25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að hafa langt mál um þá till. sem hér er til umr. Efnisat­riði hennar eru að mínu viti svo sjálfsögð að í raun og veru þyrfti ekki að deila um það hér, að rétt væri og réttlætanlegt er að slík könnun sem þar er um talað verði gerð.

Það er út af fyrir sig rétt, sem menn hafa komið inn á sumir hverjir, að það eru vandamál hér í Reykjavík eins og eru úti á landsbyggðinni, þó þau séu annars eðlis. Ég hef ekki heyrt neinn þm. kenna Reykvíkingum um þau vandamál sem við er að stríða víðs vegar á landsbyggð­inni. Auðvitað hafa ráðið ferðinni óheillavænleg áhrif stjórnarstefnu margra ríkisstj. langt aftur í tímann. Ég skal ekki fara að rifja það upp, en ég held m.a.s., og það hygg ég að þm. Reykv. gætu verið mér sammálu um að a.m.k. megi segja að þessi þróun hafi skapað Reykjavík mörg vandamál sem ella hefðu ekki komið upp, ef það hefði verið meiri jöfnuður milli landshluta en raun ber vitni.

Ég var nokkuð hissa á ræðu hæstv. félmrh. áðan, ekki síst með tilliti til ræðu flokksbróður hans rétt áður, hv. þm. Helga Seljan. Ég sé ekki hvað er því til fyrirstöðu að Hagstofan reikni út vísitölu eins og hér er um talað, þannig að menn sjái í reynd hver mismunurinn er. Menn hafa deilt og deila enn um hver sá mismunur er. Ég held að það væri æskilegt allra hluta vegna að hann yrði fundinn. Þá fengju menn það svart á hvítu sæju hvaða munur er.

Hæstv. félmrh. sagði áðan, að hann væri sammála því að það þyrfti að jafna mun sem væri milli annars vegar þéttbýlissvæðanna hér og hins vegar hinna dreifðu byggða. En auðvitað verður sá munur ekki jafnaður nema því aðeins að talað verði um hann og fundið verði út hver munurinn er og síðan bót á honum ráðin. Öðru­vísi verður ekkert gert.

Það er út af fyrir sig rétt, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði áðan, að dreifbýlisþingmenn í þeirri merkingu, sem ég hef það orð í, eru í meiri hluta á Alþ., og þeir gætu og hefðu getað haft meiri áhrif á að þessi mismunur væri minni en hann er ef þeir væru betur samstiga í málum. En það verður að viðurkennast að þar hefur á skort. Ég vil því biðja hv. þm. Pétur Sigurðsson að taka það ekki svo að það sé verið að kenna honum eða öðrum Reykvíking­um um hvernig þessi mál hafa verið og eru. Þar eiga a. m. k. aðrir líka hlut að máli, ekki síður.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði áðan að það væri ólíkt hagstæðara að gera út togara — ja, hann sagði: frá heimabyggð flm. Í Reykholti? Ég hygg að hann hafi meint Vestfirði, en hann sagði: frá heimabyggð hv. flm. Ég tók það svo að hann ætti við Vestfirði. Taldi hann hagkvæmara að gera út t.d. togarana þaðan en frá Reykjavík. Ég dreg mjög í efa að hér sé rétt fram haldið. Ætli allur tilkostnaður útgerðarfyrirtækis t.d. vestur á fjörðum eða norður í landi sé ekki miklum mun hærri en hann er á Reykjavíkursvæðinu? Ég hygg að það sé held­ur á hinn veginn, að miklu óhagstæðara sé bæði að gera út togara úti á landsbyggðinni og reka atvinnufyrirtæki þar vegna þess tilkostnaðar sem í kringum það er, því að slík fyrirtæki verða að fá alla sína þjónustu eða svo til alla frá Reykjavíkursvæðinu, og menn vita hvað það kostar úti á landi. Kannske hafði þetta verið rétt hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni hefði hann verið að tala um Reykholt. Það væri nær sanni að hagstæðara væri að gera út togara hér en þar.

Blessuð byggðanefndin hefur komið hér inn í um­ræður. Það er rétt, sem hv. þm. Steinþór Gestsson sagði áðan, að sú nefnd skilaði aldrei áliti eins og hún átti að gera í raun og veru og leggja fyrir þingið. Eigi að síður held ég að margt gagnlegt hafi komið fram í starfi þeirrar nefndar. Eins og var vitnað til áðan af hv. þm. Helga Seljan var það fyrir hennar tilstilli að vísir var gerður að útreikningi á framfærslukostnaði víðar en hér í Reykja­vík. Sá útreikningur sýndi að það er að verulegu leyti óhagstæðara gagnvart framfærslukostnaðinum að búa á hinum ýmsu stöðum út á landi.

Það má vera rétt, sem hæstv. félmrh. sagði áðan, að lífskjör verði aldrei jöfnuð algerlega. En fyrr má nú vera. Nú er svo komið ójöfnuðinum að mikið má gera til að þau verði jöfnuð algerlega. Það er t.d. alveg augljós einn þáttur í sambandi við hinn mikla ójöfnuð, en það er upphitunarkostnaðurinn. Ég hygg að ekki sé fjarri sanni að launamaður t.d. á Vestfjörðum þurfi að þéna sem svarar 1.5 millj. kr. meira bara vegna þess þáttar en t.d. launamaður sem býr á Reykjavíkursvæðinu og nýtur hitaveitu. Það er ekki svo lítið. Þessi eini þáttur kostar þetta eins og málin standa. Vonandi lagast það áður en langt um líður. En nóg er eftir samt.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt hér, — það er verst að Vilmundur er farinn, — en það er komið aftur að því máli sem hann hóf umræður um í dag. Þá voru menn að tala um jöfnun atkvæðisréttar. Ég hygg að það mundi ekki standa á þm. landsbyggðarinnar eða dreifbýliskjör­dæmanna að bjóða að jafna atkvæðisrétt á sama tíma og annar ójöfnuður í landinu milli dregilbýlisins og þéttbýl­isins yrði úr sögunni. Ef hvort tveggja yrði gert samtímis hygg ég að ekki muni standa á dreifbýlisfólki að fallast á slíkt. En meðan menn tala um misvægi atkvæðanna sem mesta óréttlætið í landinu og sjá ekki annað er eðlilega ekki til umræðu af hálfu dreifbýlisfólks að skera upp herör til að minnka áhrif dreifbýlisins í löggjafarsam­komunni.