25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hér er vissu­lega hreyft þörfu máli. Og vegna þess, sem sagt var um símann, langar mig til að segja nokkur orð.

Hinn mikli mismunur á langlínusamtölum og innan­bæjarsamtölum er mjög gamall. Hann er allar götur frá því að það þurfti tvær stúlkur og langan vír á milli þeirra til þess að afgreiða eitt samtal, milli Norður- og Suður­lands eða vestur á firði eða hvert það nú var. Síðan er þetta allt saman breytt, þannig að núna er það líklega fyrir símann sjálfan ekki nema helmingi dýrara í tækja­búnaði að tala frá Reykjavík til Akureyrar heldur en innanbæjar í Reykjavík. Tækjabúnaður til þess að tala innanbæjar í Reykjavík kostar einhvers staðar á þriðju milljón kr. á hvert númer og líklega helmingi meira eða kannske þrisvar sinnum meira ef talað er til Akureyrar.

Þessi mikli mismunur, sem allir eru sammála um að sé rangur, afskaplega rangur, því það kostar þrjátíu til fimmtíu sinnum meira að tala norður í land heldur en hér innan bæjar, ætti að vera tvisvar, þrisvar sinnum meira ­stafar eingöngu af fyrirkomulagi á vísitöluútreikningi. Það er alveg sama hvernig reynt er að jafna þetta, það vilja allir jafna þetta, en það rekst allt á vísitöluna. Það er verið að taka 2% af hverri hækkun símans til þess að jafna þetta út, en þetta gengur afskaplega hægt, sorglega hægt, og alltaf er þetta það sama, það er alveg sama hvað gert er, það er alltaf innanbæjarskrefið í Reykjavík sem gildir. Það eina, sem gildir til þess að halda vísitölunni niðri, er að halda því niðri. Ég vildi koma inn á þetta, skýra þetta betur. Það er ekki vegna þess að það sjái ekki hver einasti maður að þetta er rangt.

Þegar þetta bætist svo við gífurlega mikinn mismun á hitakostnaði, þá er mælirinn að verða fullur, eins og hér hefur komið fram. Ég svara spurningu hv. 5. þm. Norðurl. v. um það, hvort þetta sé sanngjarnt, hiklaust neitandi. Það er engin sanngirni í þessu, sér í lagi þegar þetta er heimatilbúið. Það er ekki áfall sem við verðum fyrir að utan, eins og olíuverðshækkanirnar, heldur er þetta hreinlega heimatilbúið vandamál varðandi símann.

Það kom fram hjá hv. flm. þessarar þáltill., að hægt væri að laga þetta á margan hátt. Það er einn máti sem mér finnst vera girnilegur til fróðleiks, og það er að hafa mismunandi persónuafslátt til tekjuskatts. Því persónu­afslátturinn er að hluta, eins og tekjuskatturinn, til þess að jafna kjör fólks. Hann á ekki bara að vera til þess að ná í peninga fyrir ríkið, heldur líka til þess að jafna kjör fólks. Og það að nýta hann í þessum tilgangi væri vissu­lega af hinu góða.