26.03.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

116. mál, fjárlög 1980

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú búið að segja æðimikið um það mál, sem hér er á dagskrá, og kannske ekki miklu þar við að bæta, enda skal ég ekki vera langorður að þessu sinni. En mig langar til þess að fara hér fáum orðum um nokkur atriði.

Það hefur komið fram í umr. í dag um þetta mál, og hefur raunar komið fram áður í umr., hversu óvenjulegt ástand er ríkjandi hér á Alþ. eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Allt er það rétt sem um þetta hefur verið sagt. En það er fleira óvenjulegt hér á Alþ. núna, miðað við það sem áður hefur verið, og örugglega langt að leita eftir fordæmi, ef nokkurt slíkt fordæmi fyndist. Og það hlýtur að vekja athygli. Þar á ég við að það er óvenjulegt að stjórnarandstöðuflokkur á Alþ. sýni jafnmikla ábyrgðatilfinningu, við afgreiðslu fjárlaga, eins og Alþfl. sýnir að þessu sinni við afgreiðslu þessara fjárlaga. Að þessu sinni, já, ég sagði það. Hann hefur verið misjafnlega ábyrgðarmikill eins og aðrir flokkar. En ég hygg að menn taki eftir því, að það er óvenjulegt við afgreiðslu fjárlaga hér á Alþ. að stjórnarandstöðuflokkur leggi til niðurskurð í heildarfjárveitingum í sambandi við fjárlögin til móts við þær tillögur sem hann gerir um hækkun. Og spyrji nú hver sig í hinum stjórnmálaflokkunum, sem fulltrúa eiga hér á Alþ., hvort þeir minnist þess, að þeirra flokkar hafi í heild sýnt slíka ábyrgðartilfinningu eins og Alþfl. gerir að þessu sinni. (Gripið frsm í: Þetta hefur oft verið gert, hv. þm.) Það er rangt hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni, að hann geti bent á mörg dæmi þess, jafnvel ekki eitt, enda gengur hv. þm. úr salnum, hann vill ekki heyra meira. Ég hygg að leita þurfi langt til þess að finna svona ábyrgð hjá stjórnarandstöðuflokki. Þetta er eitt af því óvenjulega við störf Alþingis að þessu sinni. Og þetta er í þeim anda sem Alþfl. hefur lofað að starfa og ætlar að standa við, að breyta þjóðmálabaráttunni frá því, sem hún hefur verið, til hins betra, að hún verði ábyrgðarmeiri en hún hefur verið, því að æðimörgum er farið að þykja nóg um hversu ótrúlega lítil ábyrgð hefur fylgt þjóðmálabaráttu á Íslandi á mörgum undanförnum árum og áratugum. Ég hygg, hvað sem líður frammígripi hv. þm. Péturs Sigurðssonar áðan, að almennt verði tekið eftir þessu, sem er óvenjulegt við meðferð fjárlaga á Alþingi.

Eins og ég sagði áðan, þá hefur mikið verið rætt um það fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj. sem nú er til 2. umr. Ég hygg að það séu einkum þrjú eða fjögur atriði sem mesta athygli vekja. Það er í fyrsta lagi, að með þessu fjárlagafrv. er stórkostlega aukin skattheimta af almenningi í landinu. Það er augljóst mál, að mikil hækkun á að verða á tekjuskatti launafólks almennt samkv. þeirri stefnu sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur boðað með því fjárlagafrv., sem nú er til umr., og með því frv., sem hér var dreift í gær, um skattstiga sem eiga að gilda. Þetta vekur því meiri eftirtekt þegar sama fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. boðar 4.5% kjaraskerðingu hjá launafólki í landinu á sama tíma og skattheimta á þessu sama fólki er stórkostlega aukin.

Það hlýtur líka að vekja athygli, að á sama tíma og hæstv. ríkisstj. boðar aðhald hjá launafólki og almenningi í landinu skuli ekki mega eygja neins staðar aðhald í ríkisrekstrinum sjálfum. Það væri ekki til mikils mælst á tímum sem þeim sem við lifum í dag, að hæstv. ríkisstj. gengi á undan með aðhaldsstefnu, þó ekki væri nema að mjög litlu og takmörkuðu leyti, í þeim anda sem hún ætlast til að almenningur í landinu geri.

Miðað við það, sem hér hefur verið sagt að sé rauður þráður í gegnum fjárlagafrv., þ.e. aukin skattbyrði, þá hlýtur það líka að vekja athygli launafólks, að þar er gert ráð fyrir að engar grunnkaupshækkanir eigi sér stað á þessu ári. Slíkt viðhorf væri út af fyrir sig skiljanlegt hjá hæstv. ríkisstj., ef hún á móti sýndi fram á að hún ætlaði sjálf að draga saman seglin í ríkisrekstrinum, minnka skattbyrði í stað þess að auka hana og draga saman seglin í ríkisrekstrinum. En því miður er ekki hægt að sjá á því fjárlagafrv., sem hér er til umr., að neitt slíkt sé í vændum hjá hæstv. ríkisstj.

Það hlýtur líka að hafa vakið óskipta athygli þess fólks, sem býr við ofurþunga af kyndingu híbýla sinna með olíu, að horfa upp á það, að hæstv. ríkisstj. hefur kippt út úr fjárlagafrv. framlagi sem nam á þriðja milljarð kr. og ætlað var til þess að létta á þeim aðilum sem við þessi örðugu kjör verða að búa. Það skal hins vegar viðurkennt, að sú upphæð hefði dugað að litlu leyti til þess arna. Þar hefði þurft að koma mikið fé til viðbótar. En hæstv. ríkisstj. hefur tekið þetta fjármagn til annarra hluta í eyðslunni og boðar síðan aukna skattheimtu til þess að ná þessu upp.

Auðvitað mætti fara mörgum fleiri orðum um marga þætti fjárlagafrv., en ég skal ekki eyða löngu máli í það. Það hefur verið rækilega undirstrikað af fulltrúa Alþfl. í umr. hér í dag, hver afstaða flokksins er til frv., eins og það liggur fyrir, og hvaða breytingar Alþfl. leggur til að gerðar verði á frv. — og taki menn eftir því: ekki til hækkunar heildarniðurstöðutalna, heldur með millifærslu og niðurskurði á liðum á móti því sem flokkurinn leggur til að gert verði í hækkunartillögum.

Þó er kannske eitt atriði sem ástæða er til að vekja sérstaka athygli á í sambandi við till. Alþfl. um niðurskurð. Það þykir sjálfsagt ekki henta þeim, sem fyrst og fremst hugsa um atkvæðisveiðar í nútímaþjóðfélagi, að leggja til jafnstórkostlegan niðurskurð — ég kalla það stórkostlegan niðurskurð miðað við kringumstæður — og Alþfl. leggur til á framlögum til Lánasjóðs ísl. námsmanna. En þrátt fyrir þann niðurskurð, sem þar er lagður til, hækkar framlag fjárlagafrv. samkv. till. Alþfl. til Lánasjóðs ísl. námsmanna að sama skapi og verðlagsbreytingar hafa orðið á milli ára. Þetta er örugglega ekkert vinsælt, en eigi að síður gert, einmitt vegna þess að Alþfl. viðurkennir þann vanda í efnahagsmálum, sem þjóðin á við að búa, og vill standa við þau gefnu fyrirheit að breyta þeim vinnubrögðum og viðhorfum sem ríkt hafa í þjóðfélaginu í sambandi við stefnuna í efnahagsmálum.

Það er ástæða til þess að taka undir það, sem bæði síðasti hv. ræðumaður vék að og raunar fleiri hafa gert hér í dag, að það er nánast móðgun við Alþ. af hálfu hæstv. ríkisstj., að svo mörg göt, óuppfyllt, eru í því fjárlagafrv. sem hér er til umr., að það er raunar ekki hægt að sjá neina niðurstöðu í málinu með því að afgreiða frv. eins og lagt er til að hér verði gert. Lögum samkv. á að leggja fram lánsfjáráætlun samhliða fjárlagafrv. hér á Alþ. Þetta hefur enn ekki verið gert. Og a.m.k. veit stjórnarandstaðan ekki hvort lánsfjáráætlunin verður lögð fram áður en fjárlög verða afgreidd frá Alþ. En það er auðvitað nauðsynlegt til þess að menn geti gert sér grein fyrir heildarmálinu, að lánsfjáráætlun sé sýnd og rædd jafnhliða því sem fjárlög eru afgreidd.

Það er líka augljóst mál, ef marka má ummæli einstakra hæstv. ráðh., að stórkostleg skattlagning á eftir að eiga sér stað eftir afgreiðslu fjárlaga ef fram heldur sem horfir. Það er því ekki enn séð fyrir endann á því, hversu mikið verður aukin skattbyrði á launafólki eða almenningi í landinu, miðað við þá stefnu sem hæstv. ríkisstj. virðist ætla að hafa í efnahagsmálum.

Ég vil líka minna á það, að í núv. fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir því, eða a.m.k. sést það ekki, að standa við gefin fyrirheit gagnvart sjómannastéttinni um framlög vegna félagsmálapakka sjómanna sem lofað var á sínum tíma. (GS: Þú segir ekki eitt í dag og annað á morgun, Karvel?) Þú veist ekkert hvað ég kann að segja á morgun. En ég er ekkert hissa á því, þó að þetta sjáist ekki í fjárlagafrv. núv. hæstv. fjmrh., því það var einmitt þessi sami hæstv. ráðh. sem kom því aldrei í verk í fyrrv. ríkisstj., sem var þó á hans valdi og átti að framkvæma, að standa við gefin fyrirheit í garð sjómannastéttarinnar um félagsmálapakkann. Það var svikið þá af þeim hæstv. ráðh., og það er greinilegt að þessi hinn sami hæstv. ráðh. ætlar að svíkja það líka núna. Og það er hæstv. ráðh. Alþb., núverandi og fyrrverandi.

Eins og hv. þm. Matthías Bjarnason vék hér að áðan, þá stöndum við nokkrir þingmenn Vestf. að brtt. varðandi einn málaflokk, heilbrigðismálin, og varða fjárveitingar í Vestfjarðakjördæmi. Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði um þau mál áðan, en ég vil þó aðeins ítreka og gera grein fyrir því, að t.d. varðandi það sem hann sagði um Bolungarvík, um endurbætur þar á sjúkraskýlinu, þá er því verki að verða lokið. Það verk er unnið í fullu samráði og með samþykki heilbrmrn. — Í von og raunar með loforði um að fjárveiting yrði til þeirrar framkvæmdar á árinu 1980. Og það er augljóst mál, að þegar slíkt er framkvæmt með samþykki og í fullu samráði við viðkomandi rn., þá er óeðlilegt af Alþ. að standa þannig að málum, að ekki sé tekið tillit til þess þegar lokið er eða að verða lokið framkvæmd í viðkomandi flokki sem viðkomandi sveitarfélag er búið að leggja út fjármagn fyrir.

Sama má raunar segja varðandi heilbrigðismálin á Flateyri. Þar er um að ræða að allverulegu leyti fjárhæð sem það sveitarfélag er búið að leggja út vegna tækjakaupa, og gerði það í trausti þess að fjárveiting fengist á fjárlögum 1980 til þess að standa við hluta ríkissjóðs af því. Það verður því að teljast mjög óeðlilegt af fjárveitingavaldinu að taka ekki tillit til slíkra hluta, enda er hér ekki um að ræða fjárhæðir sem skipta sköpum varðandi fjárlögin eða stöðu ríkissjóðs. En þetta skiptir miklu fyrir þessi tilteknu litlu sveitarfélög sem hafa úr mjög takmörkuðu fjármagni að spila til þess að leggja út fyrir ríkissjóð og standa undir.

Hv. þm. Matthías Bjarnason vakti athygli á því, að á sama tíma og heildarframlög til heilbrigðisþjónustu hækka frá fjárlögum ársins 1979 til þess frv. sem hér liggur nú fyrir til umræðu um 1200 millj. kr. rúmlega, þá er heilbrigðisþátturinn á Vestfjörðum skorinn niður um rúmar 80 millj. kr., þó að viðurkennt hljóti að vera af öllum, að sumir staðir, sem þar um ræðir, séu ákaflega afskekktir, eins og réttilega var bent á af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni. T.d. er Hólmavík einhver afskekktasti staðurinn og á samkvæmt lögum að njóta forgangs í fjárveitingum í þessum málaflokki. Þrátt fyrir það er þessi landshluti skorinn niður í fjárveitingum um rúmar 80 millj. kr. frá fjárlögum ársins 1979, miðað við það sem hér er lagt til, á sama tíma og heildarupphæðin til málaflokksins er hækkuð um 1200 millj. kr.

Auðvitað er slíkt ranglæti hér á ferðinni, að Vestfirðingar geta alls ekki við það unað. Og ég trúi því satt að segja ekki fyrr en á reynir, að almennt séu þm. ekki svo réttsýnir að þeir sjái að hér hafa orðið á mistök.

Okkur er ljóst að það er nánast óframkvæmanlegt að taka fjárveitingar frá öðrum kjördæmum til þess að bæta þetta upp, enda dettur okkur ekki í hug að fara fram á það. En það er ekki til of mikils mælst, miðað við ríkjandi kringumstæður á Vestfjörðum í þessum veigamikla þætti, sem er heilbrigðisþjónustan, þó að við ætlumst til þess að við séum meðhöndlaðir á svipaðan hátt og aðrir landsmenn. Við erum ekki að fara fram á meira.

Ég vænti þess því, að hv. þm. — og auðvitað er þá fyrst og fremst höfðað til stjórnarliða hér á Alþ. — viðurkenni þetta sjónarmið okkar, að hér er ekki nægilega réttlátlega skipt til þess að hægt sé að ætlast til þess að við getum unað þessari skiptingu. Ég vænti þess því að þetta mál verði af hálfu fjvn. og hæstv. ríkisstj. skoðað í ljósi þess og menn komist að þeirri niðurstöðu, að við þingmenn Vestf. séum ekki með óeðlilega miklar óskir eða kröfur. Við gerum okkur ljóst, að það vantar víða fjármagn, en við ætlumst til þess, að því fjármagni, sem er til skipta, sé skipt nokkuð réttlátlega, a.m.k. þannig að ekki sé mjög á hlut annars gengið, eins og er greinilega um að ræða í sambandi við fjárveitingar til Vestfjarða til heilbrigðismála eins og till. liggja nú fyrir. Vonandi fæst á því breyting. Ég treysti því að svo verði. Ég veit að þm. almennt eru réttsýnir, og ef þeir sjá og sannfærast um það, að hér hafi orðið óæskileg mistök, þá treysti ég því, að menn séu reiðubúnir til að bæta úr því.