25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. áleit í orðum sínum að það væri næsta óþarft að ræða þetta mikilsverða mál hér og þær reglur sem um það hafa gilt eða eftir hefur verið farið á umliðnum árum, þetta mætti allt eins gera með venjulegum hætti og hefð­bundnum á hinu háa Alþingi, enda þótt utandagskrár­umr. séu vissulega fullkomlega hefðbundnar. En það ber í vaxandi mæli á því á þeim stutta tíma sem hæstv. ríkisstj. hefur hírst við völd, að hæstv. ráðh. eru mjög typpilsinna og telja næsta óþarft að ræða mál sem þeim þá og þá kemur kannske ekki nægilega vel. Við urðum vör við það í dag þegar var til umr. klúðursmál hæstv. ríkisstj. varð­andi flutning stefnuræðu hæstv. forsrh. sem hann af ein­hverjum ástæðum hefur hliðrað sér hjá. Ætla ég þó ekki að fara fleiri orðum um það, en skil að mínu leyti afstöðu hæstv. forseta Sþ. — En hér ber mjög á þessu, að þeir örfáu hæstv. ráðh., sem hægt er með hörðu að halda hér inni til að ræða við þá um hagsmunamál þjóðarinnar, víkjast mjög undan því að mál séu rædd, ég tala nú ekki um brýn mál eins og þetta, sem hér ber á góma nú, vegna þess að þetta á sér auðvitað langa sögu.

Þegar þetta mál var til umr. í fyrra upplýsti og lýsti þáv. fjmrh. yfir því, sem var gírugur mjög fyrir hönd ríkis­sjóðsins, að hann teldi ekki eðlilegt að ríkissjóður fleytti mjög rjómann ofan af vegna hinna gífurlegu eldsneytis­hækkana sem orðið hafa. Hann sjálfur stóð ekki við þetta, en ég minnist þess, að í umr. um álagningarliði og kostnaðarliði eldsneytis, sem fram fóru í fyrra og hæstv. þáv. viðskrh. var til andsvara í, var lýst yfir að væru til yfir 20 álagningarliðir, allt frá því að eldsneyti væri keypt og þar til það kemur til neytandans. Þá var talið eðlilegt að það yrði vandlega endurskoðað, en ekkert af því hefur átt sér stað né heldur hefur verið látið af því að notfæra sér þessa firnalegu uppsprengingu eldsneytisins til þess að draga sem mest fé af skattborgurunum í ríkissjóðs­hítina.

Hæstv. fjmrh. taldi að allt kæmi í einn stað niður, þetta væri einn sjóður hvort eð væri, þannig að út af fyrir sig skipti ekki máli þótt ekki væru af bensíngjaldi t.a.m. markaðir tekjustofnar til handa varanlegri vegagerð. En ég vil aðeins láta þá skoðun í ljós, að þessu er alls ekki þann veg farið að minni hyggju. Þá má sýna fram á að lagning varanlegra vega er einhver arðbærasta fram­kvæmd sem við getum ráðist í og sparar bifreiðaeigend­um stórfé. Og það er trúa mín, að ef bifreiðaeigendur sæju að verulega stórt væri lagt undir í þeim efnum mundu þeir telja miklu líðanlegra að greiða hátt verð fyrir þá nauðsynjavöru sem eldsneyti er orðið.

Ég vil vísa til þess, sem ég sagði áðan um þær umr. og upplýsingar sem hæstv. fyrrv. og reyndar núv. viðskrh. gaf um samsetningu á verðmyndun á olíu og bensíni, og vil nú beina því til hæstv. ríkisstj. að við yfirlýsingarnar um endurskoðun á því fyrirkomulagi verði staðið, með sérstöku tilliti til þess, að hér á í hlut sami hæstv. ráðh. Það vill nefnilega þannig til, að á þennan stofn, ofan á innkaupsverð olíunnar, leggjast rúmlega 20 liðir og flestir hlutfallslega, þannig að þeir, sem í hlut eiga, hafa stórkostlegan ábata af þeirri stórhækkun á innkaups­verðinu sem hefur orðið á bensíni og olíu. Þetta á við um skipafélög, þetta á við um olíufélögin alveg sér í lagi og svo notfærir sér hið opinbera þetta í fyllsta máta. Það er leki í hafi, leki í landi, það er álagning hér og álagning þar, prósentvís, og með ólíkindum hvernig þetta fyrir­komulag er, sem hér var upplýst, og var raunar ekki þrautalaust að fá um það nákvæmar upplýsingar þótt mönnum hafi lengi boðið í grun að hér væri um sér­kennilegt fyrirkomulag að tefla. En nú hefur verið upplýst, að það hefur ekki verið hrakið með neinum rökum, í fjárlagaumr. sjálfri að nú ætti að beita þeirri innheimtuaðferð fyrir ríkissjóðshítina að ná inn, á sömu verðlagsforsendum, 10 milljörðum umfram það sem bensínverð gaf af sér í ríkissjóð árið 1978.

Það er auðvitað illt við mikla skattaáþján að búa. En sú aðferð að notfæra sér þá ógnarlegu uppsprengingu á slíkum lífsgæðum eins og bensín og olía eru með þessum hætti af hálfu ríkisvaldsins er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Þess vegna er það, að þegar umtal er um að hækka bensínlítrann úr 370 kr. í 423 kr., eða hvað það er, er ekki óeðlilegt að menn vilji verja tíma hins háa Alþingis til að ræða það alveg sérstaklega.

Ég vil rifja það upp, að í upphafi Framsóknaráratugs­ins minnist ég þess — (Gripið fram í: Framsóknarára­tugsins?) Framsóknaráratugsins, já, hann hefur verið nefndur það, og enn stendur það nafn með rentu, þar sem upplýst er að þá hafi verðlag hækkað um 1400%, meðan á viðreisnaráratugnum þar á undan hækkaði það um 200, svo að þetta passar. — Ég minnist þess, að bensínlítrinn var árið 1971 16 kr. og þá runnu í Vegasjóð 8.87 kr. eða rúmlega 50%. Nú skildist mér að veggjaldið, sem rennur í Vegasjóð, muni hækka í rétt rúmar 90 kr. Þá er auðsætt mál að við erum komin ofan undir 20% eða rétt rúmlega það sem rennur til Vegasjóðs af bensínverð­inu, útsöluverði hvers bensínlítra. Þannig hefur á þessum áratug stöðugt farið rýrnandi sá hlutur sem til varanlegr­ar vegagerðar skal verja, enda þótt, eins og ég segi, sýna megi og rannsóknir sanni að þetta eru einhverjar arð­bærustu framkvæmdir sem hægt er að taka sér fyrir hendur.

Ég þarf ekki að fara miklu fleiri orðum um þetta né heldur ætla ég nú að fara að ræða um væntanlega veg­áætlun. En erindi á við hæstv. núv. fjmrh. vegáætlun hans, sem sett var saman á fyrra þingi undir hans stjórn sem samgrh. Þar minnist ég þess, að milli 7 og 8 milljörð­um var áformað að verja til vegagerðar, án þess þó að það væri ákveðið í þeirri afgreiðslu með hvaða hætti fjár skyldi aflað, og talið, eins og ég man áreiðanlega rétt, í vegáætluninni að eðlilegt væri að um það yrði tekin ákvörðun síðar.

Sem ég segi er ekki staður eða stund til að ræða veg­áætlun sérstaklega. En því hefur verið haldið fram og það stendur óhrakið enn, að miðað við þau áform, sem uppi eru, og miðað við það, sem lesa megi í fjárlagafrv., muni verulega draga úr vegagerð á árinu 1980, í stað þess að þurft hefði, ef vel hefði átt að verki að standa, að stór­auka hana og þá alveg sérstaklega varanlega vegagerð. Þetta á erindi í umr. vegna þess, hve mjög hefur hallað á Vegasjóðinn í öflun tekna til hans með gjaldi af bensín­verði. Allt þetta þarf að taka til glöggrar endurskoðunar, og þessi aðferð við innheimtu eyðslufjár í ríkissjóð á hinar uppsprengdu olíuvörur er að mínum dómi með öllu ólíðandi. Eins legg ég höfuðáherslu á að við þær yfirlýs­ingar verði staðið, sem hér voru hafðar í frammi í fyrra, að endurskoðað verði rækilega það fyrirkomulag sem er á verðmyndun á bensíni og olíu.

Fleira var það ekki í þessu sambandi sérstaklega. En ég hvet enn hæstv. ráðh. bæði til þess að sjá af tíma sínum til að eiga orðastað við okkur hér og eins að vera ekki svona typpilsinna þótt menn vilji kveðja sér hljóðs utan dagskrár um brýnustu dægurmál, eins og þetta mál hlýtur að teljast.