25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um útreikning framfærsluvísitölu í hverju kjör­dæmi á Íslandi. Flm. er hv. þm. Ólafur Þórðarson. Vissu­lega hafa fleiri en Ólafur Þórðarson komið auga á nyt­semi þess, að framfærsluvísitala væri vituð á fleiri stöðum en í Reykjavík. Hann gat þess, að þetta hefði verið framkvæmt áður. Og það er vitað, að það er ekkert vandamál að reikna vísitölu út á fleiri stöðum. Ef það er hægt á einum stað, þá hlýtur það að vera hægt á fleiri stöðum. Og mér finnst að þessar upplýsingar gætu verið gagnlegar við ýmsa ákvörðunartöku í þessu þjóðfélagi.

Hv. flm. nefnir hér til nokkra liði, stafliði a — e, og hefur reyndar gert nokkra grein fyrir þessum liðum. Þess vegna ber það, sem ég segi nú, nokkurn keim af því sem hann var að segja áðan. En mig langaði sérstaklega að gera hv. þm. nokkra grein fyrir einum þætti þessa máls, þ.e. símkostnaðinum.

Ég held ég fari rétt með það — þó skulu menn taka það með fyrirvara, en það hefur ekki svo mikið að segja — að hvert teljaraskref í síma kosti nú 23.10 kr. Lítið þorp í minni sýslu heitir Laugarbakki, 8 km frá Hvammstanga. Hvammstangi er þjónustumiðstöð fyrir þetta litla þorp. Þorpið er nýlega búið að fá sjálfvirkan síma, og þessa 8 km er teljaraskrefið 60 sek. Sem sagt, 23.10 kr. kostar það að ná í verslun, í lækni, dýralækni, í hvers konar þjónustu sem þarf að fá. Ef fólk í þessu litla þorpi ætlar að tala til Blönduóss, þar sem sýslumaður er staðsettur, þá mun teljaraskrefið vera um 12 sek. Sem sagt, ef það ætlar að ná í sýslumanninn eða bifreiðaeftirlitið eða ýmsa þjónustu þar ellegar í Reykjavík, ef það ætlar að ná hér í ráðuneyti eða annað, þá kostar mínútan 115.50 kr. Og ef einhver á Blönduósi ætlar að ná til Reykjavíkur, þá eru ekki nema 10 sek. í skrefinu og þá kostar mínútan 138.60 kr. Fyrir þetta sama teljaraskref, sem ég er að tala um, gæti einstaklingur, sem býr hér á stór-Reykjavíkur­svæðinu sem er Hafnarfjörður, Kópavogur, Garðabær, Reykjavík og öll Mosfellssveit, talað við helming af íbú­um þessarar þjóðar fyrir sama verð og maðurinn á Siglu­firði getur talað til Reykjavíkur fyrir í 8 sek. Munurinn er þessi, að Siglfirðingurinn getur talað í 8 sek. fyrir sama gjald og sérhver hér í Reykjavík getur talað við helmingi þjóðarinnar eða einhvern af helmingi þjóðarinnar. Og til þess að bíta höfuðið af skömminni leggur ríkið 22% söluskatt ofan á allt saman.

Mér detta í hug orð sem hv. 3. þm. Reykv. sagði bæði í fjh.- og viðskn. og eins þegar hann hefur rætt mál hér. Hann hefur tvívegis sagt: „Það er eins og ríkið geri sér óhamingju annarra að féþúfu.“ En ég spyr þingheim: Finnst mönnum sanngjarnt að lífskjörum sé deilt svona misjafnt niður? Og finnst mönnum þá ekki sanngjarnt að það sé alla vega vitað, hver er munur á lífskjörum fólks úti á landi á hinum ýmsu stöðum og hér í Reykjavík, þar sem vísitölufjölskyldan býr? Það væri þó allavega hag­nýtt að vita þetta, hvernig sem það yrði notað. Ég hef þá trú, að þessar upplýsingar gætu verið gagnlegar þegar talað er um tekjuskatt eða félagsmálapakka. Við lands­byggðarmenn höldum því fram, að innihald pakkanna hafi farið fyrst og fremst í þéttbýlið, en umbúðirnar kannske í dreifbýlið. Ég er að tala um gjaldskrá opin­berra fyrirtækja. Það væri kannske gagnlegt að vita þetta betur þegar verið er að jafna lífskjörin með almanna­tryggingum. Og það væri kannske gagnlegt að vita þetta þegar við erum að leggja söluskatt á flutningsgjald t.d. Þar er ríkið að skattleggja óhamingju dreifbýlisins. Ef við þurfum að fá einhverja vöru úr Reykjavík, þar sem innflutningsverslun er nú eða svo til alveg öll, þá þurfum við að fá þetta annaðhvort með skipi eða bíl til okkar heima, hvort sem það er fyrir vestan eða austan eða norðan. Og síðan verður ríkið að fá sín 22% í söluskatt af þessari upphæð. Ég spyr: Finnst mönnum þetta sanngjarnt? Finnst mönnum þetta ekki hrópleg mis­munum á kjörum manna? Ég vildi aðeins skjóta þessu hér fram og gera þessi fáu atriði að umtalsefni, vegna þess að mér finnst að þingheimur mundi komast miklu nær því margumtalaða réttlæti með því að sú till. til þál., sem hér er til umræðu, væri samþykkt — og ekki bara samþykkt, heldur — eins og till. gerir ráð fyrir — verði framkvæmd.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri.