26.03.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

116. mál, fjárlög 1980

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm. þurfti auðvitað að hafa eitthvað til að miklast af í ræðustól, og nú var það ábyrgðartilfinning krata á Alþingi Íslendinga sem var aðaltilefnið. Ekki skal ég lasta þá fyrir að hafa ekki komið með fleiri óábyrgar brtt. hér en vænta mátti. En ég verð að segja það hér í upphafi, að það kom mér dálitið einkennilega fyrir sjónir þegar hv. form. fjvn., Eiður Guðnason, mælti með töluverðum sannfæringarþunga fyrir áliti meira hl. fjvn., með fyrirvara þó skrifaði hann undir, en gerir síðan brtt. upp á fjóra milljarða, svo að fyrirvarinn var nú í vænna lagi. Ég ætla ekki að fjölyrða um það, og ég ætla ekki að fjölyrða um fjárlagafrv, sem heild, til þess skortir mig yfirsýn, ég hef komið hér inn í miðja fjárlagaumræðu og margt er mjög á huldu og óljóst fyrir mönnum. En það eru aðeins fá atriði sem ég vil drepa á.

Þá vil ég byrja á því að taka heils hugar undir mál hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem talaði hér um málefni Framkvæmdasjóðs öryrkja og í því sambandi um málefni vangefins fólks og þroskaheftra. Þar hefur farið ákaflega illa fyrir góðu máli, og ég þarf ekki að skýra það frekar, hún rökstuddi sitt mál mjög vel. En að skorið skuli vera niður fé þessa nýstofnaða sjóðs um 50%, það er sannarlega dapurlegt. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. finni einhver ráð til að bæta hér úr því sem miður hefur farið og mjög miður nú í gerð fjárlaga.

Varðandi brtt. þá, sem ég stend að með öðrum þm. Vestf., þarf ég ekki heldur að hafa mörg orð. Ég vil sérstaklega vekja athygli á málum Hólmavíkur. Það er enginn vafi á því, að þarna er eitt hið afskekktasta byggðarlag og mest þurfi fyrir að eftir því sé munað af samfélaginu. Ég á hér við Hólmavík, þar sem farið er fram á 20 millj. til viðbótar við 10, sem áttu að ganga til undirbúnings að heilsugæslustöð. Þessi fjárveiting til viðbótar, 20 millj., mundi verða til þess að í framkvæmdir yrði ráðist. Það er lengi búið að bíða þarna nyrðra eftir þessari viðbótarbyggingu við sjúkraskýlið sem þarna er nú.

Á þessu sama þskj., 237, er brtt. frá Pétri Sigurðssyni o.fl. þar sem lagt er til að samtök áhugamanna um áfengisbölið fái 10 millj. í stað 8. Ég hygg að þessi áhugamannasamtök hafi sannað, svo ekki verði um villst, að þau hafa unnið stórkostlega gott hugsjónastarf á þeim stutta tíma síðan þau voru stofnuð. Því treysti ég að þm. sjái sér fært að styðja þessa till., þessa 2 millj. kr. hækkun til Samtaka áhugamanna um áfengisbölið.

Þá er ég komin að því máli sem mér lá nú einna þyngst á hjarta, og það er mál sem virðist hafa gleymst á hinu háa Alþingi nú að undanförnu. Þetta eru sjónvarpsmálin. Fyrir nokkrum árum urðu miklar umræður um það, að afla þyrfti tekna fyrir Ríkisútvarpið til þess að reyna að bæta dreifikerfi sjónvarps. Voru þá sérstaklega höfð í huga þau sveitabýli á landinu sem ekki njóta enn þess menningartækis sem sjónvarpið óneitanlega er. Þessi býli munu vera um 300 talsins. Á sínum tíma hér á Alþ. var ég andsnúin því að hafinn yrði innflutningur litasjónvarpstækja með töluverðum kostnaði sem til þess þurfti. Mér snerist þó hugur þegar málið lá þannig fyrir, að aðflutningsgjöld öll og tollar af litsjónvarpstækjum skyldu renna til þess að bæta dreifikerfið og til að gera átak til að koma þessu tæki, sjónvarpinu, inn á hvern sveitabæ, þar sem möguleikar voru á annað borð fyrir hendi.

Tekjur af innflutningi litsjónvarpstækja urðu meiri en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona, og þetta fór allt mjög vel af stað árið 1977. Þá fékk sjónvarpið til framkvæmda 250 millj. af 318 sem inn komu sem aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum og þá að yfirgnæfandi meiri hluta litsjónvarpstækjum. Síðan hefur hallað á ógæfuhlið. Árið 1978 fékk sjónvarpið til ráðstöfunar 340 millj. af 1175 sem komu inn í ríkissjóð sem tollar og aðflutningsgjöld. Árið 1979 fékk Ríkisútvarpið sömu upphæð, 340 millj. af 1057 millj. sem ríkissjóður fékk í tolla. Á þessu ári er áætlaður 1 milljarður í tekjur til ríkissjóðs af þessum sama lið, af tollum og aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum, en það fer ekkert af því til Ríkisútvarpsins til þess að standa straum af öllum þeim framkvæmdum sem aðkallandi eru og ráðgert hafði verið að ráðast í, með tilliti til fyrirheita sem gefin höfðu verið á Alþ. þegar stofnað var til litasjónvarps á Íslandi.

Þetta er hörmuleg framvinda í þessu máli. Ég þarf ekki að fjasa um það hér, það hljóta allir að vera sammála um það, að hvergi á sjónvarpið meiri rétt á sér og er nauðsynlegra heldur en í mesta fámenninu, þar sem tækifæri til félagslífs og menningarlífs eru af hvað skornustum skammti.

Ég mun ekki flytja brtt. í þá átt að fá þetta leiðrétt, af því að ég veit einfaldlega að það mundi ekkert þýða. En ég neita því ekki, að sá liður, sem mér helst mundi koma til hugar að höggva í, eru framlögin í Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er alveg rétt, það er ekki vinsælt mál, ég veit það, að setja sig upp á móti ríflegri hækkun til námsmanna. Það er margt sem námsmenn benda á sem rökstuðning í sínu máli, m.a. það illu heilli, að stúdentar við Háskóla Íslands eiga æ erfiðara með að afla sér tekna á sumrin margir hverjir, vegna þess að námið í Háskólanum er orðið þannig að þeir neyðast til að stunda nám um sumarið líka. En það er hér eins og annars staðar í okkar þjóðfélagskerfi, það er þessi óheillavænlega þróun að láta lög og reglur allar ganga alltaf jafnt yfir alla línuna án þess að taka tillit til raunverulegra þarfa. Þetta á líka við um almannatryggingakerfið okkar, sem ég hygg að mætti spara stórlega í án þess að skerða aðstoð til þeirra sem raunverulega þurfa samfélagslegrar aðstoðar með.

Ég vil benda á það, og mér finnst það sláandi og dálítið óhugnanleg tala, að á sama tíma og framlög ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna hækkar nú milli ára um 141.3% — sem er náttúrlega hækkun sem er ekkert sambærileg við neitt annað í þessum fjárlögum — þá eru gefin fyrirheit um að í júní n.k. muni tryggingabætur til ellilífeyrisþega og öryrkja hækka um 5%. Ég læt hv. alþm. um að dæma hvort þetta getur talist eðlilegt. Eins og það snýr að mér sem tölur á blaði, þá finnst mér það fráleitt. En þetta stendur skýrum stöfum í fjárlagafrv., í athugasemdum á bls. 173.

Það er annar málaflokkur hér sem hér hefur löngum legið þungt á hjarta, og það eru vegamálin. Ég sé að tveir þm., Steinþór Gestsson og Sverrir Hermannsson, gera till. um að 1500 millj. af upphæð, sem ætluð er lánasjóðnum, renni til vegamála. Það er engin furða þó að þeir, sem best þekkja til þess ófremdarástands sem ríkir í vegamálum víða úti um landið, líti dálítið hnuggnir til þess að vegafé til nýbyggingar vega skuli skerðast um 56% að raungildi. Það verða einhverjir fyrir vonbrigðum með vegabætur hjá sér ef við þetta verður látið sitja.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En erindi mitt hingað upp í ræðustólinn var ekki síst að benda þm. á þetta misræmi í hækkunum liða, að því er varðar Lánasjóð ísl. námsmanna og svo aftur hækkunina til þeirra þjóðfélagsþegna sem við erum sammála um að eigi það helst skilið að samfélagið muni eftir þeim. Ég vænti þess, að þó að ýmsum þm. verði hugsað til þessarar stóru hækkunar til þessa eina liðar, þá verði það ekki lagt út sem óvild í garð námsmanna. En það er nú svo, við höfum takmarkað fjármagn úr að spila, og það varðar miklu, að tekið sé tillit til allra aðstæðna og réttlætisins gætt eftir því sem kostur er.