er spurning hvort á ekki að óska eftir því líka, að framkvæmdastjórn Verkamannasambandsins segi til um það, hvort hún vill samþykkja hækkun á útsvörum eða ekki. Það er mín skoðun, að þessi útsvarshækkun sé mjög kaldar kveðjur til íslenskrar alþýðu og sé til þess fallin að tefja og spilla fyrir kjarasamningum, alls ekki til að liðka fyrir þeim.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að svara öllu fleiru hér. En ég spyr: Er Ólafur Ragnar Grímsson samþykkur því, að Alþýðusambandið fái að segja eitthvað um þessa aðför að launþegum? Ég veit að það vill gjarnan fá að segja sína skoðun á þessum málum og ef þingmaðurinn er samþykkur því, þá vildi ég gjarnan að það kæmi fram hér á eftir.