25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hafði í gær óskað eftir því við hæstv. forseta Nd. að fá að mæla nokkur orð utan dagskrár. En þar sem annað mál, sem jafnframt var rætt utan dagskrár, tók þá langan tíma og afgreiða þurfti mál frá d. féll ég frá því. En ég hef óskað eftir því við hæstv. forseta Sþ. að flytja það í dag sem ég vildi sagt hafa.

Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hljóðs, eru fréttir í dagblöðum undanfarna daga um yfirvofandi hækkun bensínverðs. Í því sambandi eru rifjaðar upp miklar umr. sem urðu á s.l. ári um nauðsyn þess að ríkið breytti reglum sínum um innheimtu tolla og skatta af bensíni. Þá voru gefnar yfirlýsingar um að núv. fyrirkomulagi mundi verða breytt um þau áramót sem liðin eru. Að vísu var þá við völd önnur ríkisstj., en engu að síður er mál þetta svo brýnt að mér finnst nauðsynlegt að það sé tekið til umr. nú á hv. Alþ. Ég óskaði eftir slíkum umr. í gær vegna þess að þá var verið að ræða þetta mál hjá stjórnvöldum, og það var gert í þeirri von að umr. hér gætu haft einhver áhrif á hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Síðan þá hafa ákvarðanir verið teknar í Verðlagsráði. Það samþykkti að hækka bensín úr 370 kr. á hvern lítra í 423 kr. það er 53 kr. hækkun eða um 14.3%. Af því eiga olíufélögin að fá í sinn hlut um 16 kr., en ríkið i formi skatta, aðallega vegagjalds, tolla og söluskatts, 37 kr. Þetta mál átti að ræða í hæstv. ríkisstj. í dag, en ég veit ekki um úrslit þess og vænti þess, að hæstv. fjmrh. upplýsi það á eftir.

Það er fróðlegt að huga aðeins að því hvernig bensín­verð myndast. Stærstu liðirnir, útreiknaðir eftir hækkun sem varð 20. des, eru sem hér segir, samandregið: Cif­verð vörunnar er 34.53%, opinber gjöld 55.58%, álagning og dreifingarkostnaður 5.74%, verðjöfnunar­gjald 0.96% og sölulaun 3.19%. Álagning er magná­lagning, þ.e. föst krónutala á lítra, en má þó fylgja vísitölu rekstrarkostnaðar olíufélaganna eftir ákvörðun Verðlagsráðs hverju sinni. Sölulaun eru einnig föst krónutala. Sama segir um veggjald. Heimilt er þó að hækka þann þátt verðs í samræmi við hækkun byggingar­vísitölu, en það hefur ekki verið gert frá því í júlí s.l. Aðrir stærstu tekjuliðir ríkisins, þ.e. söluskattur og tollur, eru í meginatriðum prósentuálagning sem leggst ofan á verðið. Tekjur ríkissjóðs af þeim hækkunum, sem orðið hafa erlendis á bensíni undanfarin ár, hafa því vaxið geysilega mikið.

Í ársbyrjun 1979 var bensínverðið 181 kr. á lítra, en eftir hækkun 20. des. s.l. 370 kr. á lítra, en hækkun á árinu hefur orðið 104.4%. Eins og ég gat um áðan er stór hluti hækkunarinnar auknar tekjur ríkissjóðs.

Ég vil láta þá skoðun mína í 1 jós, að það er óeðlilegt að ríkissjóður auki tekjur sínar á þennan hátt og stórauki þannig álögur á almenning, en bensínverð er stór hluti af útgjöldum alls almennings í landinu. Ef sú hækkun, sem nú er talað um, nær fram að ganga hefur bensínverð hækkað um 133% frá upphafi árs 1979, en í janúar 1979 voru af 181 kr. gjaldinu 106.52 kr. opinber gjöld, en ef verðið fer nú í 423 kr. eru 232.65 kr. opinber gjöld. Hér er um geysimikla hækkun að ræða á hinum opinberu gjöldum á hvern lítra sem renna í ríkissjóð.

Mér reiknast til, og hef þar fyrir mér upplýsingar fróðra manna, að tekjuauki ríkissjóðs af þeirri hækkun, sem stendur fyrir dyrum á þessu ári, muni verða 3.5 milljarðar kr. Er þá reiknað með að 120 þús. lítrar seljist á árinu, en þar af 95 þús. lítrar það sem eftir er, en tekjuauki ríkisins af þessari hækkun, sem stafar af hækk­unum erlendis, verði 3.5 milljarðar. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvort ríkisstj. hyggist varðandi þá hækkun, sem er talað um, beita óbreyttum reglum varðandi álagningu tolla og söluskatts, og jafnframt, ef svo er, hvort ríkið hyggist breyta álagningarreglunum í náinni framtíð, vegna þess að það er orðinn fastur liður að bensínverð hækkar á nokkurra mánaða fresti. Ég vil enn fremur óska eftir að hæstv. fjmrh. upplýsi hvernig veg­gjaldið verði hækkað nú, hvort á það leggist full bygg­ingarvísitala frá því að það var síðast hækkað.