25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er næsta furðulegt að hv. þm., bæði hv. þm. Vilmundur Gylfason og Friðrik Sophusson, skuli tala eins og þeir hafi alls ekki lesið þingsköpin. Þeir tala báðir á þá lund, að þingsköpin geri ráð fyrir að forsrh. nýrrar ríkisstj. skuli jafnan flytja stefnuræðu. Þetta er alger misskiln­ingur. Það stendur ekki í þingsköpum og er alls ekki til þess ætlast.

Ákvæði í þingsköpum er um það, að í byrjun hvers þings skuli forsrh. — ekki nýrrar ríkisstj., heldur hverrar ríkisstj. sem er, þó hún hafi setið í nokkur ár — flytja stefnuræðu og það skuli gerast innan tveggja vikna frá því að þing var sett. Þegar þetta ákvæði var sett inn í þingsköpin fyrir nokkrum árum kom það í staðinn fyrir að útvarpa skyldi fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. Þetta vita allir hv. þm. sem eitthvað hafa fylgst með.

Hins vegar koma svo eldhúsumr. á síðari hluta þings, eins og hæstv. forseti gat um, þar sem almennt er rætt um stjórnmálaviðhorfið.

Það er alger misskilningur á þingsköpum að þau geri ráð fyrir að hvenær sem stjórnarskipti verða skuli forsrh. nýrrar stjórnar flytja stefnuræðu sem útvarpað sé samkv. 52. gr. Þetta liggur alveg 1 jóst fyrir og er furðulegt að þm. skuli vaða svona í villu og reyk um augljós ákvæði þing­skapa og hvernig þau eru til orðin.

Hitt vil ég svo segja að lokum, að það er næsta furðu­legt líka að hlusta á að ríkisstj. treysti sér ekki til að lýsa stefnu sinni eða ræða hana í þinginu. Þessir þm. vita ósköp vel, að á fyrsta fundi í Sþ. eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, 11. febr. s.l., flutti ég ræðu þar sem ég skýrði og las upp frá orði til orðs stefnu ríkisstj., stjórnarsáttmál­ann, og að því loknu urðu stjórnmálaumr. í þinginu um málið.