25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

128. mál, stórvirkjun

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Eins og fram kom í ræðu hans hefur hann í hyggju að taka þessi mál fastari tökum en gert hefur verið. M.a. skildi ég hann svo, að hann mundi greiða fyrir því, að málefnum tung­unnar yrði meiri gaumur gefinn þegar í stað en maður hefði getað haldið, og má þá búast við því m.a. við þá fjárlágagerð, sem nú fer í hönd, að þar verði gert ráð fyrir að á síðari hluta þessa árs verði möguleikar á að fastráða mann eða menn til Ríkisútvarpsins í því skyni sem hér er um talað. Og einkum með skírskotun hans til málefna­samningsins held ég að það ætti ekki að vera neitt þar til fyrirstöðu, því að það er kjarni málsins að engum árangri verður náð í þessum efnum nema einhverju verði til kostað og einhver vinni þar að, og við vitum að hug­sjónamennska og sjálfboðaliðastarf er löngu liðin tíð í sambandi við Ríkisútvarpið.

Ég get undir það tekið hjá hv. 5. þm. Vesturl. að ríkis­fjölmiðlar séu málspegill þjóðarinnar. En ég vil ekki undir það taka, að þeir séu ekki annað og meira en málspegill þjóðarinnar, vegna þess að ég tel að ríkis­fjölmiðlar verði að hafa metnað í þessum efnum og verði að reyna að leggja töluvert á sig til að standa þarna framar, vera fyrir ofan meðallagið. Því miður hefur það verið svo um einstaka dagskrárgerðarmenn, þó að það sé algjör undantekning til allrar hamingju, að eftir því sem ég man best og veit best hefur íslenskri tungu þar verið misboðið.

En ég lýsi ánægju minni yfir því, að hæstv. menntmrh. hefur metnað til að taka þetta mál föstum tökum. Ég vænti þess, að hann mæti þeim skilningi í ríkisstj. að hann hafi tök á að efla starfsemi Ríkisúrvarpsins að þessu leyti, eins og samþykkt Alþ. segir til um, og að á það verði fallist, að nokkurt fé verði veitt í þessu skyni á þeim fjárlögum sem nú bíða afgreiðslu.