25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

128. mál, stórvirkjun

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Svo mætti skilja orð hæstv. menntmrh. áðan að í útvarpsráði væri ekki ýkja­mikið fjallað um íslenskt mál og málfræðslu. Þennan misskilning vil ég leiðrétta. Það liður varla sá útvarps­ráðsfundur — mér er það kunnugt þar sem ég á sæti þar — að ekki sé fjallað um mál og málnotkun í útvarpi. Hitt er rétt, að ekki hafa orðið miklar breytingar á þáttum um íslenskt mál í útvarpi, en það hefur komið til breyting í sjónvarpi sem þegar hefur verið getið hér og er góðra gjalda verð að mínu mati.

Hins vegar ættu menn að hafa það í huga, að útvarp og sjónvarp og aðrir ljósvakamiðlar verða aldrei annað en málspegill. Það mál, sem talað er í þessum fjölmiðlum, er í raun hvorki betra né verra en það mál sem þjóðin talar almennt. Það koma tugir manna fram í útvarpi daglega og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra, sem þar koma fram, leyfi ég mér að segja, talar gott mál og rétt. Auðvitað er það ævinlega svo, að þar heyrast ambögur, svo sem prentvillur sjást í blöðum, en undan því er áreiðanlega erfitt að víkjast.

Hér var á það minnst, að nota ætti útvarp og sjónvarp sem kennslutæki fyrir íslenskt mál í skólum. Ég vil í því sambandi benda á að erlendis hefur þróunin verið sú, að þar er ekki lengur sjónvarp í þeim venjulega skilningi notað sem kennslutæki, — sjónvarp getur aldrei verið kennari, það skyldu menn hafa í huga, heldur kennslu­tæki. Nú hafa myndsnældur og hljóðsnældur með kennsluefni rutt sér æ meira til rúms, þannig að eiginlegt skólasjónvarp, sem menn hafa verið að tala um í mörg ár, og skólaútvarp er ekki lengur talið heppilegasti mögu­leikinn til að koma þessu áleiðis.

En það skyldu menn líka muna, að afar auðvelt er að gera kröfur til stofnunar eins og Ríkisútvarpsins um að auka efni af þessu eða hinu tagi. Víst væri áhugavert að auka nokkuð fræðslu um íslenskt mál, íslenska tungu og bókmenntir, bæði í útvarpi og sjónvarpi. En meðan þess­ari stofnun er haldið í fjárhagslegri spennitreyju lágra afnotagjalda þýðir ekki samtímis að gera sífelldar kröfur um aukið dagskrárefni og betra. Það verður að fara saman, að stofnunin hafi nokkurt fjárhagslegt svigrúm ef hún á að geta framleitt og skilað almennilegri dagskrá til notenda sinna sem henni er ætlað að þjóna.

Ég held þó fyrst og fremst, ef við ætlum okkur að bæta, varðveita og viðhalda íslenskri tungu og góðu máli rétt töluðu verðum við að einbeita okkur að skólakerfinu og það verður að byrja snemma. Ég hygg að þar sé víða pottur brotinn og ástandið kannske öllu athugaverðara þar en í fjölmiðlum.