24.03.1980
Efri deild: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel að í meginatriðum hafi þetta frv. fengið allgóðar undirtektir hér í hv. deild. Hér skilja menn greinilega vel fjárhags­vanda sveitarfélaganna, og ég fylgi algjörlega þeim sjón­armiðum sem fram komu hjá hv. 4. landsk. þm. í þeim efnum. Það er að stuðla að sem mestu sjálfstæði sveitar­félaganna, þannig að sveitarstjórnirnar geti tekist á við hin staðbundnu verkefni. Þær eru kjörnar lýðræðislegum kosningum, og það er eðlilegast, að þær ákveði með hvaða hætti staðið er að verkefnum á viðkomandi svæði. Engin sveitarstjórn í landinu, ég þekki hana a.m.k. ekki, gerir sér leik að því að hækka að óþörfu skatta á íbúun­um. Geri sveitarstjórn það verður hún einfaldlega felld i næstu kosningum þar á eftir. Mér finnst það því lýsa vantrausti á sveitarstjórnunum í landinu að þora ekki að gefa þeim þann slaka sem möguleiki er á samkv. frv. sem hér liggur fyrir. Mér finnst það skjóta dálítið skökku við það sem áður hefur komið fram, m.a. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og frá hv. þm. og talsmönnum Sjálfstfl. í gegnum tíðina. Rök þeirra núna eru hins vegar þau, að þetta þyngi of mikið heildarskattabyrðina og þess vegna megi ekki samþykkja frv. af þessu tagi. Það eru út af fyrir sig rök sem þeir hafa máli sínu til styrktar. En ég vil aðeins minna á í þessu sambandi, að þegar útsvarið 11% var samþ. á sínum tíma, þá var það í raun allmiklu hærra en það er núna vegna verðbólgunnar — allmiklu hærra. Það var talsvert hærra en það er, jafnvel þó að menn nýttu þessi 12%. Ég fylgi sem sagt þeim sjónarmiðum sem fram komu hjá hv. 4. landsk. þm. varðandi mikilvægi og skyldur sveitarfélaganna.

Svo kemur hér hv. 3. landsk. þm. og talar um að hér sé um að ræða mjög kaldar kveðjur til íslenskrar alþýðu af hálfu núv. ríkisstj. með flutningi þessa frv. Þá er væntan­lega um að ræða kaldar kveðjur ekki aðeins af hálfu ríkisstj., heldur einnig af hálfu þeirra þm. allra sem að málinu stóðu í hv. Nd. Alþingis í dag og undanfarna sólarhringa.

Ég geri ráð fyrir því, að sú hækkun, sem hér er um að ræða, þýði um það bil 0.6% hækkun á útsvari í raun, ef þetta yrði nýtt alls staðar og persónuafsláttur, sem kemur upp í útsvar, er skoðaður þarna á móti. Ég vil minna á það, að ekki eru mjög margir mánuðir síðan einn stjórn­málaflokkur hér í landinu samdi frv. til laga um efna­hagsmál. Hann taldi því miður ekki ástæðu til að flytja það á hv. Alþ. á þeim tíma, vegna þess að hann var þá að vísu aðili að ríkisstj. Hann birti frv. í málgagni sínu. Þar var ekki gert ráð fyrir 0.6% að því er varðaði kjör ís­lenskrar alþýðu, svo ég vitni í hv. 3. landsk. þm. Þar var gert ráð fyrir að taka af íslenskri alþýðu allt sem væri umfram 5% í verðhækkanir á þriggja mánaða fresti. Það voru kaldar kveðjur til íslenskrar alþýðu.