25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér finnst þessar umræður ærið sérkennilegar, allt þetta brambolt í stjórnarandstöðunni út af þessu máli sem er ekki stórt í sniðum. Hér eru menn að hengja sig í formsatriði og eyða tíma okkar þm. út af málum sem bersýnilega eru þess eðlis, að þau eiga ekki að þurfa að skipta mönnum í neinar fylkingar.

Við vitum allir að þetta þinghald hefur verið með mjög óvenjulegum hætti, þessi vetur mjög óvenjulegur á allan máta. Það þarf því ekkert að koma okkur á óvart, að eftir að mál hafa svo skipast sem þau hafa gert þurfi umræður hér í þinginu að vera með nokkuð afbrigðilegum hætti. Við vitum að ef stefnuskrárræða yrði nú flutt og umræður um hana færu fram mundi það gerast, sem væri harla óvenjulegt í þingsögunni, að stærsti stjórnarandstöðu­flokkurinn, raunar stærsti flokkurinn í þinginu, fengi ekki nema 10 mínútna ræðutíma. Það blasir við. Hann fengi aðeins að tala í síðari umferðinni og fengi þar 10 mínútur. (Gripið fram í.) Ég nefni þetta bara sem dæmi um hversu óvenjulegt ástand liggur nú fyrir. — Á sama hátt blasir við, að ef eldhúsdagsumræður fara fram með venjulegum hætti er alls óvíst að hæstv. forsrh. ætti að­gang að þeim umr. Hvort tveggja þetta sýnir að hér er um mjög afbrigðilegar aðstæður að ræða. Málið er bersýni­lega þess eðlis, að við hljótum að semja með eðlilegu og venjulegu samkomulagi milli þingflokka um hvernig umræður fari fram þannig að þeim sé útvarpað. Þess vegna segi ég, að ég tel, að úrskurður forseta þingsins sé í fyllsta máta mjög sanngjarn og eðlilegur, og treyst því, að þingheimur staðfesti hann í atkvgr.