20.12.1979
Neðri deild: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

9. mál, olíugjald til fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er varla að ég þori hér í stól eftir ræður allra þeirra sérfræðinga sem hér hafa talað um sjávarútvegsmál, hver öðrum færari sjálfsagt eftir röðinni sem þeir komu, og auk þess hef ég sjálfsagt ekki miklu við það að bæta sem hér hefur komið fram. Ég vil þó í tilefni þessara umr. fara örfáum orðum um þetta mál.

Ég get út af fyrir sig tekið undir margt af því sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði áðan. Ég lít t.d. svo á, að í sambandi við grálúðumálið hljóti að hafa átt sér stað hrein mistök. Það hefur verið vísað til þess, að Verðlagsráð hafi jafnað þessu á fisktegundir. Ég hygg að þeim athugasemdum hafi verið komið til Verðlagsráðs, þannig að því sé ljóst hvað hér er um að ræða, og ég vænti þess, að það verði tekið til greina nú á næstunni þegar um þessi mál verður fjallað innan tíðar.

Það er auðvitað út af fyrir sig líka rétt í sambandi við karfamálið, að þar er kominn æðimikill munur.

En aðeins örfá orð út af olíugjaldinu. Ég hef verið þeirrar skoðunar, frá því að það var á sett, að þar væri ekki farin sú rétta leið sem fara ætti til að mæta þeim skakkaföllum sem við urðum fyrir vegna olíuverðshækkunarinnar á sínum tíma. Hvort það hefur leitt til þess, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að menn á Vestfjörðum geti gert út frítt og meira en það, hafi hagnað, skal ég ekki um dæma, en ég vil benda hv. þm. á það, að öllum er frjálst að gera út fyrir vestan ef menn vilja koma þangað, ef það er þessum mun hagstæðara, En ég er sem sagt á því, að þarna hafi ekki verið valin rétta leiðin til að mæta þessum skakkaföllum og það þurfi gaumgæfilega að íhuga breytingu á meðferð þessa máls, ef gjaldinu verður áfram haldið, sem ég hygg að menn séu almennt sammála um að óbreyttu ástandi, að áfram verði haldið á þeirri braut að olíugjaldið í einhverju formi verði áfram. En ég tek undir það, að nauðsynlegt sé að finna raunhæfari leið til að bæta upp þau skakkaföll sem þarna hafa orðið og verða óhjákvæmilega að óbreyttum aðstæðum. Og ég vænti þess, að við frekari skoðun þessa máls verði tekið tillit til þessa.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess, að gerð verði breyting á þessum brbl. á þeim tíma sem þingið hefur til umráða áður en þau falla úr gildi. En mál þetta verður til skoðunar strax um eða upp úr áramótum og þá gefst væntanlega tækifæri til að lagfæra það sem miður hefur farið í framkvæmd málsins á liðnum tíma.