25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. mjög greinargóð svör, þar sem nákvæmlega var sundurliðað svar við því sem um var spurt, og er síst yfir því að kvarta. Hins vegar hygg ég að þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gefur, séu til þess fallnar að fleiri spurninga sé spurt.

Fyrsta spurningin: Af hverju nýtur Búnaðarþing eitt þinga, að ég hygg, af þessu tagi þeirra einstöku forrétt­inda að þingfulltrúar þar eru launaðir af almannafé og ekki aðeins launaðir, heldur njóta þeir allra sömu fríð­inda og hlunninda sem hv. alþm. njóta? Það má út af fyrir sig deila um hvernig slíkum hlutum skal fyrir komið og það hefur verið gert hér, en slíkt er auðvitað ekki til umr. hér. En það hygg ég að sé aðalatriði þessa máls, hvernig slíkt er til komið og hvers vegna nýtur Búnaðarþing eitt slíkra þinga forréttinda af þessu tagi.

Ég spyr: Á fjögurra ára fresti er haldið þing fjölmenn­ustu samtaka þessa lands, sem er þing Alþýðusambands Íslands, af hverju hafa ekki fulltrúar á Alþýðusam­bandsþingi sambærileg kjör? Af hverju er þeim ekki haldið uppi á almannafé og ekki aðeins að því er varðar laun, heldur ferðakostnað og hlunnindi önnur? Félag ísl. iðnrekenda hefur nýhaldið ársþing sitt. Iðnrekendur eru framleiðendur alveg eins og bændur. Af hverju njóta þeir ekki sömu fríðinda og forréttinda? Við getum haldið áfram: Neytendasamtök, skákhreyfing, slík samtök halda sín þing árlega, á tveggja ára fresti eða þriggja ára fresti. Það er auðvitað annar samjöfnuður, en hvers vegna hefur markalínan endilega verið dregin þarna og utan um þennan hring?

Ég hef upplýsingar um það úr ríkisreikningi frá árinu 1978, A-hluta, að samtals námu greiðslur þá til Búnaðar­félags Íslands samkv. fjárlögum 181 millj. kr. og hálfri betur. Hins vegar var útgreitt 218 millj. eða nær 40 mill j. betur. Þetta er mikil hækkun. Það virðist vera að þarna sé frjálslega í almannasjóði gengið. Það virðist vera að þarna sé um að ræða óvenjulega, svo að ekki sé meira sagt: óvenjulega forréttindastétt.

Auðvitað gætum við haft langt mál um greiðslur til landbúnaðar yfir höfuð að tala, greiðslur til þessara sér­stöku samtaka. Við skulum láta það liggja á milli hluta að sinni. Ég held þó að lykillinn að skýringu á þessu sé fyrst og fremst einn: Einfaldlega röng kjördæmaskipan, einfaldlega sú staðreynd að misvægið er orðið svo mikið dreifbýlinu í hag að þeir, sem þaðan koma, eru farnir að koma sér fyrir í skjóli almannasjóða með hinum ótrúleg­asta hætti. Verkalýðssamtökin sækja á hinn bóginn sitt fólk, sinn stuðning, sína félagslegu uppbyggingu í þétt­býlið þar sem vægi atkv. er allt að fimm sinnum minna, og enn þá hafa þau ekki komið sér svona fyrir hjá almanna­sjóðum. Ég er sannfærður um að lykillinn að þessu mis­ræmi, skulum við segja, áður en við segjum misrétti, liggur þarna. Hann liggur í því, að misvægi atkvæða er orðið svo mikið og menn eru farnir að leyfa sér svo margt í skjóli þess misvægis og væntanlega í trausti þess að ekki verði breytt.

Herra forseti. Ég vil segja að lokum, að ég er þeirrar skoðunar að ósæmilegt sé að ein tiltekin stétt, fulltrúar tiltekinnar atvinnugreinar komi saman á tilteknum fresti og haldi sitt þing á kostnað almannasjóða þegar það er ekki almenn regla í landinu. Nú má enginn skilja orð mín svo, að verið sé að amast við því að bændur eða yfirleitt nokkrir aðrir haldi þing, slíkt er alveg sjálfsagt mál, og þeir ráði ráðum sínum, meti sín mál og hyggi að fortíð og til framtíðar. Þetta gerum við öll í einhverju formi. En það er óeðlilegt og það er ósæmilegt að þessi hópur einn njóti sérstakra forréttinda, og ég fullyrði að þau forrétt­indi eru ekki smá. Mig langar að því leyti að segja eitt flokkspólitískt orð, að þetta er framsóknarmennska –­- með litlum staf því að framsóknarmennirnir eru í fleiri flokkum en flokknum með stóra stafnum. Þetta er ná­kvæmlega það sem hér er farið að brydda á, ekki aðeins efnahagslegt misvægi, heldur óþolandi ranglæti, því að þetta blasir við nánast í hverju horni samfélagsins. Ég er sannfærður um að fulltrúar á Alþýðusambandsþingi, all­ur þorrinn, ég hygg að það sé á fimmta hundrað manns, hafa ekki vitað hvernig í pottinn er búið. Hvernig á þetta fólk að þola það að koma á sitt þing einu sinni á fjögurra ára fresti og greiða sjálft fyrir þegar önnur samtök með svipaðan tilgang, þ.e. þann að byggja upp góð lífskjör fyrir sitt fólk, koma og njóta hárra styrkja úr almanna­sjóðum? Hvernig eiga iðnrekendur að þola að þeir njóti engra slíkra styrkja þegar tiltekinn hópur nýtur styrkja?

Ég er sannfærður um að fjöldi alþm. hefur ekki áttað sig á því til skamms tíma að svona væri í pottinn búið og t.d. gilti það um mig sjálfan, ég get þess vegna sagt þetta með góðri samvisku, þangað til maður mjög kunnugur þessu benti mér á það. Ég er að flytja þau skilaboð til hv. alþm. Hér er um óþolandi misræmi að ræða, óþolandi misrétti. Þetta skulum við afnema, þessu skulum við breyta og gera annað af tvennu: láta eitt ganga yfir öll hagsmunasamtök af því tagi sem við erum að tala um, eða sleppa öllum styrkjum. Ég mæli með síðari kostin­um.