25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er rætt um skilning á 52. gr. þingskapa. Ég verð að lýsa undrun minni á því sem kemur fram í yfirlýsingu hæstv. forsrh. um skilning á þeirri grein.

Það er ljóst, að þar sem sérstaklega stóð á eftir síðustu kosningar og síðustu þingsetningu var þessu máli frestað, enda eðlilegt að stefnuræða kæmi fram þegar ný ríkisstj. hefði verið mynduð að loknum kosningum. Það er greinilega andi þingskapalaganna, að ný ríkisstj. geri þinginu grein fyrir sjálfri sér og stefnu sinni. Það er ljóst, að það er þingið sem sjálft hefur ákveðið með úrskurði sínum að þessu máli sé frestað þegar afbrigða var leitað. Það er þess vegna, að ég held, hverjum einasta manni ljóst, að ef þeirri ákvörðun á að breyta ber hæstv. forseta að bera slíkt undir þingið aftur. Ég lýsi því þess vegna yfir, að ég tel að full ástæða sé til þess, nema hæstv. forsrh. og þar með sú ríkisstj., sem nú hefur tekið við völdum á Íslandi, vilji láta á sig sannast að hún hafi ekki þá stefnu í fórum sínum sem réttlæti slíkar umr.