25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst orð hafa fallið hér á þann veg, að ég vil ekki láta hjá líða að lýsa skoðun minni á þessu máli.

Hæstv. forsrh. bregður þeim, sem ekki eru sammála honum, um að skilja ekki það sem stendur í þingsköpum. Ég mótmæli skilningi hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. hefur áður vikið að þessu máli og ég hef þá líka mótmælt hinum vafasömu lögskýringum sem hann bregður fyrir sig í þessu máli.

Ákvæði, sem hefur verið vitnað til og er í 52. gr. þingskapalaga varðandi stefnuræðu forsrh., þýða að mínu viti fyrst og fremst, að svo er ákveðið að á hverju þingi skuli flutt stefnuræða forsrh., en í ákvæðinu segir að það skuli gert í byrjun þings. Að sjálfsögðu er eðlilegt að gera það í byrjun þings. En ekki segir um það, að ef ekki eru eðlilegar aðstæður eigi ræðan að falla niður, sú sem þingsköp gera ráð fyrir að sé ftutt á hverju þingi. Það eru ekki eðlilegar ástæður og ekki eðlilegt að flutt sé stefnuræða forsrh., þó í byrjun þings sé, ef það standa yfir stjórnarmyndunartilraunir, eins og var í des. s.l. Það var ekki eðlilegt að ræðan væri flutt þá. En það breytir ekki því, sem er kjarni þessa ákvæðis þingskapa, að ræðuna skuli flytja á hverju þingi.

Ég lít svo á að þessi skilningur hafi verið viðurkenndur af þinginu sjálfu þegar ástæða þykir til að veita afbrigði frá því að flytja ræðuna í upphafi þings. Þá þótti nauð­synlegt að fá samþykki Alþ. til að fresta ræðunni — ­einungis að fresta. En ef það hefur þurft leyfi Alþ. til að fresta ræðunni getum við þá ekki öll verið sammála um að þeim mun nauðsynlegra sé og óhjákvæmilegt að fá samþykki Alþ. til að fella ræðuna algerlega niður? Með tilliti til þessa tel ég að það verði ekki skilist við þetta mál með réttum hætti og í samræmi við þingsköp nema það sé borið undir þingið hvort veita á afbrigði og fella ræðuna niður.

Ég mótmæli algerlega þeim ummælum hæstv. forsrh., að þeir, sem eru ekki sammála honum í þessu efni, hafi ekki lesið þingsköp eða ekki skilið þau ef þeir hafi lesið þau.