25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

128. mál, stórvirkjun

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hinn 5. maí 1978 var samþykkt þál. um íslenskukennslu í Ríkisútvarpinu, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að kennsla og fræðsla í Ríkisútvarpinu í öllum greinum móðurmálsins verði efld.“

Forsaga þessa máls var sú, að hv. 4. þm. Austurl., Sverrir Hermannsson, hafði ásamt fleiri þm. flutt þáltill. um íslenskukennslu í fjölmiðlum. Þegar hún var borin fram á 99. löggjafarþinginu fylgdi henni svofelld grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Engum dylst, að íslensk tunga á nú í vök að verjast. Á þetta sérstaklega við um talað mál, framburð og framsögn. Einnig fer orðaforði þorra fólks þverrandi og erlend áhrif hvers konar vaxandi. Engum orðum þarf að fara um lífsnauðsyn þess að stemma stigu við slíkri óheillaþróun og snúa við inn á þá braut íslenskrar mál­hefðar, sem ein verður farin, ef íslensk menning á að lifa og dafna.

Ríkisútvarpið hefur lagt nokkuð af mörkum til fræðslu og kennslu í íslenskum fræðum, tungu og bókmenntum. Er það góðra gjalda vert, en það er skoðun flutnings­manna, að betur megi ef duga skal, og á það einnig við um meðferð tungunnar yfirleitt í munni þeirra sem í útvarp tala.

Áhrifaríkasti fjölmiðillinn, sjónvarpið, hefur hins veg­ar í engu sinnt fræðslu í meðferð íslenskrar tungu. Virðist jafnvel ekki lögð sérstök rækt við orðfæri eða framburð þeirra sem þar starfa. Á þessu þarf að verða gjörbreyt­ing. Langsterkasta áróðurstækið, sem flust hefur inn á gafl á hverju heimili landsins, þarf að taka tröllataki til eflingar íslenskri menningu, sérstaklega til viðreisnar ís­lenskri tungu, e.n það er brýnasta verkefnið nú.“

Síðan segir í þessari grg.:

„Lagt er til að kosið verði hlutfallskosningu á Alþingi þrettán manna ráð, sem hafi með höndum stjórn þessara mála í fjölmiðlum. Verkefnið er viðamikið, og þykir flm. því ástæða til, að allmargir eigi hlut að máli, enda hefur þjóðin til þess arna á að skipa mörgum hæfum mönnum.“

Svo mörg voru þau orð.

Alþingi varð á sínum tíma ekki við því að þrettán manna ráð yrði kosið til að hafa með höndum stjórn þessara mála, og má segja með nokkrum rökum að því­líkt ráð hefði e.t.v. orðið fullþungt í vöfum. En á hinu held ég að varla sé vafi, að þær ríkisstjórnir, sem setið hafa síðan þál. var samþykkt, hafa verið sofandi á verð­inum að þessu leyti.

Í Ríkisútvarpinu háttar svo til, að þar er tvisvar í viku 5 mínútna þáttur sem heitir „Daglegt mál,“ á mánudagskvöldum og fimmtudagskvöldum, og við könnumst við að á laugardögum er 20 mínútna þáttur sem orðabókarmenn sjá um og er endurfluttur í vik­unni á eftir, vinsæll þáttur og hefur vakið margan manninn til umhugsunar um þá þýðingu sem það hefur fyrir okkur að efla íslenska tungu og geyma ýmsar málhefðir, ýmis sérstök orðtök sem eru svæðisbundin, eru bundin við ákveðnar kynslóðir og er þess vegna hætt við að gleymist.

Þegar rætt er um íslenskt mál og hvar við séum veikust fyrir held ég að menn geti verið sammála um, að á síðustu misserum og árum hefur þess orðið æ meira vart að menn hafa ekki vandað framburð sinn sem skyldi. Áherslur eru ekki jafnréttar og áður og á skýr­an framburð skortir nokkuð. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að menn fara gjarnan rangt með orðtök og ýmsar beygingar sömuleiðis, og skal ég ekki halda langa hugleiðingu um það efni nú, enda ekki til þess ætlast.

Í sjónvarpi hefur verið tekinn upp þáttur sem heitir „Myndhverf orðtök“ eða eitthvað þvílíkt, ég kann ekki nafnið á honum, en hann fjallar um myndhverf orðtök, og Helgi J. Halldórsson hefur séð um hann. Hér er um vandasamt brautryðjandastarf að ræða, og ég skal ekki gagnrýna hvernig hefur tekist. Ég veit, að þarna hefur verið haldið sparlega á, og geri ráð fyrir, að hugur hans hafi staðið til þess, að meira yrði kostað til þess að þetta mætti takast sem best. En ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því, að átak eins og þarf að gera í þessum efnum í ríkisfjölmiðlunum getur ekki gerst af sjálfu sér. Það þarf að kosta fjármunum til ef eitthvert gagn að slíku fræðslustarfi á að verða.

Í a.m.k. sumum ritstjórnarskrifstofum dagblaðanna eru sérstakir menn sem eiga að gæta þess, að málfar sé sem best í dagblöðunum, og vill nú velta á ýmsu hvernig til tekst. Auðvitað er mannlegt að skjátlast, og eðli fjölmiðla er nú einu sinni að vera ekki óbrigðulir í þessum efnum. En ég held sem sagt að óhjákvæmilegt sé að vera meira vakandi framvegis en hingað til, og af þeim sökum hef ég leyft mér að flytja þá fsp. til hæstv. menntmrh., hvað líði framkvæmd þál. um íslensku­kennslu í Ríkisútvarpinu frá 5. maí 1978.