26.03.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

116. mál, fjárlög 1980

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hv. þm. Lárus Jónsson, frsm. minni hl. fjvn., lýsti í ræðu sinni þeirri öfugþróun sem átt hefur sér stað í ríkisfjármálunum á undanförnum árum. Hann hefur hér á Alþingi, m.a. við 1. umr. fjárlaga, rifjað upp gagnrýni sjálfstæðismanna í fjvn. á fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar haustið 1978, en sú gagnrýni á jafnframt við um fyrirliggjandi frv. Í ítarlegu nál. minni hl. fjvn. er því rækilega lýst, hvernig heildarskattbyrðin hefur vaxið jafnt og þétt. Enn fremur er á það bent, hvernig markaðir tekjustofnar eru teknir til almennra nota í ríkisbúskapnum, og þrátt fyrir stórauknar tekjur er frv. langt frá því að vera raunhæft ef ríkisstj. ætlar sér að standa við gefnar yfirlýsingar og loforð. Eitt er þó alveg ljóst og það er að fjárlögin eru verðbólguhvetjandi og þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að þenja út ríkisbáknið.

Í ræðu minni mun ég fyrst fara nokkrum orðum um forsendur fjárlagafrv., síðan fjalla nokkuð um gerð fjárlaga almennt og ýmis viðhorf í þeim efnum, en loks minnast á nokkur einstök atriði frv., sérstaklega þó þau sem snerta fjárveitingar til Reykjavíkur.

Eins og margoft hefur komið fram byggjast verðlags- og kaupgjaldsforsendur frv. á þeirri stefnu ríkisstj. að telja niður verðlag í landinu í áföngum og á því að engar grunnkaupshækkanir eigi sér stað á árinu. Að gefnum þessum forsendum reiknar þjóðhagsstofnun út, að verðbreytingar verði 46.5% milli meðaltala áranna 1979 og 1980, en launahækkanir verði 42.5% á sama bili. Þessar forsendur eru ljóslega rangar þegar litið er til þeirra atburða sem átt hafa sér stað síðan stjórnin tók við völdum.

Í fyrsta lagi hefur Alþýðusamband Íslands lýst því yfir, að láglaunafólk verði að fá grunnkaupshækkanir og ekki komi til greina að verðbætur verði greiddar með sama hlutfalli upp allan launastigann. Þessi sjónarmið hafa nú þegar beðið skipbrot með dómi í kjaradeilu BHM, þar sem viðurkenndur var skýlaus réttur þeirra til fullra verðbóta. Verðbætur verða því varla notaðar til tekjujöfnunar án sérstakrar lagasetningar.

Ríkisstj. hefur í málefnasamningi sínum lýst því yfir, að hún sé tilbúin til að leggja fram 3–5 milljarða á þessu ári til að koma til móts við kröfu launþegasamtaka ef þau sýna hógværð í kröfugerðinni. Þessir fjármunir fyrirfinnast ekki í fjárlagafrv. og verða því að innheimtast með nýjum álögum ef ekki á að koma til verulegur halli á ríkissjóði. Reyndar er hugsanlegt að upplýsingar finnist í lánsfjáráætlun um þetta atriði og er þá verið að ýta vandanum til næstu ára.

Í öðru lagi má leiða getum að því, að forsendur frv. séu rangar, með því að vitna til þeirra umr. sem áttu sér stað á hv. Alþ. fyrir skömmu um væntanlegt fiskverð. Yfirlýsingar ráðh. um hraðara gengissig en frv. gerir ráð fyrir skekkja að sjálfsögðu þann grundvöll sem það hvílir á, og af því leiðir enn meiri verðbólgu en spáð er í frv.

Í þriðja lagi er það algerlega ljóst að niðurtalningarleiðin er ófær nema að nafninu til, enda hafa ráðh. æ ofan í æ ítrekað að frá þeirri reglu séu að sjálfsögðu undantekningar. Verðstöðvunaraðgerðir með þessum hætti eru vonlaus fyrirbrigði, og má benda á að verðbólgan hefur aldrei vaxið meira en þegar verðstöðvunarlög hafa verið í gildi.

Fyrir síðustu kosningar var barist um hvort ráðast ætti að rótum verðbólgunnar með föstum og hörðum hætti eða hvort áfram skyldi reyna smáskammtalækningaaðferðina. Þeir, sem nú sitja í ríkisstj., völdu seinni kostinn. Sá kostur kann að virðast hagfræðilega álitlegur, en er stjórnmálalega vonlaus. Sérhver ríkisstj., sem hyggst ná tökum á efnahagsmálunum, verður að láta til skarar skríða meðan hún hefur tiltrú fólks. Sú ríkisstj., sem nú situr, hefur notað fyrstu vikurnar til að herða skattheimtuna, en hefur engan vilja sýnt til að koma til móts við þá sem vilja endurskoða ríkisreksturinn og beita ríkisfjármálunum sem lið í samræmdum aðgerðum gegn verðbólgunni. Þvert á móti hefur hún valið þá leið sem síðasta ríkisstj. fylgdi dyggilega til dauðadags. Þeir, sem í raun stjórna ferðinni, hafa ekkert lært og engu gleymt.

Ég vil nú víkja fáeinum orðum að fjárlagagerðinni sem slíkri. Eins og hv. frsm. minni hl., Lárus Jónsson, gat um var á sínum tíma mörkuð sú stefna að við gerð fjárlaga og ríkisreiknings skyldi kappkostað að halda öllum liðum inni til að heildaryfirlit fengist yfir fjármál ríkisins í fjárlögum. Núv. ríkisstj. hefur horfið frá þessari stefnu í mikilvægum atriðum. Með þessum orðum á ég t.d. við það athæfi að taka olíustyrkinn út úr frv. Hér er ekki aðeins verið að gagnrýna þau ósköp að taka þá peninga og láta í aðrar óskyldar framkvæmdir og aðgerðir, heldur er aðeins verið að benda á að með því að kippa þessum lið út úr frv. án nokkurrar haldbærrar réttlætingar er verið að koma í veg fyrir að fjárlög sýni ríkisumsvifin í raun.Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp þau rök sem voru fyrir því að áliti hæstv. fjmrh. að þessi liður var tekinn út úr frv., en þau voru á þann veg, að þar sem ekki lægi fyrir nákvæmlega hvað þessi liður yrði stór yrði hann að bíða til betri tíma. Þetta eru auðvitað falsrök hin mestu þegar haft er í huga að allar tekjur í frv. og mikill hluti útgjaldanna er að sjálfsögðu byggt á áætlunum, en ekki á nákvæmum niðurstöðum.

Það kann að þykja sem eggið sé að kenna hænunni þegar ég fjalla um aðferðir við fjárlagagerð. Ég hef þó mér til afsökunar að stundum sér auga nýgræðingsins glöggt, rétt eins og gests augað. Ekki fer á milli mála að fjárlagagerð hefur stórbatnað tæknilega á undanförnum árum. Koma þar einkum til umbótastörf ráðh., hagsýslustjóra, embættismanna og formanna fjvn., sem vinna mikið og óeigingjarnt starf. En það er ekki alltaf nóg að gera hlutina rétt ef við erum ekki að gera réttu hlutina, eins og frægur stjórnunarfræðingur komst einu sinni svo snilldarlega að orði. Ef menn vilja ná árangri verða þeir fyrst að setja sér markmið og síðan að velja leiðir af því. Í fyrirliggjandi fjárlagafrv. finnst ekkert markmið. Bíða, fresta, skulda og vona, virðast vera einkunnarorð frv. Engin alvörutilraun er gerð til að fara ofan í vandamálin og leysa þau. Eina lausn stjórnarinnar felst í aukinni skattheimtu. Hvergi er spurt: Getur ekki verið að aðrir en ríkisvaldið geti þjónað betur því hlutverki sem það hefur hingað til gegnt.

Við sjálfstæðismenn teljum að meginmarkmiðið við gerð fjárlaganna sé að draga úr ríkisútgjöldunum og nota eigi fjárlög sem hagstjórnartæki með því að taka tillit til aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar hverju sinni. Til að ná þessum markmiðum þarf að gera róttækar breytingar á undirbúningi fjárlaga og aðferðum við gerð þeirra. Ég vil nefna nokkur atriði sem fram hafa komið af hálfu sjálfstæðismanna og reyndar annarra á ýmsum tímum.

Í fyrsta lagi þarf að losa um skuldbindandi útgjaldaákvæði í lögum, reglugerðum og samningum. Vegna hins sjálfvirka vaxtar útgjaldanna, sem er afleiðing skuldbindandi útgjaldaákvæða, verða verklegar framkvæmdir afgangsstærð og hún lendir oftast undir hnífnum þegar reynt er að hnýta fyrir hallalaus fjárlög. Þess þarf að gæta að reyna sem oftast að stofna aðeins til tímabundinna útgjalda. Slíkt er vel þekkt víða erlendis við fjárlagagerð að nefna ákveðinn árafjölda í þessu sambandi. Falla þá viðkomandi fjárframlög út af fjárlögum af sjálfu sér að þeim tíma liðnum. Þessi háttur, sem stundum er kallaður sólsetursaðferðin, er mikilvægt tæki fyrir stjórnmálamenn, sem venjulega eru settir í þá stöðu að þurfa að réttlæta sparnaðar- og niðurskurðaráform, í stað þess að þiggjendum fjármagns sé gert að sýna fram á gildi áframhaldandi fjárveitinga. Segja má að sönnunarbyrðinni sé eiginlega snúið við í þessu sambandi.

Í Bandaríkjunum þekkist enn fremur sú regla, að fjárveitingar falli niður til ríkisstofnana sem ekki hafa farið í gegnum úttektarskoðun hagsýslunnar að ákveðnum tíma liðnum frá síðustu skoðun. Þá er mikilvægt að stefnt sé að því að fjárlög séu fremur á verkefnagrundvelli en stofnanagrundvelli. Ég vitna til ummæla formanns fjvn., hv. þm. Eiðs Guðnasonar, þegar hann fjallaði um „núllgrunnsáætlun“ í ræðu sinni fyrr á þessum fundi.

Fjórir þm. Sjálfstfl., eða allir þeir sem kjörnir voru í fjvn. af hálfu flokksins í des. s.l., þ.e. Friðrik Sophusson, hv. þm. Lárus Jónsson, hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson, eru flm. þáltill. á þskj. 131 um þetta mál, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, að fjárveitingar hins opinbera verði óbundnar af fyrri fjárveitingum, þannig að verkefni komi til endurskoðunar frá grunni við fjárlagagerð. Því skorar Alþ. á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að „rekstrar- og fjárhagsáætlanir“ verði svo sem við verður komið reistar á svokölluðum „núllgrunni“.

Í umr. um sparnað og hagræðingu í ríkisrekstrinum hefur margoft verið bent ávanmátt stjórnmálamanna við forgangsröðun verkefna. Þetta stafar öðrum þræði af því að útgjöld ríkisins eru oftast til stofnana og deilda, en sjaldnast til verkefna. Árangur er þá yfirleitt mældur í útgjaldaupphæðum. Í fjárhagsáætlunum og bókhaldi ríkisfyrirtækja og stofnana og reyndar einnig hjá einkafyrirtækjum er meira lagt upp úr því að sýna hve mikið er notað í ýmsa kostnaðarþætti, svo sem laun, launatengd gjöld, símakostnað, rafmagn, ræstingu, aðkeyptan akstur o.s.frv., o.s.frv., en að einangra alla kostnaðarþætti hvers verkefnis sem unnið er að hverju sinni. Stjórnendur einkafyrirtækja og stjórnmálamenn erlendis, sem trúað er fyrir fjármunum almennings, hafa leitað nýrra leiða við fjárlaga- eða fjárhagsáætlunargerð og er núllgrunnsáætlunargerðin ein sú þekktasta þeirra. Ég fagna því þess vegna þegar hv. frsm. meiri hl. n. lýsti yfir stuðningi við þessa aðferð, því að þá er hún með tryggan meiri hl. í fjvn.

Á þessa aðferð er minnst hér því að hún er merkilegt framlag til þeirrar viðleitni að ná betri tökum á fjárlagagerð og koma í veg fyrir það tregðulögmál sem oft ríkir í þeim efnum.

Í nál. minni hl. fjvn. er einnig minnst á nauðsyn þess, að ráðningartími og kjör opinberra starfsmanna verði sveigjanlegri. Hefur reyndar talsvert áunnist í þeim efnum á undanförnum árum. Til þess að ná fram þeim meginmarkmiðum, sem ég lýsti fyrr í ræðu minni, þarf auk þess að útrýma skuldbindandi ákvæðum — að reyna að hámarksnýta fjármagnið sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma. Of mikil dreifing fjármagns veldur oftast því að það festist í hálfköruðum byggingum í allt of langan tíma. Nútímatækni hefur einnig gerbreytt viðhorfum til ráðstöfunar fjármagnsins. Í því sambandi má geta þess, að sífellt vex fasti kostnaðurinn við ýmsar vegaframkvæmdir. Tíður tilflutningur á mönnum og tækjum milli staða getur þýtt að ekkert fé verði eftir til sjálfs vegaviðhaldsins. Á þetta minnist ég hér að gefnu tilefni og beini þessum ummælum mínum sérstaklega til þeirra hv. þm. sem skipta vegafénu innan kjördæma.

Í þriðja lagi er afar nauðsynlegt, ef bæta á fjárlagagerðina, að endurskoða verka- og tekjuskiptingargrundvöll ríkis og sveitarfélaga þannig að ábyrgð og fjármögnun verði meira á sömu hendi en nú er. í nokkrum þáttum rekstrar, en þó fleiri á sviði verklegra framkvæmda, er sameiginleg fjármögnun ríkis og sveitarfélaga. Vegna þessarar sameiginlegu kostnaðarþátttöku verður oft uppi á teningnum skipulagsleysi í framkvæmdum. Sveitarfélög hneigjast stundum til að byggja stærra en nauðsyn krefur, forgangsröðun verkefna getur ráðist af fjármagnsgetu sveitarfélaganna, en alvarlegast er að frumkvæði, ábyrgð og framkvæmd haldast ekki í hendur við fjármögnunina.

Í fjórða lagi vil ég benda á þá leið að fyrrgreindu marki, að þjónustustofnanir ríkisins verði sem mest reknar hallalausar. Það er bókstaflega grátlegt að horfa upp á að sértekjur og þjónustugjöld fái ekki að hækka eingöngu vegna vísitöluáhrifa hækkunarinnar. Nægir að nefna Þjóðleikhúsið í þessu sambandi. Hjá sumum stofnunum hafa þessi mál verið skoðuð og ákveðnar tillögur verið gerðar. Má nefna Rafmagnsveitur ríkisins, sem hafa reynt að flokka útgjöld sín þannig að ljóst sé hver séu af félagslegum toga. Því miður hefur sá galli verið á gjöf Njarðar, að flokkunin hefur nær eingöngu verið byggð á skiptingu í arðbærar framkvæmdir og óarðbærar og þær síðarnefndu síðan kallaðar félagslegar án nokkurs stjórnmálalegs mats á félagslegum tilgangi þeirra. Það stendur þó vonandi til bóta. Í heilbrigðiskerfinu, þar sem viðurkennt er að ríkið eigi að greiða bróðurpartinn af kostnaðinum, verður þess ekki krafist að um hallalausan rekstur sé að ræða, nema á mjög þröngum sviðum. Hitt er svo annað mál, að eflaust má með ýmsum hætti kalla fram kostnaðarvitund almennings og þá jafnframt aðhald að heilbrigðisstofnununum. Mér hefur t.d. verið sagt að í Kanada, þar sem heilbrigðiskostnaður hefur vaxið minna en annars staðar á Vesturlöndum, sé sú regla í gildi að allir neytendur heilbrigðiskerfisins fái sendan reikning fyrir úttekt á hverju ári, en á sama eyðublaði sé tíundað framlag ríkisins á móti. slík aðferð skapar umræður og skilning á því, hvað verður um skattpeningana, og getur þar af leiðandi dregið úr kostnaði. Mér er ljóst að þessi aðferð getur verið varhugaverð á ýmsan hátt, en er þó athyglisverð engu að síður.

Ég mun nú fjalla um örfá atriði 4 gr. fjárlagafrv., en snúa mér síðan að málaflokkum sem snerta Reykjavíkurkjördæmi sérstaklega.

Óþarfi er að ítreka enn einu sinni öll þau gagnrýnisatriði sem fram hafa komið í umr. á Alþingi að undanförnu. Mun ég því sneiða hjá þeim sem mest ég get. Í grg. á bls. 195 um lið 02 872 Lánasjóð ísl. námsmanna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Framlag hækkar um 3 milljarða og 160 millj. kr. og verður tæpir 5.4 milljarðar í heild. Auk þessa framlags verður sjóðnum aflað heimildar til lántöku allt að 1200 millj. kr. Geta sjóðsins til lánveitinga er alls 5.6 milljarðar og styrkveitingar alls 315 millj. kr. og kemur þetta fram í B-hluta frv. Fjárveiting og lántökur eru við það miðaðar, að sjóðurinn geti staðið undir 85% af umframfjárþörf eins og hún er metin af sjóðsstjórn, og er það óbreytt frá gildandi reglu. Fjölgun lánveitinga á áætluninni er miðuð við 15% frá árinu 1979 og verðlagsbreyting milli ára miðast við 45% í samræmi við forsendur um innlent og erlent verðlag og gengisbreytingar. Ef ekki reynist unnt að standa við fyrrgreind skilyrði um lánveitingar er sá varnagli í 6. gr. frv., að heimiluð er lántaka vegna sjóðsins að upphæð 500 millj. kr. auk þeirra 1200 millj. sem fyrr er getið. Afborganir lána og vaxtagreiðslur sjóðsins hafa farið ört vaxandi á síðustu árum. Full ástæða er til þess, að fram fari athugun á fjármálum sjóðsins ekki síst með tilliti til lánsfjármögnunar sjóðsins og endurgreiðslu veittra lána.“

Aðeins er gert ráð fyrir að 130 millj. kr, komi inn sem tekjur sjóðsins, 70 millj. kr. sem endurgreiðslur lána og 60 millj. í vexti. Í skýrslu frá stjórn sjóðsins er gert ráð fyrir að þegar fram í sækir og núgildandi endurgreiðslureglur fara að hafa áhrif muni um það bil 50–60% endurgreiðast. Þetta þýðir að Lánasjóðurinn er farinn að gegna þýðingarmiklu tekjujöfnunarhlutverki, án þess að það hafi í upphafi verið ætlunin, og er auk þess orðinn framfærsluuppspretta sem aðeins hluti borgaranna á aðgang að. Ég tel það augljóst verkefni næstu ára að markmið sjóðsins í lögum og reglur hans verði endurskoðaðar með tilliti til þess sem fram hefur komið. Ef sjóðurinn á að lána alla umframfjárþörf námsmanna verður að tryggja að endurgreiðsluhlutfall verði hærra en núgildandi reglur gera ráð fyrir. Það skal tekið fram, að að sjálfsögðu er vandi Lánasjóðs ísl. námsmanna m.a. til kominn vegna þess að á undanförnum árum hefur sýknt og heilagt verið gripið til þess ráðs að afla fremur fjár með lántökum en gera það beint af fjárlögum sjálfum.

Þetta þýðir að stór hluti útgjalda sjóðsins fer til að standa straum af afborgunum og vöxtum af þessum lánum.

Þá er vert að vekja athygli á því, að í aths. á bls. 206 um lið 06 251 Landhelgisgæsluna er gert ráð fyrir sölu á Árvakri og annarri flugvél Landhelgisgæslunnar. Söluandvirðið er áætlað 395 millj. kr. samtals. Ástæða er til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort gert sé ráð fyrir staðgreiðslu, eins og helst má lesa úr frv. — Ég vil endurtaka það sem ég var að segja, því að ég sá að hæstv. fjmrh. var að huga að öðru, sem eðlilegt er. Ég var að spyrjast fyrir um liðinn um Landhelgisgæsluna, um þær 395 millj. sem er sagt í frv. að séu hugsanleg greiðsla eða söluandvirði, hvernig á því standi að þær komi inn í einu lagi í frv., hvort þar sé búist við staðgreiðslu. Enn fremur er rétt að hann geri grein fyrir sjónarmiðum samgrn. í þessu máli, þar sem Árvakur hefur verið gerður út á vegum Hafna- og vitamálaskrifstofunnar.

Ég minntist fyrr í ræðu minni á nauðsyn þess að fjárveitingar í framtíðinni yrðu sem mest gerðar á verkefnagrundvelli. slíkt fyrirkomulag kostar að sjálfsögðu meiri tíma og samráð, en skilar einnig betri árangri. Ákveðin tilraunastarfsemi hefur farið fram í þessum efnum í sambandi við rannsóknastarfsemina að frumkvæði Rannsóknaráðs ríkisins. Í dag barst fjvn. bréf frá Rannsóknaráði, sem ég tel ástæðu til að lesa til að skýra sjónarmið framkvæmdanefndar ráðsins og varpa jafnframt ljósi á það sem ég hef fyrr í ræðu minni gert að umtalsefni. Þetta bréf hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi þessu vill framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins láta í ljós ánægju sína yfir því, að á s.l. ári við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1980 var tekið upp sérstakt samráð um meðferð fjárveitingabeiðna rannsóknastofnana atvinnuveganna. Var það gert með hliðsjón af langtímaáætlun ráðsins í þeim tilgangi að fjárveitingabeiðnir væru metnar meira út frá efnislegum forsendum og þörfum en áður hefur tíðkast. Tilgangur þessa samráðs er að gera starf stofnananna markvissara og tengja það betur þjóðhagslegum markmiðum, vandamálum og tækifærum atvinnulífsins og færa starf meira á verkefnagrundvöll. Framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs vill hér með fara þess á leit við fjvn., að fram komi í áliti n. til þingsins að ætlunin sé að halda áfram þessu samráði og þróa það frekar svo sem mögulegt er. Telur framkvæmdanefndin mikilvægt að slík staðfesting komi fram um vilja til að vinna áfram á þessum grunni sem lagður er, þannig að vinnubrögð og hugsunarháttur viðkomandi stofnana geti tekið mið af því.

Enda þótt ekki hafi fengist aukning á framlögum til rannsóknastarfsemi á fjárlögum þessa árs umfram kostnaðarhækkanir telur framkvæmdanefndin það nokkurn áfanga að aukinn sveigjanleiki fékkst í notkun sjálfsaflafjár stofnananna, þannig geti stofnanirnar notað tekjur sínar til að auka umsvif sín til að bæta þjónustu við atvinnulífið. Telur nefndin það til bóta að þannig sé hvatt til meiri samskipta stofnana við atvinnulífið sem hér á landi leggur óeðlilega lítið fjármagn til rannsóknastarfsemi. Með þessu móti verða opinberar rannsóknastofnanir jafnframt meira viðskiptalega sinnaðar og gæti það aukið árangur af starfi þeirra. Þá telur nefndin það mikilvægt að stofnanirnar fái sjálfar nokkurt vald á því, hvernig fjárveitingabeiðnir skuli skornar niður til að mæta kröfum fjárlagastefnunnar.

Í sambandi við frekari meðferð þessa máls vill framkvæmdanefndin benda á eftirfarandi:

1. Í grg. með frv. er þess getið, að í 25. gr. laga um stjórn efnahagsmála, nr. 13/1979, segir: „Til stuðnings áætlanagerðar um atvinnuvegina skal efla rannsóknastarfsemi í þeirra þágu með hliðsjón af langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins um það efni, eins og hún verður staðfest af stjórnvöldum.“ Síðan segir í grg.: „Langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins um rannsóknir og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna mun ekki enn hafa verið staðfest af stjórnvöldum. Verði það gert“ o.s.frv. Framkvæmdanefndin telur að með einróma ályktun Alþingis á s.l. vori um, að tekin skuli upp langtímaáætlunargerð fyrir rannsókna- og þróunarstarfsemi og langtímaáætlun Rannsóknaráðs lögð til grundvallar, sé komin raunhæf stefnumótun fyrir rannsóknir í landinu. Sýnist ekki ástæða til að staðfesta og rígbinda einstaka þætti áætlunarinnar með ákveðnari hætti en slíkri stefnuyfirlýsingu, enda verður að vera rúm til endurskoðunar og breytinga milli ára.

2. Vegna þeirrar áherslu, sem í grg. fjárlaga er lögð á orkurannsóknir, hefur framkvæmdanefndin ákveðið að láta gera sérstaka athugun á orkurannsóknaverkefnum í landinu sem unnið er að hjá hinum ýmsu stofnunum. Yrði það raunar þáttur í langtímaáætlanagerð fyrir orkurannsóknir og til leiðbeiningar um forgangsröðun og/eða vanrækt verkefni á því sviði.

3. Við undirbúning fjárlaga fyrir 1981 óskaði framkvæmdanefndin nú eftir samvinnu við fjárlaga- og hagsýslustofnun og undirnefnd fjvn. um að stofnunum verði falið að skila áætlunum á grundvelli verkefna með hliðsjón af því formi sem þróað var á s.l. ári í samvinnu Rannsóknaráðs og stofnananna. Verði þær áætlanir lagðar til grundvallar við samráð varðandi undirbúning fjárlagafrv. fyrir næsta ár.“

Þar með lýkur lestri bréfs frá framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins, sem er dags. í dag. Ég hef lesið þetta bréf vegna þess að það er gott dæmi um það annars vegar, að áhersla er lögð á verkefnabundna stjórnun á fjárveitingunum, og hins vegar kemur þar fram fróm ósk um sveigjanlegri samráð stofnunar og fjvn. við fjárveitingaákvarðanir en hingað til hafa tíðkast.

Ég vil nú leyfa mér í nokkrar mínútur í lok ræðu minnar að gera grein í fáum dráttum fyrir sjónarmiðum Reykjavíkurborgar, sem hefur þá sérstöðu að vera langstærsta sveitarfélagið í landinu.

Á fjórum sviðum stofnkostnaðarframkvæmda renna fjárveitingar úr ríkissjóði til borgarinnar: til grunnskóla, íþróttamannvirkja, dagvistarstofnana og sjúkrahúsa. Skuldir ríkissjóðs vegna sameiginlegra framkvæmda verða ekki lengur taldar í hundruðum millj., heldur milljörðum. Um áramót skuldaði ríkið borginni 167 millj. vegna byggingar dagvistarheimila og Íþróttasjóður skuldaði 162 millj. kr. Eru þá taldir þeir málaflokkar þar sem skuldin er minnst. Sé miðað við höfðatölu hefur Reykjavík minnst borið úr býtum vegna fjárframlaga til skóla. Er þó ekki verið að kvarta undan því að aðrir fái hlutfallslega meira. Til þess geta legið eðlilegar ástæður. Engin ástæða er til þess heldur að kvarta undan fjárveitingum til grunnskólanna. — En vegna fjárveitinga til E-álmu Fjölbrautaskólans í Breiðholti er rétt að taka fram, að það er skilningur hv. fjvn. að Reykjavíkurborg sé heimilt að fara af stað með framkvæmdir á eigin ábyrgð þrátt fyrir að slíkt sé ekki orðað með berum hætti á bls. 192 í aths. frv.

Sá málaflokkur sameiginlegra framkvæmda, sem án efa er í mestum ólestri, er bygging sjúkrahúsa. Áætluð skuld ríkissjóðs vegna byggingar heilbrigðisstofnana Reykjavíkurborgar einnar er u.þ.b. 850 millj. kr., sem mætti ugglaust þrefalda ef verðbætur væru reiknaðar í öllum tilfellum. Það er því alger nauðsyn að borg og ríki geri með sér samning um greiðslu á ógreiddum hluta ríkissjóðs ásamt einhverjum verðbótum vegna framkvæmda við sjúkrastofnanir Reykjavíkurborgar. Þess vegna er nú unnið að tillögum að texta sem mundi koma í 6. gr. frv., en nánari grein verður gerð fyrir því máli við 3. umr. þar sem fjvn. hefur enn ekki gert brtt. við heimildagreinina.

Ég hef verið í sambandi við heilbrigðismálaráð Reykjavíkurlæknishéraðs. Undir það falla, auk sjúkrastofnana borgarinnar: Landspítalinn, Landaskotsspítali, Kleppsspítali, Grund, DAS, Rauði krossinn og stöð SÁÁ. Ég tel eðlilegt að skýra nokkuð stöðu ráðsins og viðhorf varðandi fjárveitingar, enda snertir það einnig aðferð við gerð fjárlaga.

Fjárveitingar ríkissjóðs til stofnkostnaðar á sviði heilbrigðismála í Reykjavíkurhéraði hafa á undanförnum árum verið óeðlilega lágar og í engu samræmi við umfang þeirrar þjónustu sem hér er veitt. Hefur þetta leitt til stöðnunar í þróun sjúkrastofnana og til neyðarástands á sviði hjúkrunar og langlegu aldraðra. Hlutur Reykjavíkurlæknishéraðs í heildarfjárveitingu ríkisins til heilsugæslustöðva frá 1974 nemur einungis um 4% eða tífalt lægri upphæð en vera ætti ef miðað væri við íbúafjölda. Mig langar til að lesa hér smákafla úr skýrslu sem Skúli Johnsen borgarlæknir sendi fjvn. og gerir í örstuttu máli grein fyrir því, að hve miklu leyti sjúkrastofnanir Reykjavíkurborgar og í Reykjavíkurlæknishéraði þjóna einnig sjúklingum sem búsettir eru í öðrum kjördæmum. Með leyfi forseta hljóðar sá kafli úr skýrslunni á þessa leið:

„Í héraðinu starfa eingöngu deildaskipt sjúkrahús og hjúkrunarstofnanir, en ekki almenn sjúkrahús. Fjölmennið á stór-Reykjavíkursvæðinu gerir mögulegt að reka þá sérhæfðu sjúkrahúsþjónustu ásamt stoðdeildum og fjölmörgum rannsóknastofum sem landinu öllu er nauðsynleg og er m.a. grundvöllur læknakennslu.“ — Þess má geta, að Landspítalinn er einmitt háskólasjúkrahús.

„Sjúkrahúsin í Reykjavík þjóna öllu landinu og utanhéraðssjúklingar nota 40% af legurými þeirra. Íbúar héraðsins nota afar lítið legurými í öðrum héruðum. Íbúar annarra héraða nýta sjúkrahúsin í Reykjavík í mismunandi mæli. 3/4 af sjúkrarúmaþörf íbúa Reykjaneshéraðs er fullnægt í Reykjavík, 2/3 af sjúkrarúmaþörf Suðurlandshéraðs og fimmtungi af sjúkrarúmaþörf íbúa Norðurlands eystra og Austurlands er fullnægt hér. Hlutur utanhéraðssjúklinga á sjúkrahúsum héraðsins hefur farið hægt vaxandi undanfarin ár. Heildarfjöldi sjúklinga, sem nutu meðhöndlunar á deildaskiptum sjúkrahúsum á landinu 1975, var 25 900, þar af á sjúkrahúsum í Reykjavík 20 200 eða tæp 80%. Sjúkrahús héraðsins annast um það bil 70% af heildarsjúklingafjölda sem vistaður er á landinu í heild vegna líkamssjúkdóma á almennum og deildaskiptum sjúkrahúsum.“

Reykjavíkurborg hefur ekki setið við sama borð og önnur sveitarfélög varðandi framkvæmd laga um opinberar framkvæmdir. Að áliti formanns heilbrigðismálaráðs hefur Reykjavík beinlínis verið hegnt fyrir að vilja hafa úfboð og framkvæmdir á eigin hendi, jafnvel þótt lögin geri skýlaust ráð fyrir að sameiginlegar framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga séu í höndum sveitarfélags, sérstaklega þegar nægileg reynsla, aðstaða og mannafli er fyrir hendi í sveitarfélaginu. Reykjavík stendur að þessu leyti síst að baki viðkomandi ríkisstofnun.

Með lögum nr. 57/1978 voru stofnuð heilbrigðismálaráð er skyldu fara með stjórn heilbrigðismála í læknishéruðum. Ráðin skulu gera tillögur um forgang og framkvæmd verkefna í héraðinu og annast gerð árlegra fjárhags- og framkvæmdaáætlana vegna undirbúnings fjárlaga. Ætlunin mun vera í framtíðinni að þessir aðilar taki við hlutverki sjúkrasamlags og sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins að þessu leyti. Heilbrigðismálaráð Reykjavíkurhéraðs lagði fyrir fjvn. rökstuðning þess efnis, að samkv. viðurkenndum viðmiðunarþáttum ætti hlutur Reykjavíkurhéraðs í heildarfjárveitingum til stofnkostnaðar á sviði heilbrigðismála að vera 55–60%, en ekki 38% eins og verið hefur að meðaltali undanfarin ár. Lagður var fram listi yfir óskir stofnana í Reykjavíkurhéraði um fjárveitingar á sviði heilbrigðismála, sem námu um það bil 4 milljörðum kr. Þetta er dæmi um hve mikið þarf að skera niður í sjálfri fjvn.

Samkomulag varð um það í fjvn. á s.l. hausti, að tillögur ráðsins um forgang og framkvæmdir kæmu fram þegar umfjöllun fjvn. um þennan fjárlagalið væri það langt á veg komin að séð væri hver hlutur héraðsins í fjárveitingum-yrði á næstu fjárlögum. Heilbrigðismálaráð taldi ekki mögulegt að gera tillögur um forgang og framkvæmd verkefna fyrr en þessar upplýsingar lægju fyrir. Þær eru breytilegar eftir því hver upphæðin er. Því miður gafst ekki tækifæri til að standa að fjárveitingum til Reykjavíkurlæknishéraðs með þessum hætti nú, en finna verður leið til að koma í veg fyrir misræmi í fjárveitingum innan héraðsins. Virðast tvíverknaður og skortur á samstarfi sjúkrahúsanna vera nokkur þrándur í götu.

Samkv. fjárl. eru fjárveitingar til stofnkostnaðar heilbrigðismála í Reykjavíkurhéraði í tveimur liðum. Annars vegar eru fjárveitingar vegna Landspítala og Kleppsspítala, þ.e. ríkisspítalanna, sem ríkissjóður greiðir að fullu, og hins vegar heildarfjárlagaliðurinn til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á vegum sveitarfélaga sem ríkissjóður greiðir 85% af. Þessi skipting veldur erfiðleikum í sambandi við niðurröðun verkefna af hálfu heilbrigðismálaráðs, þar sem fjárveitingavaldið hefur þegar ákveðið hlut stofnana ríkisins innanhéraðs.

Þessum viðhorfum vildi ég koma á framfæri vegna sérstöðu Reykjavíkurlæknishéraðs.

Mér er ljóst að fjárlagafrv. gerir engan veginn ráð fyrir að hægt sé að standa í skilum fyrir ýmsar heilbrigðisstofnanir í Reykjavík, og ég vil einkum nefna Landakotsspítala í því sambandi, en vonandi verður það leyst við 3. umr.

Ég hef aðeins rætt um stofnkostnað og framkvæmdir við sjúkrahús í Reykjavík. Ástæða hefði verið að ræða reksturinn, en það verður ekki gert að sinni.

Herra forseti. Ég hef gert nokkra grein fyrir viðhorfum minni hl. fjvn. til viðbótar þeim sem komu fram hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni. Enn fremur hef ég gert Reykjavíkursjónarmið að umtalsefni, ekki til að kvarta yfir slæmri meðferð, heldur til að skýra þá erfiðleika sem upp koma í samskiptum ríkisins og þess sveitarfélags sem er langstærst í landinu. Ég vil að öðru leyti vísa til nál. minni hl. n., sem við stöndum að sjálfstæðismennirnir sem erum í stjórnarandstöðu í n. Það eru auk mín þeir hv. þm. Lárus Jónsson og Guðmundur Karlsson.

Ég vil sérstaklega benda á í því nál., sem við höfum lagt fram á þskj. 233, þá þætti sem nefndir eru á bls. 7, en þar koma fram þau atriði sem við viljum leggja sérstaka áherslu á í sambandi við fjármál ríkisins. Þar kemur m.a. fram, svo að ég nefni eitt af fimm atriðunum, að við teljum að Alþ. eigi að vera sköpuð skilyrði til að hafa eftirlit með fjármálum ríkisins á þann veg að færa ríkisendurskoðun til Alþ. og fjvn. starfi meira að undirbúningi fjárlagafrv. og eftirliti með framkvæmd fjárlaganna.

Að síðustu vil ég leggja áherslu á það, sem jafnframt kom fram í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar, að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir að afgreiða þetta mál frá þinginu fyrir páska með því skilyrði að fram sé lögð lánsfjáráætlun sem skylda er að leggja fram samkv. IV. kafla í lögum nr. 13 frá 1979, en í þeim kafla svokallaðra Ólafslaga er fjallað ítarlega um þetta atriði og sagt nákvæmlega hvaða atriði eiga að koma fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni. Það er óhugsandi að standa að lokaafgreiðslu fjárlaga hér á hv. Alþ. án þess að fá verulegar upplýsingar um það sem hlýtur að koma fram í lánsfjáráætlun, vegna þess að í henni koma fram þau atriði sem marka að verulegu leyti fjárlagagerð næstu ára. Í þeirri von, að eftir þessum skilyrðum verði farið, legg ég áherslu enn frekar á þau atriði sem koma fram í nál.