20.12.1979
Neðri deild: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

9. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, en ég vil þó leyfa mér að gera þá athugasemd við skoðun hans á þeirri tekjuöflun, sem þessi brbl. gera ráð fyrir til þess að standa undir verðbótum á karfa- og ufsaafla, að þar er annars vegar teflt á tæpt vað hvað snertir Aflatryggingasjóðinn, og segja má að það, sem skiptir máli í því sambandi, er að hann er ekki eins fær um að mæta stóráföllum.

Hitt atriðið, að taka tekjuafgang Tryggingasjóðs með þessum hætti, kemur auðvitað í veg fyrir að Aldurslagasjóður fiskiskipa geti notað þetta fjármagn til að taka fleiri úrelt skip úr umferð. Það hlýtur að liggja alveg ljóst fyrir, og mér heyrðist á hæstv. ráðh. að hann væri í meginatriðum sammála mér að þetta væri óæskileg tekjuöflun, og ég fagna því að við skulum ná saman í þeim efnum.

Varðandi það, að yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins hefði verið sammála um að bæta upp verð á aðeins tveimur fisktegundum, þá er það nú oft svo með þessar nefndir og ráð — þó að oftast séu valinkunnir sómamenn í þeim — að það þarf líka að athuga til hlítar hvort tillögur þeirra eru eðlilegar og sanngjarnar. Ég heyri það á hæstv. ráðh., að hann er mér algerlega sammála um að það hafi verið ósanngjarnt hvernig farið var á þessu ári með þá sem grálúðuveiðar hafa stundað. Ég skil mætavel, eins og allt er í pottinn búið í þessu þjóðfélagi, að mikil óvissa sé ríkjandi nú upp úr áramótunum varðandi fiskverð, og þá helst þar í hendur væntanlegt olíugjald og sömuleiðis verðbætur á aðrar fisktegundir. Ég skal ekki á þessu stigi fjölyrða frekar um það. Það eru mál sem skýrast nú um eða eftir hátíðarnar.