25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

70. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það er að bera í bakka­fullan lækinn að þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir frumkvæði hans að flutningi þessa máls í þinginu, og sennilega mundi hv. þm. Tryggvi Gunnarsson, frændi minn, þó þrekinn sé, tæpast rísa undir öllu meira lofi en á hann hefur verið borið nú þegar, væri hann hér nær­staddur. En fjarlægðin mun nokkuð létta honum þessa byrði, og vil ég þá bæta við sérstöku þakklæti til hv. þm.

Skúla Alexanderssonar og Guðmundar Karlssonar, sem eru sérfræðingar í fiskverkun á meðal vor, einnig fyrir mjög fróðlegar ræður og jákvæða gagnrýni á þetta mál, sem varðar nýtinguna eða framleiðnina í fiskiðnaði okkar.

Ég trúi því staðfastlega, að framleiðni í þessum at­vinnuvegi hjá okkur sé jafnmikil og þeir hv. þm. Skúli og Guðmundur vildu hér vera láta. En ég er jafnframt þeirrar skoðunar og gæti rökstutt hana með allmörgum dæmum, að þar eigi sér einnig stað einhver gegndarlaus­asta sóun sem hugsast getur í nokkurri atvinnugrein á Íslandi. Getur maður þá rétt aðeins farið að draga álykt­anir af því, hvernig komið væri hag þessa atvinnuvegar, með þessa geysilegu framleiðni samanborið við það sem annars staðar tíðkast og þessa óskaplegu sóun sem við vitum að þarna á sér stað, ef enn þá betur væri á spilunum haldið.

Það liggja ekki fyrir tölur um það, hversu miklum hluta af þeim afla, sem kemur um borð í skipin, er skilað til lands, hversu miklum hluta af verðmætunum er á glæ kastað, svo við notum hina gömlu skáldlegu mynd. Þó er mér kunnugt um það og okkur öllum, að í sjóinn fer a.m.k. öll lifrin af togaraflotanum og hefur gert nú síðustu 22 árin a.m.k. Slógið fer náttúrlega allt í sjóinn. Mér segja fróðir menn, sem ég hef ástæðu til þess að ætla að ýki ekki, að í þessum verðmætum einum sér liggi a.m.k. 7 milljarða kr. virði, ef í land kæmi og væri nýtt í hina ódýrustu vinnslu sem hugsast gæti, og mun meira aftur á móti ef lifur væri ekki brædd til iðnaðarlýsis, heldur til meðalalýsis, og margfalt meira ef hún væri fryst fyrir þá markaði þar sem frysta lifur skortir.

Við lásum ummæli eftir einum af okkar ágætu land­helgisskipherrum í Morgunblaðinu í haust er leið, þar sem hann var að lýsa atferli erlendra verksmiðjutogara á Grænlandsmiðum, rétt fyrir utan landhelgina okkar, í smáfiskatogi, þar sem hann komst svo að orði, að ekki sæist fugl í kjölfarinu hjá þessum skipum. Ástæðan fyrir því, að fugl sést ekki í kjölfari hjá þessum skipum, er beinlínis sú, að þar er engan mat að hafa út um lensport, þar er allt hirt til framleiðslu og verðmætasköpunar. Ég er þeirrar skoðunar, að við ættum að setja okkur það mark — og væri jafnvel fús til þess að standa að löggjöf þess efnis — að ekki mætti henda einum einasta ugga fyrir borð eða neinu því sem úr sjónum er tekið af lífræn­um efnum, heldur ætti að flytja allt saman til lands. Kæmi þá náttúrlega í fyrsta lagi þetta til, að við erum að henda þarna verðmætum, samtímis því sem við erum í ýmsa grein e.t.v. farnir að ofnýta fiskimiðin okkar, og svo er hitt beinlínis hreinlætisatriði og sjálfsögð krafa um sið­góða meðferð á því sem við tökum úr sjónum.

Ég kvaddi mér nú fyrst og fremst hljóðs — þrátt fyrir það þakklæti sem ég hef þegar borið fram við hv. ræðu­mann Guðmund Karlsson — vegna ummæla hans um ástandið í fiskiðjuverunum, í fiskvinnslunni á vertíðar­slóðinni hér syðra þessa dagana, þar sem útlit er fyrir, ef drottinn gefur framhald á slíkum dýrðarinnar gæftum sem við njótum núna, að verði vertíð allra alda, þar sem hann segir um það fólk, sem vinnur nú að framleiðslu á útflutningsvöru og leggur nótt við dag, efalaust í flestum tilfellum nú þegar komið að þrotum með vinnuþrek, að árangurinn verði sá, að með hverri framleiðslueiningu, sem tekst að koma í frostið, aukist tap fyrirtækisins.

Hv. þm. Guðmundur Karlsson veit ákaflega vel hvað hann er að segja. Það má vel vera að hann taki sér hér hið sjálfsagða leyfi að mála staðreynd þeim litum sem til þess nægja að menn taki mark á henni. En mig langar til þess að leggja fyrir hann spurningu, — og ætla ég honum þó rými fyrir því sem hann var áður búinn að gera grein fyrir hérna með ágallana sem á því eru að þurfa að taka svo mikinn fisk á jafnskömmum tíma, — ég vil leggja fyrir hann eina spurningu sem mér þætti ákaflega vænt um að fá svar við: Hvernig stendur á því, að hægt er norður í landi að skila inn í frystigeymslu framleiðslueiningum sem hver um sig skilar dágóðum arði, á sama tíma sem hinir ágætu og afkastamiklu frystihúsaeigendur hér við Faxaflóann ganga, eins og hann lýsti, með ekkasogum milli bandastjóra að fá fé í rekstur sinn — að þá skuli fyrirtæki norður í landi skila með hagnaði hverri framleiðslueiningu, geta borgað 36% ofan á umsamið hrá­efnisverð til sjómannanna og í staðinn fyrir að ganga með vota kinn til bankastjóranna að biðja um fjármuni í reksturinn geta þeir bara gengið þangað og tekið út peningana sína.

Ég veit að hv. þm. Guðmundur Karlsson getur útskýrt það fyrir okkur, hvernig á þessu stendur. Og af því að ég vil gjarnan að hv. þm. geti dregið réttar ályktanir af þeirri fræðslustarfsemi sem hér hefur átt sér stað og mun eiga sér stað, þá þætti mér æskilegt, ef við gætum nú kannske lært aðferðina af þeim Norðlendingunum, að við gætum komið þeim fróðleik á framfæri við þá Sunnlendingana sem mega una svona bágu lífi í starfsemi sinni.