25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir að vekja máls á þessum atriðum um bensín­verð sem um þessar mundir er að hækka.

Það er athyglisvert að fá fram sjónarmið og svör þeirra manna sem á sínum tíma létu í veðri vaka að þeir mundu ekki nýta sér hækkun á bensínverði til að fá auknar tekjur í ríkissjóð, en það kom fram hjá hæstv. fjmrh. að óbreyttri stefnu á að fylgja í þessum málum. Þess er að geta, að í því fjárlagafrv., sem verður rætt við 2. umr. í Sþ. á morgun, er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins af bensínsölu verði 29 milljarðar. Þetta er samkv. upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun. Það þýðir þreföldun í krónutölu frá 1978 og þýðir í raun að á sama verðlagi hefur ríkissjóður 10 milljörðum kr. meiri tekjur af bensínsölu árið 1980 en 1978. Þetta hlýtur að vekja menn til umhugsunar um hvort þessi stefna sé rétt.

Við höfum rætt það á Alþ. að undanförnu að eitthvað þurfi að gera til að koma til móts við það fólk sem hefur orðið fyrir þeim búsifjum að olía til húshitunar hefur margfaldast í verði. En við þurfum jafnframt að hafa það hugfast, að jafnvel innan borgarmarkanna í Reykjavík þarf fólk að ferðast með bílum um óravegu. Það fólk þarf auðvitað að greiða bensínskatta í ríkissjóð. Þetta er enn eitt dæmið um að ríkissjóður nýtir sér bágindi fólks til að heimta meiri skatta.

Annað dæmi um þetta er nýlegt. Það er dæmið um að teknir eru út úr fjárlagafrv. 2.3 milljarðar. Það er búið að tala svo oft um þá úr þessum ræðustól að það er kannske að fylla mælinn. En ég held að því verði að koma vel til skila til fólks, að teknir eru 2.3 milljarðar, sem áttu að fara til jöfnunar á húshitunarkostnaði, og þeir peningar notaðir til allt annars. Síðan á að leggja skatta á almenn­ing til að sjá fyrir þessum sérstöku þörfum. Þannig kemur stefna hæstv. ríkisstj. fram á öllum sviðum.

Ég taldi rétt að upplýsa þetta hérna því að um er að ræða aukna skattheimtu ofan á allt annað um 10 mill­jarða kr. — ofan á það þegar hæstv. ríkisstj. ýtir vanda sveitarfélaganna yfir á almenning, sem gerðist með af­greiðslu úr Nd. fyrir fáeinum dögum. Þá ýtti stjórnarlið­arnir þeim vanda, sem ríkið sjálft hefur m.a. bakað sveitarfélögunum, yfir á almenning.

Ég ætla ekki að ræða um vegáætlun. Ég sá að hv. þm. Sverrir Hermannsson bað um orðið. Ég býst við að hann minnist þá á skoðanir Ragnars Arnalds, hæstv. fyrrv. samgrh., sem nú er orðinn hæstv. fjmrh., og beri kannske saman hvernig þessir tveir ágætu menn hafa staðið sig hvor á sínum stað.

En það er eitt athyglisvert sem kom fram hjá hæstv. ráðh. Hann segir við okkur: Ég veit ekki betur en tekjur ríkisins séu of litlar. Alla vega er það svo, að þær hverfa allar í gjöld og það er nánast um greiðsluhalla að ræða hjá ríkissjóði. — Þetta er dæmalaust að heyra. Ég hefði frekar kosið að heyra af vörum hæstv. ráðh. að hann spyrði sig: Getur ekki verið að gjöldin séu of há? Eða hugsar hæstv. ráðh. eingöngu um ríkiskassann? Hugsar hann ekkert um þá sem þurfa að greiða skattana? (Gripið fram í: Það er nú augljóst.) Ja, það er augljóst fyrir suma, en ég er að spyrja hæstv. ráðh. að þessu því að það virðist ekki vera augljóst fyrir honum — a.m.k. var það ekki ljóst af því sem hann sagði í ræðustól áðan. Ég held nefnilega að menn eigi að venja sig á það, og við ættum að gera meira að því á hinu háa Alþingi, að spyrja hvort ekki sé hægt að draga úr útgjöldum þegar þarf að spara og koma til móts við erfiðleika fólks á olíuhúshit­unarsvæðunum og þess fólks sem áfram verður að aka bifreiðum til og frá vinnu innan stórra borgarmarka, t.d. í Reykjavík, og greiðir sífellt hærri skatta í ríkissjóð vegna þessara búsifja sem það verður fyrir. (Fjmrh.: Þú ert að leggja til að skera niður vegáætlun.) Ég hef ekki lagt eitt eða annað til, en hins vegar hef ég séð fjárlaga­frv. hæstv. ráðh. og ég spyr: Hver sker niður vegáætlun? Ég spyr: Er það ég eða hann sem er fjmrh. hér?

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En það er athygl­isvert að hluta á sjónarmið þeirrar hæstv. ríkisstj., sem hér hefur tekið sér bólfestu um skeið, og ég vil eindregið hvetja til þess, að hv. þm. komi í ræðustól og geri grein fyrir skoðunum sínum í þessu máli. Ég veit að þrátt fyrir allt tekur hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds áreiðanlega söns­um í þessu máli og vill gera það besta úr því þegar honum hefur verið leitt fyrir sjónir hvað það þýðir sem hann nú aðhefst.