25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Það virðist vera einkenni á þeim einstaklingum, t.d. hv. þm. sem taka að sér að verja þessa tilteknu atvinnugrein, að leika sér að því að brigsla öðrum um vanþekkingu. Það er ævinlega af „vanþekkingu“ spurt, af „vanþekk­ingu“ talað og af „vanþekkingu“ um mál fjallað.

Hæstv. landbrh. lýsti því áðan, hvað gerist á Búnaðar­þingi. Á þessum vetri voru fluttar af því fréttir í fjölmiðl­um um nokkurra vikna skeið og fóru sennilega ekki fram hjá neinum landsmanni. En hvað haldið þið, herrar mínir og hv. þm., að gerist á t.d. þingi eins og þingi Alþýðu­sambands Íslands? Halda menn að þar sé einvörðungu verið að fjalla um kjaramál, eins og mátti skilja á máli hæstv. landbrh.? Ég vil ekki taka mér orð í munn eins og að um vanþekkingu sé að ræða, en ég get upplýst hann um að þingið er nákvæmlega eins upp byggt og það er verið að fjalla um nákvæmlega sömu hlutina. Það hef ég lesið í blöðum. Það er aðeins um hagsmuni tveggja stétta að ræða, en eðlismunur og efnismunur er enginn. Þetta veit ég að hæstv. ráðh. veit.

Og þá er næsta spurning um þetta: (Forseti hringir.) Aðeins örfáar setningar, herra forseti. — Sjá ekki hv. talsmenn líka að atvinnustéttinni, sem ég veit að þeir bera fyrir brjósti, er ógreiði ger með þessu? Það er ógreiði og það er ögrun við aðra þegna samfélagsins að þessi tiltekna atvinnustétt skuli með þessum sérstaka hætti vera sett upp á sérstakan stall, vegna þess að það er ofureðlilegt að mönnum mislíki sá mismunur sem hér er um að ræða. Þegar menn fara í sjálfvirka vörn, eins og hinn ágæti hv. þm. Egill Jónsson gerði áðan, held ég að hann átti sig enn ekki á, en æ fleiri samherjar hans eru farnir að átta sig á því, að stéttinni, sem honum finnst hann vera talsmaður fyrir, er enginn greiði gerður með málflutningi af þessu tagi.

Það vita allir sem vilja vita það, og sérhver hv. alþm. veit það og ég held líka sá ræðumaður sem var næstur á undan mér, að bændur njóta að þessu leyti sérstæðra og mjög óvenjulegra forréttinda sem aðrar atvinnustéttir njóta ekki. En lykillinn er auðvitað sá og hefur verið, að bændur hafa leikið þann sérstaka leik að þeir eru fram­leiðendur, flokkast með atvinnurekendum þegar á því þarf að halda, en þeir eru launþegar, eins og sést á þeirri viðmiðun sem laun þeirra eru reiknuð eftir. Og hér leika þeir sama leikinn: Þeir eru bæði með Búnaðarþing fram­leiðendamegin og með stéttarþing launþegamegin. Þannig er leikurinn.

Ég verð, herra forseti, að fá að gera aths. við aðeins eitt atriði enn.

Ég sagði að það hefði verið 40 millj. meira greitt út samkv. ríkisreikningi en fjárlög gerðu ráð fyrir. Í fjárlög­um var auðvitað gert ráð fyrir tiltekinni verðlagsþróun, en þetta bætist síðan við. Það er alveg rétt hjá hæstv. landbrh. að svona eyðsla er langt frá því að vera eins­dæmi, því miður. Við vitum engu að síður að hluta af því verður ekki við ráðið, en annar hluti stafar af hreinni óstjórn. Við ættum þess vegna að spyrja um það þarna eins og alls staðar annars staðar hvað á seyði sé. (Gripið fram í.) Við skulum sjá. — Hæstv. ráðh. er að segja að hér sé verið að taka þetta sérstaklega út úr. Þetta er rangt. Það voru gerðar langar aths. við ríkisreikninga á síðasta ári, sem ég stóð fyrir, út af einu tilteknu fyrirtæki, þar sem þetta, nákvæmlega þetta, var mjög og sérstaklega áber­andi. Ég vil nefna fyrirtækið. Það var Krafla sem þar var um að ræða. (Forseti hringir.) Ég vil ekki fara að eiga í handalögmálum við hæstv. forseta. Ég veit að ég er búinn að misbjóða þolinmæði hans. Ég læt máli mínu lokið.