25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það liggur fyrir að í upphafi þessa þings var ákveðið með atkvgr. á Sþ. að flutningi á stefnuræðu forsrh. skyldi frestað. Þessi ákvörðun var þingsins í heild, en ekki samkv. úrskurði forseta. Af því leiðir að þessari ákvörðun verður ekki breytt með öðrum hætti en með atkvgr. í Sþ. Úrskurður forseta raskar ekki atkvgr. og ákvörðun Sþ. Þess vegna mótmæli ég að það sé samkvæmt þingsköpum að láta fara fram atkvgr. undir þessum kringumstæðum um hvort skilningur forseta sé réttur eða rangur. Ég ítreka, að ég get fellt mig við að stefnuræða forsrh. sé niður felld, hvort sem það er samkvæmt óskum hæstv. forsrh., for­seta Sþ. eða af öðrum dularfullum ástæðum, og mundi greiða slíkri till. atkvæði. Hins vegar mótmæli ég skiln­ingi hæstv. forseta og hlýt þess vegna að greiða atkvæði á móti þeim skilningi ef sú aðferð verður viðhöfð, sem ég tel ekki í samræmi við þingsköp, að láta atkvgr. fara fram með þeim hætti.