20.12.1979
Neðri deild: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er voru ný lög um tekjuskatt og eignarskatt samþ. vorið 1978. Lög þessi eru nr. 40 frá 1978 og gengu í gildi 1. jan. 1979. Þau koma til framkvæmda við álagningu á árinu 1980 á tekjur ársins 1979 og eignir í árslok 1979.

Með þessum lögum voru eldri tekjuskattslög afnumin. Í IV. kafla gildandi laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 8 frá 1972, er vísað um fjölmörg atriði til ákvæða í þágildandi lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 68 frá 1971, og skal það ekki tíundað nánar hér.

Tilgangur þess frv., sem nú er til umr., er að aðlaga ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga hinum nýju tekjuskattslögum, bæði að því er varðar hverjir séu útsvarsskyldir aðilar og hvaða tekjur mynda stofn til útsvars. Þá voru gerðar nokkrar efnis- og orðalagsbreytingar á gildandi ákvæðum um aðstöðugjald. Efnisbreytingar í frv. eru m.a. gerðar til að tryggja það, að aðstöðugjald verði lagt á sömu aðila og á sama stofn og verið hefur, þrátt fyrir þær breytingar sem leiða kann af gildistöku laga nr. 40 frá 1978. Sú breyting verður þó, að endurgjald samkv. 1. mgr. 1 tölul. 31. gr. þeirra laga verður nýr þáttur í aðstöðugjaldsstofni. Jafnframt eru í frv. þessu gerðar breytingar á nokkrum framkvæmdareglum gildandi laga. M.a. verður sú breyting, að hvort hjóna um sig verður sjálfstæður útsvarsskyldur aðili. Sama regla gildir um sambýlisfólk, sem fullnægir sömu skilyrðum og fullnægja þarf til að sambýlisfólk teljist sjálfstæðir tekjuskattsaðilar sem hjón. Börn innan 16 ára verða sjálfstæðir útsvarsskyldir aðilar af launatekjum sínum á sama hátt og til tekjuskatts.

Sú breyting verður frá fyrri lögum, að framtalsskyldar til útsvars verða allar tekjur samkv. II. kafla laga nr. 40 frá 1978. Eru þar með taldar ýmsar tekjur sem ekki teljast til útsvarsskyldra tekna samkv. gildandi lögum, en þær tekjur, sem þannig er ástatt um, eru leyfðar til frádráttar við ákvörðun útsvarsstofns, þannig að útsvarsskyldan þyngist ekki við þessa breytingu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. og leyfi mér því að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til félmn. þessarar hv. d. og 2. umr. Ég legg mikla áherslu á að þetta frv. verði að lögum nú fyrir þinghlé, því að ella geta orðið erfiðleikar í sambandi við álagningu útsvars.