25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það kom mér mjög á óvart, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að engin ósk hefði borist frá honum um að stefnuræða forsrh. félli niður að þessu sinni. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að mér finnst það ekki háttvísi, ef það er rétt, af hæstv. forseta að gefa úrskurð á þennan hátt í Sþ. fram hjá vilja forsrh. Hann tók einmitt skýrt fram áðan að hann væri sérstaklega fús til að ræða stefnu ríkisstj. hvar og hvenær sem er og vildi gjarnan að skýrsla um störf og stefnu ríkisstj. yrði gefin á þessu þingi: Ég verð því að leita eftir því við hæstv. forseta, til þess að upplýsa málið, hvort hann hafi einhver orðaskipti átt um þessi mál við hæstv. forsrh. áður en hann gaf úrskurð sinn. Mér skilst að þó svo hafi verið hafi engin ósk komið fram í þeim orða­skiptum um að stefnuræðan félli ekki niður. Mér þykir þetta í hæsta máta undarlegt. Það hljóta að vera efnis­ákvæði þeirrar þingskapagreinar, sem hér er fjallað um, að ríkisstj. á hverjum tíma gefist tækifæri til að láta ítarlegar umræður verða um stefnu sína til að gefa stjórnarandstöðunni tækifæri til að gera athugasemdir og til að gefa þjóðinni kost á að fylgjast með slíkum umræð­um. Þetta gerir hvort tveggja í senn: Þingstörfin verða að því leyti auðveldari, að menn gera sér betur grein fyrir því að hverju stefnir, og upplýsir þjóðina um, hvers sé að vænta í landsmálum. Þess vegna kemur mér það á óvart ef hæstv. forseti hefur gefið þennan úrskurð á bak við hæstv. forsrh.