25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Þetta verður áframhald af ræðu Karvels hjá mér. Það var þetta með misræmið, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason orðaði það, og síðan var hann kominn út í misrétti.

Við erum alltaf að tala um misrétti hérna. Ég tók t.d. með mér nokkur þingmál af borðinu mínu. Hér er þáltill. frá hv. þm. Karvel Pálmasyni o.fl. um athugun á úrbót­um í flugsamgöngum við Vestfirði. Sjaldan þurfa hv. þm. búsettir í Reykjavík að fljúga vestur á Vestfirði, sem betur fer. Hér er 77. mál. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson o.fl. flytja það mál, frv. til l. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa. Hvar er það aðallega sem slík upphitun húsa fer fram? Er það ekki úti á landi þar sem eru svo margir þm., þar sem eru svo fáir kjósendur á bak við hvern þm. að þeir hljóta að ráða öllu í þessu þjóðfélagi? Hér flytur hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt. Það er verið að tala þar um að lagður sé söluskattur á flutningskostnað út á land. Er þetta ekki misrétti? Þetta er kannske misræmi og kannske misrétti líka. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason o.fl. flytja till. til þál. um málefni farandverkafólks. Hvað­an kemur farandverkafólkið fyrst og fremst? — Það mætti tala um fsp. sem Salome Þorkelsdóttir hefur flutt til samgrh. um símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum. Ég er með eitt mál hérna. Það eru Egill Jónsson og Halldór Blöndal sem flytja þál. um jöfnun húshitunar­kostnaðar. Það er alveg það sama.

Meiri hlutinn af þingmálum, sem hér eru flutt, er um misrétti, ekki að landsbyggðin hafi of mikið, heldur að hún hafi of lítið. Það sjá allir, bæði kratar og aðrir. Við ræðum sjálfsagt síðar, við hv. þm. Vilmundur og Karvel, um misvægi atkv. En ég ætla bara að benda fyrirspyrj­anda á að víða er misréttið.