25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú reyndar ekki ætlast til mikils af hv. Alþfl.-mönnum um þekkingu á landbúnaðarmálum. Hitt hefði ég getað látið mér detta í hug, og það hygg ég sé sammerkt með hv. alþm., að þeir vissu helstu félagsmálalínurnar í kringum atvinnustétt­irnar í þessu landi. En þetta virðast þó þessir virðulegu menn ekki einu sinni vita. Og þegar þessi vitneskja er ekki fyrir hendi sætir það að sjálfsögðu ekki neinni furðu þó að málflutningur þeirra sé brenglaður og það m.a.s. meira en lítið brenglaður.

En svo að ég taki þá ofurlítið í skóla, svo þeir þurfi ekki alltaf að vera að rugla saman sömu hlutunum og éta þá hvorir upp eftir öðrum, eru þeir alls ekki að bera saman hliðstæð félagasamtök. Ef þessir hv. ræðumenn vilja gera það eru hliðstæð félagasamtök Stéttarsamband bænda og Alþýðusamband Íslands. Það er sammerkt með báð­um þessum félagasamtökum að þau greiða fyrir fundi sína og þann kostnað sem af þeim leiðir, og fyrir þann kostnað eru félagsmenn þessara samtaka skattlagðir. Þetta vita börn í barnaskólum, a.m.k. sem hafa gengið i þá á annað borð, þannig að það ætti ekki að þurfa að vera mikið að kenna þessum hv. þm. — En ef svo er tekin önnur hliðstæða, þá er t.d. um að ræða Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands. Greiðslur til þessara tveggja félagsstofnana atvinnuveganna eru með alveg nákvæmlega sama hætti, á þeim er enginn munur. Ég ætla ekkert að bera það saman hvor upphæðin er hærri eða lægri, það skiptir ekki neinu máli. Þetta eru sam­stofna félagaeiningar.

En hv. fyrirspyrjandi var að tala um að alþm. hefðu nákvæmlega sömu kjör og búnaðarþingsfulltrúar. Ég kannast ekki við það. Ég er trúlega eini atvm. sem sit líka Búnaðarþing og gerði það á þessum vetri. Ég kannast ekki við að það séu sambærileg kjör og held að enginn hafi heldur ætlast til þess.

Það má með ýmsum hætti meta það, hverjar eru launagreiðslur til Búnaðarþings og hversu eðlilegar eða óeðlilegar þær eru. En það má kannske minna hv. fyrir­ spyrjanda á það, eins og það var þá mikill búhnykkur, sem minnihlutastjórn Alþfl. gerði rétt fyrir kosningarnar þegar hún afsalaði sér verðbótum á laun, sem þeir heiðursmenn hirtu reyndar svo þegar kosningunum var lokið og nýr mánuður byrjaður. Þær verðbætur, sem þarna var um að ræða, voru um það bil hálf laun eins búnaðarþingsfulltrúa. Svo geta menn borið þetta saman við kjör sín á Alþingi.

En hv. fyrirspyrjandi talaði alveg sérstaklega um hve frjálslega væri gengið í sjóði af hendi Búnaðarfélags Íslands. Það er gert með þeim hætti, eins og við vitum, að gengið er frá fjárlögum og þær aukagreiðslur, sem þar koma umfram, eru með alveg nákvæmlega sama hætti og gildir með alla aðra starfsmenn ríkisins, að þær eru greiddar eftir þeim verðlagshækkunum sem verða á ár­inu. Það eru engar aðrar aukagreiðslur inntar af hendi til Búnaðarfélags Íslands.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti, en ég vænti þess, að þessir hv. ræðumenn kynni sér betur alla málavöxtu áður en þeir fara næst að spyrja um málefni í íslenskum landbúnaði.