25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

128. mál, stórvirkjun

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vesturl., sem er víst horfinn af fundi, að finna hefði mátt í ræðu minni ásakanir á hendur útvarpsráði í sam­bandi við íslenskt mál og að útvarpsráð hefði ekki áhuga á að íslensku máli væri sem best sinnt í útvarpi og að ekki væri töluð sem vönduðust íslenska í ríkisfjölmiðlunum. Að sjálfsögðu veit ég, og það kom einnig fram mjög rækilega í bréfi útvarpsstjóra sem ég kynnti áðan, að útvarpsráð og yfirstjórn útvarpsins yfirleitt leggja sig fram um, að svo miklu leyti sem í þeirra valdi stendur, að vanda flutning íslensks máls og gera miklar kröfur til þeirra fastráðnu manna sem flytja talað mál í Ríkisút­varpinu. Þetta er mér allt saman ljóst, og ég vona að það verði ekki misskilið, að ég hafi haldið öðru fram um yfirstjórn útvarpsins, útvarpsráð eða dagskrárstjórn.

Það er auðvitað rétt, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að talmálið í útvarpinu er að verulegu leyti spegill af málfari þjóðarinnar. Svo hlýtur auðvitað að verða, eins margir og koma þar fram og eins og dagskrárgerð fer fram, ekki síst fréttaþættir ýmsir. Hins vegar held ég að sé alveg nauðsynlegt að útvarpið hafi mikinn metnað á þessu sviði, sem ég hygg að það hafi, og geri allt sem það getur til að vera ekki aðeins spegilmynd af málfari þjóðarinn­ar, heldur líka fyrirmynd að góðu málfari.

Ég get ekki heldur fallist á það, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., að skólaútvarp sé ekki heppilegt. Ég tel þvert á móti að við þær aðstæður, sem við búum við í okkar strjálbýla landi, komi einmitt mjög til greina að nota útvarp og sjónvarp í því skyni að kenna og fræða, ekki aðeins um íslenskt mál, heldur margar aðrar grein­ar. Því er ekki að leyna, að fyrr á árum, á fyrstu árum útvarpsins, hygg ég að útvarpið hafi sinnt þessu meira. Ég man eftir því frá bernskuárum mínum, að það voru mjög myndarlegir þættir í útvarpinu, kennsluþættir í ýmsum tungumálum og kannske í fleiri greinum. Mér eru kunn nokkur dæmi um mjög merkilegan árangur af þessu skólaútvarpi, þó ég ætli ekki að rekja þau hér. Mér er kunnugt um t.d. einn skólabróður minn sem lærði ýmis mál sveitadrengur á Norðurlandi. Hann lærði ekki aðeins undirstöðu málanna í útvarpinu, heldur var hann, fær, þegar hann kom í menntaskóla, orðinn svo fær í sumum tungumálum að hann bar þar verulega af. Fræðslu sína hafði hann fyrst og fremst fengið í útvarp­inu. Þannig þekki ég það af eigin reynslu og af reynslu samferðamanna minna, að skólaútvarp getur komið að gagni. Það kom að gangi í þessu tilfelli fyrir nær 40 árum, og ég er sannfærður um að það geti komið að sama gagni enn, því að aðstæður í landinu hafa þrátt fyrir allt ekki breyst þau ósköp að þetta eigi ekki við enn í dag.

Varðandi aftur hitt, sem hv. fyrirspyrjandi var að hug­leiða um ræðu mína og þar sem hann m.a. virtist gera þá kröfu til mín, að ég færi fram á að það yrði samþ. sérstök fjárveiting til þessara hluta í sambandi við fjárlög, þá held ég að ég verði að segja honum það í fullri einlægni og hreinskilnislega, að til þess eru engin tök af minni hálfu. Ég held að hv. fyrirspyrjandi skilji að það getur ekki' farið saman, að ég vilji undirbúa þetta mál vel fjárhagslega og faglega og rjúka svo til með einhverjar sýndartillögur um fjárveitingar í þessu máli. Ég held að það hljóti hver maður að sjá, sem er þá ekki þeim mun æfðari í alls konar stríðslyndi og karpi, að þetta getur ekki farið saman. En það get ég fullvissað hv. fyrirspyrj­anda um, að ég hef áhuga á þessu máli og mun, eftir því sem mér endist ráðherraævi til, reyna að koma því skyn­samlega í höfn. En ég vil fá að undirbúa þetta vel og skynsamlega, bæði faglega og fjárhagslega, eins og ég hef sagt, en ekki með neinum ærslum núna u.þ.b. sem afgreiðslu fjárlaganna er að ljúka.