25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

70. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hv. þm. Stefán Jónsson tók sér í munn áðan, að það á sér stað gegndarlaus sóun í íslenskum sjávarút­vegi á margan hátt, og það á sér þar líka stað mikil offjárfesting. En sú sóun, sú offjárfesting stafar í flestum tilvikum af stjórnleysi. T.d. getum við séð dæmi um þá offjárfestingu sérstaklega hjá loðnuflotanum fyrir síð­ustu vertíð. Þetta eru kappsfullir menn sem eiga þarna hlut að máli, menn sem hafa haft ágætisafkomu og hafa getað lagt í mikla og dýra fjárfestingu, og þeim er att til kapps um mjög takmarkaðan fiskistofn. Og því meira sem þeir leggja í sín veiðarfæri og sín fiskiskip, því meiru ná þeir á stuttum tíma. Aftur á móti ef þeim væri skammtaður ákveðinn kvóti sem þeir mættu veiða á ákveðnum löngum tíma, þá þyrftu þeir ekki á þessari miklu fjárfestingu að halda. Ég held að það sé kominn tími til þess fyrir löngu, að við nálgumst þessi vandamál sjávarútvegsins með öðrum hætti en við höfum til þessa gert og horfum á þau raunsæjum augum.

Ég tek undir það, að það er vissulega sorglegt að sjá allri lifur fleygt í sjóinn af togaraflotanum. Ég held að það séu kannske 5–10 togarar af öllum okkar flota sem hirða lifur. En sjómenn togaraflotans hafa haft verulega góða afkomu á síðustu árum og þeim finnst ekki taka því að hirða þennan litla hluta af því verðmæti sem þeir eru að flytja á land þar sem lifrin er.

Því er ekki hægt að neita, að það er ömurlegt fyrir hvern einasta framkvæmdastjóra fiskvinnslufyrirtækis að standa frammi fyrir því vandamáli, hvort hann geti borgað því fólki, sem vinnur hörðum höndum, má segja, svo lengi sem það getur staðið á fótunum, laun á réttum tíma í hverri viku. Hv. þm. talar um að þeir Norðlending­ar skili dágóðum arði um leið og við Sunnlendingar getum ekki rekið okkar fyrirtæki. Það var nú svo fyrir nokkrum árum, það var fram til 1972 líklega, að besta afkoma í sjávarútvegi var hjá fyrirtækjum á Reykjanesi og á Suðurlandi. En þá varð sú breyting á, að skilið var töluvert mikið á milli í verði á smáum fiski, meðalstórum fiski og stórfiski, vegna þess að saltfiskur gaf verulega vel af sér. Við sitjum við það borð hér, Sunnlendingar, að framleiða mikið einmitt úr þessum stóra fiski sem ekki gefur meiri nýtingu en smái fiskurinn og er miklu dýrari í innkaupum. Við þetta sat þangað til í nóv. s.l. Þá var gerð enn önnur breyting, — ég veit ekki hvort það er í sjálfu sér æskilegt, — en sú breyting var þá gerð, að þetta verð jafnast þannig að nú er engu betra að kaupa þennan smáfisk en að kaupa stóra fiskinn. Og það er staðreynd, að sú vél, sem notuð er til vinnslu á smáfiskinum, gefur heldur betri nýtingu, líklega jafnvel 2–3% meira en vélin sem notuð er við vinnslu á stórum fiski. Og það er engin spurning um það, að frystihúsin á Norðurlandi og Vestfjörðum, já, sérstaklega á Norðurlandi og á Vest­fjörðum, gáfu mjög góða afkomu á s.l. ári. Frystihúsin á Suðurlandi gáfu reyndar sæmilega af sér á síðasta ári. En við þær gífurlegu verðhækkanir, sem átt hafa sér stað innanlands á síðustu mánuðum hefur þetta snúist svo við, að þessi atvinnurekstur á mjög undir högg að sækja. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að þeir Norðlendingar standa ekkert betur að vígi núna, nema að því leyti að þeir búa að nokkrum fyrningum frá undanförn­um góðum árum, en alls ekki að þeir hafi betri rekstur í dag. Ég held að þú getir fengið það staðfest, Stefán, ef þú hringir norður í land, að þar er reksturinn engu betur staddur í dag en hér á Suður- og Vesturlandi.

Ég efast ekkert um það, að sum þeirra fyrirtækja, sem best voru í sveit sett, hafi getað á síðustu árum borgað 36% yfirverð á þennan smáa fisk sem við framleiðum. En það leyfi ég mér að efast um að þau geri á þessu ári eða næsta ef ekki verður mjög mikil breyting þar á. Ég hef heyrt ýmsar sögur af þessum yfirborgunum og hvernig þær hafa verið framkvæmdar og ætla ekki að rekja þær hér. Ég efast ekki um að hv. þm. þekkir það mun betur en ég. En því miður er svo komið, að nú skera engin fyrirtæki öðrum fremur sig úr í íslenskri fisk­vinnslu. Þau eru öll jafnilla komin.