25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég trúi því varla að hæstv. fjmrh. sé svo farið, að hann hafi ekki áhyggjur af því hvað er að gerast nú dagsdaglega hér á landi. Það líður vart sá dagur að ekki séu framkallaðar eða fram­kvæmdar hækkanir á svo til öllum sviðum þjónustu og vöruverðs í landinu. Annaðhvort er það gert í stjórnar­ráðinu eða það er gert af hæstv. ríkisstj. eða það er gert hér niðri á Alþ. af þeim stjórnarmeirihluta sem hér ræður nú ríkjum. Og það er furðulegt að heyra þá yfirlýsingu af vörum hæstv. fjmrh., sem er innan vébanda þess flokks sem telur sig þurfa eða eiga að gæta fyrst og fremst hagsmuna launafólks í landinu, að hann telur það sjálf­sagt að hér séu dagsdaglega framkvæmdar hækkanir á svo til öllum sviðum, á sama tíma og hann hefur lýst því yfir, þessi sami hæstv. ráðh., að það verði engar grunn­kaupshækkanir leyfðar í landinu á þessu ári. Hafi ein­hverjir vaðið í villu um það, að innan vébanda eða í forustusveit Alþb. væru þeir einstaklingar sem fyrst og fremst teldu sér skylt að gæta hagsmuna láglaunafólksins og þeirra sem verst eru settir, þá hafa menn þar farið villir vegar. Það á a.m.k. ekki við um hæstv. fjmrh. Og mér þykir það koma úr hörðustu átt, ef þessir fulltrúar — að eigin mati — öreiganna í landinu telja að það sé með ólíkindum, ef alþm. leyfa sér að vekja hér máls á t.d. því máli sem hér er verið að ræða nú.

Það var, ef ég man rétt, síðast í gær, sem stjórnarmeiri­hlutinn samþykkti hér að standa að hækkun sem nam á sjötta milljarð kr. í álögum á almenning í landinu í gegn­um útsvar. Það var gert síðast í gær í hv. Nd. Og það er augljóst, hvað sem hæstv. fjmrh. segir eða hæstv. ráð­herrar að linan í fjárlagafrv. fyrir árið 1980 liggur til stóraukinnar skattbyrði á almenning í landinu. Á sama tíma og allt þetta gerist lýsir hæstv. fjmrh. yfir að launa­fólk skuli ekki fá hækkun. Það virðist sem sagt vera stefna núv. hæstv. fjmrh. — og hæstv. ríkisstj. þá um leið — að allt annað en launin megi hækka og eigi að hækka, og það sé raunar hneyksli ef menn leyfi sér hér á hv. Alþ. að tala um að hinir og þessir liðir hækki svo og svo mikið. (Fjmrh.: Hver hefur kallað það hneyksli?) Hæstv. ráðh. sagði áðan að hann teldi gersamlega ástæðulaust að vera að vekja máls á því hér á Alþ., þó að nú ætti að bæta 53 kr. við bensínlitrann til hækkunar. Það er ástæðulaust að áliti hæstv. fjmrh. að vera að ræða um slíkt hér. Það er svo sjálfsagt mál, segir hann, að svona skuli þetta vera. Þetta eru hans eigin orð. Þetta er nauðaómerkilegt, sagði hann hér síðasta ár, nauðaómerkilegt að vera að ræða um þetta hér.

Það má seg ja um hæstv. fjmrh.: Öðruvísi mér áður brá. Ég minnist þess og það oftar en einu sinni, t.d. frá árunum 1974–1978 þegar núv. hæstv. fjmrh. var í stjórnarandstöðu, að hann hélt uppi linnulausri gagnrýni á þáv. fjmrh. og ríkisstj. fyrir það, hversu mikið ríkis­sjóður tæki í sína hít af umferðinni og skilaði sáralitlu til baka. Nú virðist annað viðhorf vera komið upp. Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh. og kannske raunar fleiri hæstv. ráðh. hér inni: Er þetta í samræmi við stjórnarsáttmálann? Eru ekki einhver ákvæði um það í stjórnarsáttmála, að verð­hækkanir skuli ekki fara yfir tiltekin mörk? Halda menn að þau mörk haldi, ef svo heldur fram sem horfir í hækk­unum á öllum sviðum, eða er það bara einn loforðalisti án þess að mark eigi á honum að taka?

Ég held að nauðsynlegt sé að vekja umr. af því tagi sem hér hefur verið gert, því að þetta er sannarlega ekki nauðaómerkilegt, hæstv. ráðh., sem hér er verið að ræða um. Það er vissulega nauðsynlegt að vekja umr. um slíkt sem þetta, því að það er þetta sem brennur fyrst og fremst á bökum almennings í landinu, þó að hæstv. ráðh. finni kannske minnst fyrir því af öllum. En hinn almenni skattþegn í landinu er ábyggilega búinn að fá nóg af því sem hér hefur verið að gerast á undanförnum dögum í sambandi við hækkanir á ótilteknum hlutum. Það er varla hægt að nefna þá þjónustu eða vöru sem hefur ekki tekið gífurlega miklum hækkunum eftir að loforð var gefið um að ekki skyldu fara yfir tiltekið mark hækkanir á hinum ýmsu sviðum. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.: Er það enn staðfestur ásetningur hans að halda sér við fyrri yfirlýsingar um að þrátt fyrir allar þær hækkanir, sem hann beitir sér fyrir og stendur að á opinberri þjónustu og vöruverði, hverju tagi sem nefnist, — er það enn einlægur ásetningur hans — ég vona að hann kannist við þetta orðalag — einlægur ásetningur hans að standa við gefin fyrirheit um að grunnkaupshækkanir skuli ekki eiga sér stað í landinu á þessu ári, þrátt fyrir þá stefnu sem hann beitir sér fyrir í verðlagsmálunum? Það er full ástæða til þess að fá um það umr., ef ætlunin er að beita sér fyrir eða framkvæma hækkanir á öllum sviðum nema að því er varðar launafólk. Launin mega ekki hækka.

Og að síðustu: Það er rétt, sem hv. þm. Sverrir Her­mannsson sagði áðan: margir hverjir hæstv. ráðh. eru typpilsinna þessa dagana, og það verður hver sem telur sig eiga að taka til sín.